Ísland er í þriðja sæti á lista yfir hamingjusömustu þjóðir heims. Samt er sjálfsvíg ein algengasta dánarorsök íslenskra barna.
Tvær fjórtán ára stúlkur, fimmtán ára drengur og átján ára drengur. Öll þessi börn létu lífið af völdum sjálfsvígs árið 2021. Það gerðu einnig 22 ára stelpa, 24 ára strákur og 25 ára strákur.
Einamanaleiki unga fólksins
Staðreyndin er sú að aðeins 40 prósent Íslendinga á aldrinum 18 til 24 ára eru hamingjusamir. Einmanaleiki eykst hér á landi og er borinn uppi af ungu fólki. Sem þýðir að einmanaleiki og félagsleg útskúfun mælist mest á meðal yngstu kynslóðarinnar. Þriðjungur stelpna í 10. bekk segjast vera einmana og 10 prósent stráka á sama aldri. „Unga fólkið okkar er einangraðra og á erfiðara með að mynda tengsl, á erfiðara með að fá hlýju og umhyggju frá foreldrum sínum og við þurfum virkilega að skoða hvað það er og hvað við getum gert til að bæta það,“ segir Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá Embætti landlæknis.
Alls lýsa 44 prósent grunnskólabarna depurð og 56 prósent lýsa kvíða. Norrænar rannsóknir hafa bent á tengsl milli ójöfnuðar og tilfinningalegra erfiðleika meðal ungs fólks. Sama mynd teiknast upp í Íslensku æskulýðsrannsókninni. Börnum sem búa við slæmar efnahagslegar aðstæður fjölskyldunnar líður verr, eru frekar með kvíða, borða síður morgunmat og sofa minna.
„Hjarta mitt er einmana,“ segir í textanum Eitravík, á nýrri plötu eftir Ísleif Illugason. Þar segir frá ungum manni sem upplifir sjálfan sig ekki eins og annað fólk, horfir upp á félagana ná árangri en finnst hann alltaf skilinn eftir, segist vera í neyslu sem drepur. Hún er fokking rugl, svo stattu þig. „Ég veit að ég er brotinn en ég reyni að bæta mig. Ég er klæddur svörtu, demantar fela brotin hjörtu. Þegar ég dey mega homies rúlla upp mína ösku.“
Flótti í efnishyggju
Kannski er ekki tilviljun að fólk flýr vanlíðan í efnishyggju, sem stundum virðist vera allsráðandi í íslensku samfélagi og dægurmenningu, þar sem ungt fólk slær um sig með peningum og merkjavöru. En efnishyggjan tætir sálarlífið. Meira að segja Patrik Atlason, Prettyboytjokko, lýsir því hvernig hann sé hættur að fela sársaukann á bak við grímuna.
Á alþjóðlegum hamingjudegi í síðustu viku vísaði Dóra Guðrún í orð Dalai Lama: „Það sem kemur mér mest á óvart í mannlegri tilveru er að maðurinn fórnar heilsu sinn til að eignast peninga. Svo fórnar hann peningunum til ná aftur heilsu sinni. Á sama tíma er hann svo spenntur fyrir framtíð sinni að hann nýtur ekki augnabliksins. Afleiðingin er sú að hann lifir hvorki í nútíð né framtíð. Og hann lifir eins og hann muni aldrei deyja – og svo deyr hann án þess að hafa lifað.“
Í bókinni Maður lifandi orðar Kristinn Óli Haraldsson þetta svona: „Uppvöxtur eru vörusvik, ef þú getur, snúðu við. Hérna er ekkert nema kortareikningar og rúðupiss, ekkert frelsi að finna, bara áhyggjur og kvíði. Það að skulda mikinn pening er að stjórna eigin lífi. Allir stefna að því sama, elta drauma, gera allt betra, en áður en það tekst munu flestallir drepast.“
2020
Árið 2020 féll ellefu ára drengur fyrir eigin hendi. Fjórtán ára drengur, sautján ára drengur og átján ára drengur, nítján ára stelpa, 22 ára strákur, 24 strákur, 24 ára stelpa og 25 ára strákur.
