Flest held ég að við ferðumst í gegnum lífið með þá einlægu trú að fólkið í kringum okkur sé flest í grunninn gott; eða gangi í það minnsta gott eitt til. Í allra minnsta lagi að það sé fyrirsjáanlegt í því hvernig það bregst við hefðbundnum félagslegum aðstæðum. Ég mundi ganga svo langt að segja að einn helsti kostur okkar Íslendinga sé hvað við erum almennt fyrirsjáanleg og leiðinleg. Ekki taka því illa, það er góð jarðtenging í kaótískum heimi að geta nokkurn veginn gengið að fólki vísu.
Við ákveðin skilyrði virðist þessi ósýnilegi félagslegi sáttmáli samt fara í pappírstætarann og einhvers konar frumstæð framheilahegðun taka stjórnina. Slík skilyrði virðast hafa raungerst á sprengidagssamkomu Íslendinga á Costa Blanca á Spáni. Heimildir mínar herma að Costa Blanca sé einhvers konar lokað búsetuúrræði fyrir lífeyrisþega sem vilja eiga kost á því að rausa í betra loftslagi um að allt hafi verið betra í stjórnartíð Geirs Hallgrímssonar.
Það má því ætla að sprengidagur sé því sem næst trúarleg hátíð á svæðinu og í trúarhitanum virðast gestir hafa látið kappið bera fegurðina ofurliði. Vitni að atburðum hlaðborðsins lýsa hamförum; fremstu gestirnir skófluðu bita eftir bita á diskinn. Kílóa fjall af saltpækluðum kjötbitum. Svo mikið magn af natríumi og transfitu að það þyrmdi yfir alla hjarta-, meltingar- og öldrunarlækna landsins. Einhvern veginn tókst einhverjum að hesthúsa þessu kjötfjalli og fara aðra ferð áður en aðrir náðu að fara í sína fyrstu, og þau sem ekki náðu að klára vöfðu kjötbitum í álpappír og munnþurrkur og smygluðu með sér út af staðnum. Þegar upp var staðið hafði fjórðungur gesta ekki fengið neitt nema nokkra moðsoðna rófubita á meðan hinir voru sendir heim í læstri hliðarlegu eftir átið. Calígúla sjálfur hefði verið stoltur.
Það er eitthvað við hlaðborð sem rýfur nefnilega þennan næfurþunna samfélagssáttmála sem skilur okkur frá skepnunum. Ég hef sjálfur orðið vitni að þessu. Eftir menntaskóla vann ég lengi í eldhúsum ýmissa veitingastaða og hef gengið í gegnum allmörg jólahlaðborð. Jólahlaðborðið sem fyrirbæri er sögulega eitt máttugasta tól stjórnenda til að sefa langþreytt starfsfólk sem þráir fátt heitara en mannsæmandi laun, meiri tíma með ástvinum og djúpan skilning á mikilvægi sínu – en fær í staðinn þrjár sneiðar af djúpsaltaðri skinku, upphitaðar gratíneraðar kartöflur, og, ef það er mjög heppið, aðgang að öllu því ódýrasta áfengi sem staðurinn hefur upp á að bjóða. Þessar aðstæður eru algjör gróðrarstía fyrir fullkomið hömluleysi – en það er eitt tiltekið atvik sem minningar mínar sleppa aldrei undan.
„Jólahlaðborðið sem fyrirbæri er sögulega eitt máttugasta tól stjórnenda til að sefa langþreytt starfsfólk sem þráir fátt heitara en mannsæmandi laun, meiri tíma með ástvinum og djúpan skilning á mikilvægi sínu“
Hið hefðbundna jólahlaðborð er ekki þekkt fyrir léttmeti; majonesmarineruð síld í forrétt, ýmsar tegundir af söltuðu, reyktu og puruðu kjöti og hnausþykkur risalamande í eftirrétt. Þetta kvöld kom stórt fyrirtæki á hlaðborðið; allt borgað og opinn bar. Þetta byrjar alltaf eins, allir léttir og gaman. Fordrykkur, forréttur. Mikið hlegið. Svo kemur ákavítisflaskan. Meira hlegið. Ein ferð í purusteik, önnur í reykta svínaskanka. Bjórar og hvítvín. Einhver mætir með eiturgræn skot af Mickey Finn og maður sér myrkrið byrja að færast yfir hópinn. Loks þjappar fólk þessu niður með allt of stórri skál af risalamande.
