Stjórn Samtaka atvinnulífsins (SA) tilkynnti fyrir skemmstu um ákvörðun sína um að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu um verkbann á félagsmenn VR.
Í tilkynningu SA segir að ákvörðunin sé tekin í ljósi atkvæðagreiðslu VR um boðun verkfallsaðgerða fyrir starfsfólk Icelandair sem sinnir farþega- og hleðsluþjónustu á Keflavíkurflugvelli.
Verði verkbannið samþykkt mun það ná til alls skrifstofufólks sem á aðild að VR og fellur undir almennan kjarasamning SA og VR. Ekki liggur fyrir hversu stór sá hópur er. Í frétt Vísis er haft Ragnari Þór Ingólfssyni að verkbannið gæti náð til allt að tug þúsunda félagsmanna. Þá er gert ráð fyrir því að verkbannið taki gildi á sama degi og verkfall VR er ætlað að hefjast, 22. mars.
Í tilkynningunni er haft eftir Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra SA, þar sem hún segir að kjarasamningar sem undirritaðir voru fyrir skömmu og markmiðum þeirra „standi ógn af boðuðum skæruverkföllum í tengslum við sérkjarasamning sem leiðir af aðalkjarasamningi VR.“
Atkvæðagreiðsla um verkbann hófst í dag um hádegi og lýkur 14. mars klukkan tvö. Í tilkynningu SA segir einnig að upplýsingafundur muni fara fram klukkan tvö í dag.
Í síðustu viku tilkynnti samninganefnd VR um að hún hafi fengið heimild til þess að halda atkvæðagreiðslu um verkföll meðal flugvallarstarfsmanna Icelandair. En um er að ræða um 150 starfsmenn sem sinna innritun, töskumóttöku og brottförum.
Í tilkynningunni sem samninganefnd VR sendi frá sér í síðustu viku sagði að rík óánægja sé meðal margra starfsmanna Icelandair með vaktafyrirkomulagið og skert réttindi þeirra til samfellds vinnutíma.
Fréttin hefur verið uppfærð
Athugasemdir