Óvíst var um ásetning við fráfall 19 ára stráks.
Þá eru ótalin þau sem létust af völdum ofneyslu lyfja. Þeir sem hafa átt við fíknivanda að etja eru 4 sinnum líklegri til þess að hafa reynt að svipta sig lífi en aðrir.
Tjá sársauka með tónlist
Ungir strákar sem tilheyra hópi tónlistarmanna sem tala til sinnar kynslóðar og njóta mikilla vinsælda, eiga margir sammerkt að hafa á undanförnum árum notað listina til að lýsa sárri vanlíðan og flótta. Flótta í píur, peninga og dóp. Og hugsanir um dauðann.
„Ég hugsa að ég gæti drepið mig. Mér líður best þegar sólin sést ekki inn. Mun þessi vetur loks krossfesta mig,“ syngur Logi Pedro Stefánsson í laginu Dúfan mín: „Ég reykti eina, tvær, þrjár. Blandaði vínið, fór í black out. Enda með eina, tvær, þrjár. Skaust út í geim í smá time out.“
Sama stef er að finna í Falskar ástir frá Flóna: „Ég elska ekki sjálfan mig,“ syngur hann, tómur að innan, búinn að deyfa sig og getur ekki tekist á við sjálfan sig. Sami strákur og gaf út lag um að ungir strákar elski að taka dóp: „Meiri ró, meiri dóp, komið já.“
Þekktir listamenn stíga fram
Í kringum útgáfu plötunnar Litlir svartir strákar ræddi Logi Pedro opinskátt um þunglyndi og kvíða: „Hvað það væri glatað, sárt og erfitt að vera forritaður þannig að maður þorði aldrei að tala um tilfinningar sínar. Að einhverju leyti hafa allir strákar þjáðst í gegnum líf sitt og þora ekki að bera sig.“ Það var síðan í jarðarför stráks sem fyrirfór sér sem hann áttaði hann sig á því að hann yrði að takst á við eigin vanlíðan: „Heilsunnar vegna og lífsins vegna“.
Fyrir jólin kom út ljóðabókin Maður lifandi eftir Króla, sem var skrifuð til að takast á við þunglyndi. „Sirka þúsund ár síðan ég felldi tár. Ekkert til að vera stoltur af, mörg ógróin sár,“ segir þar. „Allt mislyndið, öll mistökin, ég tókst ekki á við áföllin.“
Við útgáfu bókarinnar lýsti Króli því hversu hætt hann var kominn, búinn að ákveða stað og stund, þegar vinur hans kom honum óafvitandi til bjargar. Í textum hans birtist þessi þrá, þegar byrðarnar verða of þungar: „Baugar eins og panda, ósofinn því ég hata að dreyma svarta hunda að elta mig. En kannski ætti ég að prófa að sofna og vakna aldrei aftur. Djók. Vantar deyfingu, áttu læknadóp.“
2019
„Þögnin tekur yfir þega myrkrið ræður ríkjum.“
Árið 2019 fyrirfór sautján ára drengur sér. Það gerðu líka 19 ára strákur, 21 árs strákur og tvær 24 ára stelpur.
Eitur samkeppni og vanlíðunar
„Hér eru engir englar, þetta er Eitravík,“ segir Ísleifur og á við Reykjavík. Dýragarð, fullan af „alls konar eitri, líka eitri samkeppni og vanlíðunar,“ útskýrir hann í viðtali við Morgunblaðið. Í sínum textum tekst hann á við kvíða, tómleika og tengslaleysi. Flótta frá vanlíðan í fíkniefnaneyslu, djöfla í höfðinu og hugsanir um dauða. Almennt á hann ekki auðvelt með að tjá sig um þessa hluti, hvorki við fjölskyldu né félaga, en þá er frelsandi að geta notað tónlistina til að tjá flóknar tilfinningar. „Mér finnst ungir strákar ekki nóg duglegir að tjá sig um tilfinningar og hvernig þeim líður. Mér finnst fallegt að geta með þessari plötu kannski verið ungum strákum hvatning til að opna sig.“
Enda hefur hann í kjölfarið fengið fullt af skilaboðum frá ungum strákum sem tengja við reynslu hans. „Strákar þora margir ekki að sýna nánd, þeir haldast ekki nógu mikið í hendur. Kannski er um að kenna ótta við úrelta karlmennskuímynd, en það er alveg hægt að vera kúl og kvíðinn á sama tíma.“
2018
Árið 2018 létust sextán og sautján ára drengir vegna sjálfsvíga, tveir átján ára strákar, átján ára stelpa og 24 ára stelpa. Á undanförnum árum hafa fleiri börn látist vegna sjálfsvíga en af slysförum.
