Árið er 1991. Ég er ung kona, tuttugu og tveggja ára. Ég er nýorðin móðir hennar Kollu minnar sem í dag er barnasálfræðingur og starfar mér við hlið. Við mæðgurnar vinnum saman í þágu barna. Ég hef svo oft haft á orði að það sé henni að þakka að ég er á þeim stað sem ég er í dag. Hún var lífsbjörgin og hún gaf mér tilgang. Ég vildi gefa henni nýjan og heilbrigðan farveg til að vaxa upp úr. Mér var gefin þessi mikilvæga sýn á sínum tíma hjá ráðgjafa í Al-anon. Á bak við það að skapa nýjan farveg liggur mikil vinna og sú vinna fer aðeins fram með því að taka einn dag í einu í auðmýkt og þakklæti. Ég vissi hvernig manneskja ég vildi verða, ég vissi hvaða lífi ég vildi lifa og ég vissi hvað ég vildi gefa áfram. Þessi sýn varð minn áttaviti.
Æfingin mætir mér hvert sem ég fer og þá einna helst í öllu þessu smáa. Það má gera mistök og það má ruglast en það sem ég hef lært er að fyrirgefa mér og sýna sjálfri mér mildi þegar það gerist. Þannig rata ég alltaf aftur til baka. Gott dæmi um það sem mér finnst mikilvægt að æfa er virðing fyrir öllum. Ég tala við fólk en ekki um fólk og ef ég tala um fólk þá geri ég það fallega. Við erum öll að gera okkar besta. Þitt besta og mitt besta er ekki endilega það sama en það færir mér hugarró að velja að vera orðvör og einbeita mér að því sem snýr að mér. Annað er ekki á mínu borði.
„Ég tala við fólk en ekki um fólk og ef ég tala um fólk þá geri ég það fallega“
Heiðarleiki gagnvart sjálfri mér og líðan minni er mér einnig mjög mikilvægur. Eitt af því sem ég nota sem leið til að greina líðan mína er að líta inn á við og spyrja mig hvort tilfinningin sem ég finn sé kvíði eða depurð. Ótti og kvíði er of mikil framtíð, depurð eða eftirsjá er of mikil fortíð. Þetta hjálpar mér að vera í jafnvægi og hér og nú. Ég lærði fljótt að taka engar ákvarðanir nema í jafnvægi. Ég leyfi því ójafnvægi og pirringi að líða hjá og tek hvorki sjálfa mig né annað fólk niður. Ef ég finn pirring eða að einhver manneskja eða aðstæður eru að fara að trufla mig þá veit ég að ég á það, það snýr að mér og minni stillingu. Mín líðan hefur alltaf bara með mig að gera, ekki annað fólk eða þær aðstæður sem ég er í. Ég tek eignarhald á líðan minni og þess vegna get ég unnið með hana. Það eru viðbrögð mín sem ég stjórna sjálf sem skapa vellíðan mína.
Lífið streymir til okkar og það eina sem við vitum er að allt er breytingum háð. Eini fastinn í lífinu eru breytingar. Galdurinn er að líta inn á við og spyrja sjálfa/n sig, hvað ætlar þú að gera í því? Hvað ætlar þú að gera til að láta þér líða vel og til að vaxa sem manneskja? Það er sérlega mikilvægt fyrir okkur sem erum í kringum börn og störfum með börnum að vera í góðu jafnvægi. Það er þegar á reynir sem ég anda áður en ég bregst við. Ég hefði aldrei trúað því hverju æfing til þrjátíu og þriggja ára, þar sem ég vakna alla daga í meðvitund og held af stað takandi fulla ábyrgð á líðan minni og jafnvægi, gæti skilað mér. Ég elska að eldast því tíminn er að vinna með mér.
„Eini fastinn í lífinu eru breytingar“
Að láta gott af sér leiða og vilja vera til staðar gefur mér ótrúlega mikið. Það er stór gjöf að hafa það til að bera að geta verið til staðar, sérstaklega þegar á reynir. Það er lýsandi fyrir mig þegar ég var á þeim stað í lífinu með Kollu mína litla hjá mér og með þann einlæga ásetning að vilja skapa nýjan farveg fyrir okkur mæðgur þegar ég sest niður hjá sálfræðingi og spyr: „Hvað er að hjá mér?” Með þessari nálgun öðlaðist ég skilning á mér og mínum aðstæðum og gat því unnið með hvort tveggja. Ég leita mér alltaf hjálpar þegar ég finn að ég þarf aðstoð því ég vil að lífið haldi áfram í gleði og kærleika. Og þannig vil ég vera til staðar fyrir aðra.
Síðan í janúar 2006 hefur Laufásborg verið mitt leiðarljós. Þar höfum við sem stöndum að skólanum skapað samfélag sem stækkar mig hvern einasta dag því það er með iðkuninni í barnastarfinu sem ég hef líka vaxið. Það hefur gefið mér mikinn styrk og seiglu að leiða og þróa það fallega og öfluga starf sem við stöndum að á Laufásborg. Þau tengsl sem hafa myndast í gegnum starf mitt eru mér ómetanleg. Rannsóknir sýna endurtekið að einn mikilvægasti þátturinn í heilbrigði eru góð tengsl við fólk og það að láta gott af sér leiða. Ég er þakklát fyrir þá gæfu í mínu lífi að vera umvafin kærleiksríku fólki.
Mín reynsla hefur kennt mér að nákvæmni er leið til árangurs og að afsakanir eru fyrirstaða. Ég hef lært að standa með sjálfri mér þegar ég hef tekið ákvarðanir fyrir mig og mína og að standa með því sem ég trúi á og vil sjá í mínu lífi. Ég horfi á það góða og ég er þakklát fyrir mig og mitt. Að iðka þakklæti er gjöf sem gefur. Lífið mitt í hnotskurn, einmitt þessa stundina er ég að skrifa þessa grein hjá systur minni og með vinkonu mína mér við hlið. Mér er lyft og ég er gripin, er ég heppin eða heppin?
Megi það byrja með mér.
Athugasemdir (2)