Ég gleymi því aldrei þegar atvikið gerðist. Ég var staðsettur við stóra skurðarbrettið með veglega hrúgu af pattaralegum misreyktum kjötbitum sem ég sneiddi niður fyrir óendanlegu röðina af lífsþreyttum millistjórnendum þegar kona, á að giska ríflega sextug, stóð skyndilega upp hinum megin í salnum, alveg teinrétt í baki eins og fyrsti sýkti einstaklingurinn í uppvakningamynd. Hún snerist á punktinum og labbaði eins og vélmenni fram hjá öllum borðunum og út af staðnum. Fólki fannst þetta smá skrítið og fylgdi í humátt á eftir henni. Þegar komið var á vettvang sat aumingja konan náföl í tröppunum fyrir utan. Staðurinn var á annarri hæð og tignarlegar steintröppur upp að honum. Niður allar þessar tröppur lak svo hálfmelt inntak alls jólaseðils og hálfs drykkjarseðils staðarins. Þykk-kekkjóttur og Mickey-Finns-grænleitur vellingurinn streymdi niður þrepin líkt og Reykjafoss á vatnsmiklum degi; tignarlegt og í senn yfirþyrmandi. Kappið hafði borið fegurðina ofurliði.
Ég reyni stundum að ímynda mér hver þessi góðlega, fína kona var og hvað í hennar lífi hafi leitt hana að þessu andartaki. Kannski var hún búin að starfa þarna í 30 ár, alltaf skilað sínu verki fagmannlega; horft upp á kynslóðir koma og fara, skrifstofum breytt í opin rými, skipuritinu stokkað upp. Kraumandi inni í einhverri korporatískri vinnustaðamenningu allan sinn feril þar til að það verður eitthvert líkamlegt uppgjör þarna á jólahlaðborði um miðjan desember. Eða kannski borðaði hún bara og drakk yfir sig eins og svo margir aðrir höfðu gert.
Þetta félagslega taumhald er nefnilega burðarstólpi samfélagsins. Það eru ótal óskrifaðar reglur sem við höfum í gegnum árin komið okkur upp um hvernig við hegðum okkur í kringum hvert annað, hvernig við komum fram við aðra. Þessi sáttmáli er samt bara örþunn hula sem er sveipað yfir okkur og virðist hverfa við minnsta tilefni. Samfélagssáttmálinn virðist til dæmis oft rofna þegar fólk sest undir stýri og bíllinn breytist í einhvers konar huliðshjálm yfir alla mannlega reisn sem lætur fólk gleyma að stefnuljós séu til og að þau ættu að reyna eftir bestu getu að keyra yfir gangandi og hjólandi eins og þau séu að reyna að næla sér í Hare Krishna-bónusinn í Grand Theft Auto. Fyrir þetta fólk virðast samfélagsmiðlar vera sama siðrofsverndarsvæði þar sem það getur ekki komið nálægt lyklaborði án þess að deila a.m.k. fjórum falsfréttum um mismunandi minnihlutahópa.
Það virðist samt vera sífellt háværari orðræða að þessi samfélagssáttmáli sé ekki til. Að félagslegt taumhald sé bara einhver spáný pæling frá góða fólkinu hönnuð til þess að viðhalda einhvers konar ógnarstjórn yfir siðvitund hins blásaklausa almennings.
„Við höldum áfram að saka hvert annað og viðkvæmustu hópa samfélagsins um að rústa húsnæðismarkaðinum, menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu eða öðrum innviðum“
Auðvitað er þessi samfélagssáttmáli sífellt samtal – og að einhverju leyti lifir hann sjálfstæðu lífi sem er alls ekki á færi einhverra hópa að breyta. En það er samt óneitanlega hagur þeirra sem mest græða á sundrungu og menningarátökum að hann breytist ekki. Að við höldum áfram að rífast um hvar mörkin séu í niðurrifi á hópum sem vilja sækja aukin mannréttindi, öryggi, betra líf eða mannlega reisn í nafni þess að taka samtalið. Að við höldum áfram að saka hvert annað og viðkvæmustu hópa samfélagsins um að rústa húsnæðismarkaðinum, menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu eða öðrum innviðum. Innst inni hljótum við samt að vita betur.
Samfélagið er nefnilega bara sprengidagshlaðborð á Costa Blanca. Þeir sem hlaða diskana sína, töskur og panamahatta með feitum kjötbitum þar til borðið er nærri tómt eru löngu komnir út í leigubíl og heim að sofa á meðan við hin rífumst um hver fékk fleiri moðsoðna rófubita á diskinn sinn.
Athugasemdir (1)