Missa svefn vegna snjallsíma
Engin ein ástæða er fyrir vanlíðan ungs fólks, en aðspurður talaði Ísleifur um þyngslin sem fylgja myrkrinu, þegar það tekur að dimma um fjögur á daginn. Samfélagsmiðlar hafi heldur ekki góð áhrif á líðan ungs fólks. „Þar er verið að fegra alla hluti og allir að keppast við að líta sem best út, fyrir það eitt að fá sem flest læk. Eilífur samanburður gerir engum gott og veldur togstreitu á milli fólks.“
„Einn áhættuþáttur fyrir sjálfsvígum er mikil notkun samfélagsmiðla,“ sagði teymisstjóri á barna- og unglingageðdeild í viðtali við Heimildina. Það sama kom fram í viðtali við geðlækni á barna- og unglingageðdeild sem birt var í Læknablaðinu árið 2021. Með tilkomu snjallsíma hafi allt breyst. „Síðan þá sofa börnin okkar miklu minna, sumir segja tveimur tímum skemur að meðaltali en þau gerðu. Áhrifin á svefninn eru gífurleg,“ sagði hann.
Niðurstöður rannsókna hafa einmitt sýnt fram á fylgni á milli aukins skjátíma og einkenna þunglyndis, kvíða og líkamlegra óþæginda. Í niðurstöðum Rannsókna og greininga, mátu nemendur í 10. bekk andlega heilsu borið saman við fjölda klukkutíma sem þeir vörðu á samfélagsmiðlum á dag.
Af þeim sem verja nær engum tíma á samfélagsmiðlum mátu 63 prósent andlega heilsu góða eða mjög góða. Ef börnin vörðu þremur klukkustundum á samfélagsmiðlum féll hlutfallið niður í 49 prósent og 38 prósent eftir fimm tíma. Enn neðar eftir sex tíma notkun samfélagsmiðla.
Skaðleg samskipti á samfélagsmiðlum
Hin 16 ára Sóley Guðjónsdóttir frá Reykjanesbæ lýsti þessum veruleika á alþjóðlegum hamingjudegi fyrr í vikunni. Nánast allan vökutímann er hún vakandi yfir samfélagsmiðlum, þar sem allt of auðvelt er að nálgast fólk með neikvæðum athugasemdum og leiðindum, útskýrði hún. „Ég sem sextán ára stelpa hef upplifað alls kyns fordóma og neikvæðar athugasemdir á samfélagsmiðlum.“
„Margir unglingar tala mjög gróflega við hver annan,“ sagði önnur unglingsstúlka, Thelma Lind Árnadóttir, við sama tækifæri. „Þótt það sé útskýrt fyrir börnum hvað þetta sé særandi og geti haft mikil áhrif þá hætta þau ekki. Af hverju stoppa þau ekki? Vantar þau aðstoð? Gera börn sér ekki grein fyrir því hvað orð geta sært mikið?“
Grunnskólinn hennar ákvað að banna síma á skólatíma. Eftir það varð allt betra, segir hún, nemendur vörðu meiri tíma saman, mynduðu sterkari tengsl og áttu auðveldra með að einbeita sér að náminu.
Sagði allt of fáa fá hjálp
„Ísland er í topp þremur á einhverjum lista, en samt eru mörg börn í kringum mig sem líður ekki vel,“ sagði hún.
