Hið opinbera leggur fram 80 milljarða til að tryggja gerð kjarasamninga
Þessi grein birtist fyrir rúmlega 8 mánuðum.

Hið opinbera leggur fram 80 milljarða til að tryggja gerð kjarasamninga

Ríki og sveit­ar­fé­lög hafa skuld­bund­ið sig til að ráð­ast í marg­hátt­að­ar og kostn­að­ar­sam­ar að­gerð­ir til að liðka fyr­ir þeim lang­tíma kjara­samn­ing­um sem und­ir­rit­að­ir voru fyrr í dag.

Fríar skólamáltíðir, hærri fæðingarorlofsgreiðslur, hækkun barnabóta, sérstakur vaxtastuðningur, aukinn stuðningur við leigjendur og hóflegar gjaldskrárhækkanir. Þetta er það sem ríkisvaldið og sveitarfélög landsins koma með að borðinu til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Framlagið er nægjanlegt að mati þeirra sem unnið hafa að gerð samninganna, enda voru tímamótasamningar til fjögurra ára undirritaðir í Karphúsinu í dag. Samningar þar sem launahækkanir eru hóflegar svo hægt sé að ná niður verðbólgu, stuðla að lækkun vaxta og ná almennum stöðugleika í íslenskt efnahagslíf. Á móti þurftu stjórnvöld að leggja sín lóð á vogarskálarnar. 

Ríkisstjórnin metur umfang aðgerðanna á 80 milljarða króna á samningstímanum, sem gildir út janúar árið 2028. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var í dag vegna undirritunar kjarasamninga. Aðgerðirnar kynntu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, og Heiða Björk Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Greitt beint inn á lánin og hærri fæðingarorlofsgreiðslur

Það á að mæta auknum vaxtakostnaði heimila – en þau borguðu 22,5 milljörðum krónum meira í vexti á fyrri hluta síðasta árs en á sama tímabili árið áður – með sérstökum vaxtastuðningi. Í honum felst að sjö milljarðar verði greiddir út til heimila með íbúðalán. Um er að ræða einskiptisaðgerð sem mun einungis verða framkvæmd í ár. Hámark sérstaks vaxtastuðnings mun nema 150 þúsund krónur fyrir einstakling, 200 þúsund krónur fyrir einstæða foreldra og 250 þúsund krónur fyrir sambúðarfólk að teknu tilliti til skerðinga vegna tekna og eigna. Það þýðir á mannamálið að þeir sem þéna og eiga mikið munu ekki njóta þessa vaxtastuðnings. Vaxtastuðningurinn verður greiddur inn á höfuðstól íbúðalána, en ekki í peningum sem heimili geta eytt í eitthvað annað en niðurgreiðslu lána. Þó verður hægt að sækja um að fá að nota hann til að lækka afborganir. 

Það á að hækka barnabætur strax á þessu ári um þrjá milljarða króna og tvo milljarða króna til viðbótar á næsta ári. Það á að tryggja því að tíu þúsund fjölskyldur til viðbótar fái slíkar bætur og að umfang barnabóta á árinu 2025 verði komið í 21 milljarð króna á ári. 

Fríar skólamáltíðir

Stór breyta í aðgerðunum er tilraunaverkefni um að hafa skólamáltíðir gjaldfrjálsar frá og með ágúst næstkomandi og út samningstímann. Áætlað er að kostnaður við þessa aðgerð, sem skilar auknum ráðstöfunartekjum beint í vasa barnafjölskyldna, er fimm milljarðar króna á ári. Ríkið mun greiða 75 prósent af þeim kostnaði og sveitarfélög þann fjórðung sem upp á vantar. 

Til að treysta fjárhagslegt öryggi ungbarnafjölskyldna og stuðla að því að markmið fæðingarorlofskerfisins um samvistir barna við báða foreldra og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs nái fram að ganga verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þann 1. apríl 2024 úr 600 þúsund krónum á mánuði í 700 þúsund krónur., frá og með 1. janúar 2025 í 800 þúsund krónur og frá og með 1. janúar 2026 í 900 þúsund krónur. Þá ætla aðilar samkomulagsins að „taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum með því að tryggja öllum börnum leikskólavist.“ Engin útfærsla er á þessu markmiði í aðgerðaráætluninni. 

Auk þess verður stutt við uppbyggingu um þúsund íbúða á samningstímanum með stofnframlögum til almennra íbúða og hlutdeildarlánum. 

Langtímasamningar undirritaðir

Kjarasamningarnir eru til fjögurra ára og kallast „Stöðugleika- og velferðarsamningarnir“. Að þeim standa Breiðfylking stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði: Efling, Starfsgreinasambandið og Samiðn ásamt Samtökum atvinnulífsins. 

Í samningunum er samið um hóflegar launahækkanir þar sem laun munu hækka árlega um að lágmarki um 23.750 krónur og svo áfram í hlutfalli við það upp launaflokka. Þær munu gilda afturvirkt frá 1. febrúar síðastliðnum. Almennt verður launahækkunin 3,25 prósent í ár, 2024, en svo 3,5 prósent næstu þrjú ár. 

Öllum léttVilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gátu öll brosað í dag.

Í samningunum eru forsenduákvæði sem segja til um að samningarnir verða endurskoðaðir tvívegis á samningstímanum með tilliti til þróun verðbólgu. Það þýðir að ef verðbólga verður yfir ákveðnu marki á endurskoðunardögunum, sem eru 1. september 2025 og 2026, þá verður hægt að fara fram á endurskoðun kjarasamninga. 

Laun fólks sem starfar við ræstingar hækka umfram önnur. Samið var um að ræsting sem starf fari úr sex í átta launaflokka á meðan að framkvæmd er hæfnigreining á störfum í greininni. Svokallaður ræstingarauki upp á 19 þúsund krónur mun greiðast mánaðarlega ofan á kauptaxta með vísun í sérstakar vinnuaðstæður ræstingarfólks. 

Þá var samið um hækkun á desember- og orlofsuppbót, breytingar á fyrirkomulagi álagsgreiðslna hjá verkafólki í ferðaþjónustu og að vaktaálag hjá vaktavinnufólki verði greitt fyrir alla vinnu utan dagvinnutímabils fram að fullum vinnuskilum. 

Kjósa
7
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár