Að vera eða ekki vera kartöfluflaga. Nýverið tapaði flöguframleiðandinn Walkers dómsmáli í Bretlandi þar sem tilvistarspurningin var útkljáð. Stjórnendur Walkers leituðust við að sýna fram á að indversku „poppadom“ flögur fyrirtækisins væru í raun ekki flögur heldur hliðarréttur. Ástæðan var skattalegs eðlis. Í Bretlandi eru matvæli sem seld eru í verslunum undanskilin virðisaukaskatti. Frá er þó talin óhollusta á borð við gosdrykki, ís og kartöfluflögur sem af þarf að greiða 20 prósenta virðisaukaskatt.
Það er ekki aðeins kartöfluflagan sem er í tilvistarkreppu um þessar mundir.
„Ríkisfyrirtæki á ekki að kaupa tryggingafélag,“ skrifaði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra á Facebook þegar fréttir bárust af því að Landsbankinn hygðist kaupa vátryggingafélagið TM af Kviku banka. Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, brást við gagnrýni Þórdísar með þeim orðum að Landsbankinn væri ekki ríkisfyrirtæki heldur „almenningshlutafélag nær eingöngu í eigu ríkisins“.
Að vera eða ekki vera ríkisfyrirtæki. Líklega markar efinn álíka djúp spor í líf venjulegs fólks og spurningin „hvenær er flaga flaga?“ Vægið sem ráðamenn gefa þessari tilvistarspekilegu spurningu varpar hins vegar ljósi á skeytingarleysi þeirra í garð fólksins í landinu.
Vankunnátta á kennisetningunni
Á sama tíma og breskur dómari komst að þeirri niðurstöðu að flögur væru flögur skar nefnd á vegum kaþólsku kirkjunnar úr um uppruna annars skyndibita.
Árið 2016 keypti Gisella Cardia, ítalskur dulspekingur, styttu af Maríu mey og reisti hana á hæð í smábænum Trevignano. Cardia kvað styttuna fjölfalda pitsusneiðar líkt og Jesús breytti vatni í vín. „Þetta var pitsa fyrir fjóra sem nægði ofan í tuttugu og fimm manns,“ fullyrti hún. Söfnuður varð til í kringum styttuna. Tóku áhangendur að safnast saman á hæðinni til að berja styttuna augum, heita á hana fé og hlýða á boðskap sem barst Cardia frá styttunni.
Fyrr í mánuðinum, eftir ítarlega rannsókn, komst kirkjunefnd að þeirri niðurstöðu að Cardia væri kuklari. Sagði nefndin, sem samanstóð af guðfræðingi, sálfræðingi og sérfræðingi í Maríu mey, að í skilaboðum styttunnar mætti greina vankunnáttu á kennisetningunni, sem ekki væri Maríu mey sæmandi. Var Cardia skipað að hætta að standa fyrir samkomum á hæðinni.
Trúarleg þráhyggja
Kaup Landsbankans á TM vöktu eðlilega furðu fjármálaráðherra. Hver er tilgangurinn með kaupunum? Er þeim aðeins ætlað að „auka verðmæti bankans“ eins og bankastjórinn orðaði það? Eða er þeim einnig ætlað að efla þjónustu bankans við landsmenn? Kannski bæta kjör á vátryggingamarkaði? Er víst að fjárfestingin sé sú himnasending sem gefið er í skyn?
Í ljós kom hins vegar að áhyggjur fjármálaráðherra voru ekki af praktískum toga heldur eingöngu hugmyndafræðilegum. „Þessi viðskipti verða ekki að veruleika með mínu samþykki, nema söluferli Landsbankans hefjist samhliða,“ hvæsti Þórdís Kolbrún á Facebook.
Af trúarlegri þráhyggju fordæmir fjármálaráðherra kapítalískt kukl bankastjóra Landsbankans fyrir að samræmast ekki kennisetningunni. Rétt eins og nefnd kaþólsku kirkjunnar í Trevignano kemst Þórdís að þeirri niðurstöðu að það séu aðeins útvaldir sem mega hagnast á loforðum um að geta breytt vatni í vín og pitsu í stærri pitsu.
Á sama tíma stendur bankastjórinn Lilja keik, eins og hún hefði farið út í búð til að kaupa í matinn en komið heim með „Birkin Bag“ og reyni nú af manískum gáska að sannfæra sjálfa sig og aðra um að ekki aðeins séu skyndikaupin snjöll langtímafjárfesting heldur sé ekkert óeðlilegt við það að koma heim úr verslunarleiðangri með handtösku í staðinn fyrir mjólk og lambhagasalat.
Inn á sviðið stígur þá Bankasýslan sem allir héldu að búið væri að leggja niður – þar með talið hún sjálf – eins og slefandi uppvakningur sem hafði verið falið að gæta krúnudjásnsins fyrir ruplandi ræningjum. Af framgöngu stofnunarinnar að dæma mætti þó ætla að öryggi verðmætanna hefði aldrei verið markmið hennar.
Aðalfundur Landsbankans átti að fara fram í vikunni en honum hefur verið frestað til 19. apríl. Mun þar mæta einhver fulltrúi sem hefur hagsmuni hluthafanna, okkar, að leiðarljósi?
Athugasemdir (6)