Sjálf þurfti Thelma Lind að ganga í gegnum erfiðleika. Í 5. bekk tók nýr kennari við bekknum, sem gerði meiri kröfur. Hún var með lélegt sjálfsmat, átti erfitt með að einbeita sér, var skapstór, þreytt og kvíðin, með mótþróaþrjóskuröskun. „Í öllum foreldraviðtölum sem ég fór í byrjuðu þau alltaf á: Hún er of lengi að taka upp bækur, truflar tíma, neitar að læra.“ Í 9. bekk greindist hún með athyglisbrest, byrjaði á lyfjum og lífið snarbatnaði. „Allt of fáir fá þá hjálp og greiningar sem þeir þurfa. Ef merki er um hegðunarvanda og vanlíðan barna þarf að flýta ferlinu eins mikið og hægt er.“
Síðastliðið haust hreyktu ráðamenn sér af því að biðlisti á barna- og unglingageðdeild hefði ekki verið jafn stuttur frá árinu 2006. Samt voru 49 börn á biðlistanum og meðalbiðtíminn um fimm og hálfur mánuður, fyrir börn sem þegar var búið að meta með svo alvarlegan geðrænan vanda að þau þyrftu á sjúkrahúsþjónustu að halda.
Á höfuðborgarsvæðinu biðu síðan 386 börn eftir því að komast að hjá sálfræðingi hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Börnin sem þola enga bið
Síðustu ár hefur að jafnaði eitt barn á dag leitað bráðateymis barna- og unglingageðdeildar. Bráðateymið tekur á móti börnum þegar öryggi þeirra er ógnað, þau eru með virkar sjálfsvígshugsanir eða geðrofs- eða geðhvarfaeinkenni. „Þetta þrennt þolir enga bið,“ sagði verkefnastjóri á deildinni í viðtali við Heimildina.
En börn hafa samt þurft að bíða. Árið 2022 gerði þrettán ára drengur þrjár alvarlegar sjálfsvígstilraunir á tíu mánuðum. Eftir þriðju sjálfsvígstilraunina fór hann í stutta bráðainnlögn, var síðan sendur heim og lenti á margra mánaða biðlista eftir meðferðarinnlögn.
Önnur móðir lýsti því að syni hennar hafi verið sleppt af spítala daginn eftir sjálfsvígstilraun. Tveimur mánuðum síðar var hann látinn.
2017
Ekkert barn fyrirfór sér árið 2017, sem betur fer. Það gerðu hins vegar átta ungmenni undir 25 ára aldri.
Sama ár var tvítug stelpa myrt.
Afleiðingar af niðurskurðinum
Geðlæknir á barna- og unglingageðdeild benti á alvarlegar afleiðingar niðurskurðarins í kjölfar efnahagshrunsins. „Hagrætt var í skólarekstri með því að fækka sérfræðingum í skólum eins og sérkennurum. Dregið var úr öllum úrræðum sem voru til áður fyrir börn sem glíma við sérþarfir.“
Úthlutuðum kennslustundum var fækkað. „Vikulegur kennslutími nemenda var skertur, næðisstundum fækkað, kennsluskylduhámark kennara fullnýtt og samkennsla aukin.“ Dregið var úr yfirvinnu og forfallakennslu, auk þess sem skólaliðum, stuðningsfulltrúum og skólasafnskennurum var fækkað.
„Við læknar finnum þetta í starfi okkar. Það hefur komið skellur síðustu ár því með niðurskurði sem þessum aukum við geðrænan vanda ungmenna nokkrum árum seinna.“
Rannsóknir sýna að gott umhverfi í skólum hefur jákvæð áhrif á geðheilsu ungs fólks. Grunnskólaneminn Thelma Lind kallaði því eftir því í erindi sínu á alþjóðlegum hamingjudegi að öll börn fái rými í skólanum til að geta einbeitt sér og blómstrað. „Ættu grunnskólar að minnka það aðeins að vera svona ferkantaðir?“ spurði hún. „Eru bekkirnir of stórir? Eru allir að ná að tengjast? Ég held að það mætti skipta skólum upp í minni einingar og hafa þá fleiri, en ekki stækka og stækka skóla, því þá minnka möguleikar á góðum tengslum og kennarar geta ekki fylgt nemendum eftir og veitt þeim þá hjálp sem þeir þurfa.“
Að lokum velti hún því upp hvort það væru nógu margir kennarar til að sinna öllum þessum fjölda barna. „Er öruggt að kennurum, og öðrum sem vinna í skólum, líði vel? Eins og flugfreyjurnar segja þá þarftu fyrst að setja súrefnisgrímuna á þig svo þú getir hjálpað öðrum.“
Loftgæði og lífshamingja ungs fólks
Við sama tilefni benti Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra á 40 velsældarmælikvarða, þar sem „viðurkennt er að það snýst ekki allt um verðmætasköpun, hverfist ekki allt um að mæla í krónum eða aurum allt það sem lagt er af mörkum í vinnuframlagi eða öðru sem við erum að fást við. Til að mynda hreint loft. Við gleymum því oft að meta það.“
Það er líklega rétt hjá ráðherra að loftgæði landsins eru ekki ofarlega í huga ungs fólks, sérstaklega þeirra sem fá ekki viðeigandi aðstoð við að takast á við áföll, vanlíðan og geðrænar áskoranir.
Á meðal íslenskra grunnskólabarna hefur sjötta hver stúlka í 10. bekk orðið fyrir alvarlegri kynferðislegri áreitni af hálfu fullorðins aðila, 15 prósent þeirra hefur verið nauðgað af öðrum unglingi og 58 prósent unglingsstúlkna hefur verið beitt stafrænu kynferðisofbeldi.
Ellefu prósent barna hafa upplifað heimilisofbeldi.
Þessar tölur birtust í Íslensku æskulýðsrannsókninni 2023. Þar kom jafnframt fram að meirihluti þessara barna sagði engum frá ofbeldinu sem þau voru beitt. Í upplýsingum frá Pieta-samtökunum kemur fram að þeir sem hafa orðið fyrir líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu ofbeldi eru sex sinnum líklegri en aðrir til þess að reyna að svipta sig lífi.
Alls segjast 37 prósent stelpna í 10. bekk hafa fengið sjálfsvígshugsanir á síðustu tólf mánuðum og 21 prósent stráka. Eldri könnun Rannsóknar og greiningar leiddi í ljós að alls höfðu hátt í þúsund menntaskólanemar, eða 613 stelpur og 350 strákar, gert tilraun til sjálfsvígs.
2011 til 2016
Sextán og átján ára drengir fyrirfóru sér árið 2016. Það gerðu líka tveir nítján ára strákar, tvítugur strákur, 23 ára og tveir 25 ára. Og 25 ára stelpa. Í tilfelli tveggja til viðbótar, átján ára og 23 ára, var óvíst um ásetning.
Á árunum 2011 til 2014 fyrirfóru sér 22 börn og ungmenni á aldrinum 10 til 25 ára. Þeirra á meðal voru ellefu ára strákur, fimmtán ára strákur og tveir sextán ára.
Ávarp ráðherra
Sem fyrr segir var boðað til fundar í síðustu viku til að kynna niðurstöður skýrslu sem staðfesti sess Íslendinga á meðal hamingjusömustu þjóða heimsins. Í ávarpi heilbrigðisráðherra minntist hann ekki einu orði börnin sem glíma við djúpstæða vanlíðan, aðgerðir til að grípa þau eða fjármögnun slíkra verkefna.
En hann hrósaði hann ríkisstjórninni fyrir árangurinn. Ísland er jú í þriðja sæti yfir hamingjusömustu þjóðir heims. Það væri „nú oft þannig að það er ekki fyrr en maður kemur á vettvang erlendis og ræðir þessi mál í alþjóðlegu samhengi að við áttum okkur á að við erum stundum dálítið góð í því sem við erum að gera“.
En það er ekki nóg að vera „dálítið góð“ í að vernda sálir barna. Ekkert er mikilvægari mælikvarði á árangur stjórnvalda en hamingja fólksins. Og allt of stór hópur ungs fólks á Íslandi lýsir sárri vanlíðan.
Viðvörunarmerkin eru úti um allt.
Athugasemdir