Í viðtali við Ríkisútvarpið 30. janúar sl. sagði fjármálaráðherra brýnt að stofna Þjóðarsjóð til að bregðast við óhefðbundnum áföllum eins og nú hafa dunið á Grindavík, eða í tengslum við loftslagsbreytingar. Undir orð ráðherra tók Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og stjórnarformaður Náttúruhamfaratryggingar Íslands. Frumvarp um sjóðinn var lagt fram 2018 og 2019 en fékkst ekki útrætt. Nú vill fjármálaráðherra klára málið.
Í sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf, dags. 30. nóvember 2017, er samkomulag um stofnun Þjóðarsjóðs utan um arð af auðlindum landsins. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir auðlindarentu af fiskveiðum eða fiskeldi heldur miðast einkum við arð af auðlindum í umsjá Landsvirkjunar. Markmið með slíkum sjóði er að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum án þess að það leiði til skuldasöfnunar eða ójafnvægis í hagkerfinu. Þannig verði sjóðurinn nokkurs konar áfallavörn fyrir þjóðina þegar ríkissjóður verður fyrir fjárhagslegri ágjöf í tengslum við mikils háttar ófyrirséð áföll á þjóðarhag, annaðhvort vegna afkomubrests eða vegna kostnaðar við viðbragðsráðstafanir sem stjórnvöld hafa talið óhjákvæmilegt að grípa til í kjölfar áfalls eða til að varna því. Í frumvarpinu er tekið fram að átt er við annan skaða en þann sem tryggður er með Náttúruhamfaratryggingu Íslands og tekin dæmi af náttúruhamförum á borð við móðuharðindin (1783–1785) eða Heimaeyjargosið (1973), vistkerfisbrest eins og hrun síldarstofnsins (1969) eða farsótt á borð við spænsku veikina (1918). Þetta geta líka verið einhverjar alveg óþekktar hamfarir og hafa svipuð eða meiri áhrif á líf borgara þessa lands og þau áföll sem talin hafa verið upp hér á undan.
Nú hafa arðgreiðslur Landsvirkjunar verið lágar. Á undanförnum árum hefur fyrirtækið greitt 1,5 milljarð króna árlega í́ arðgreiðslur en árið 2018 hækkuðu arðgreiðslur í́ 4,25 milljarða króna. Frumvarpið miðar við að arðgreiðslur Landsvirkjunar hækki og fari upp í 10-20 milljarða króna á ári. Stjórnvöld reikna með að Þjóðarsjóðurinn nemi á bilinu 5 til 10% af landsframleiðslu þegar hann er að fullu fjármagnaður, sem jafngildir u.þ.b. 200 til 400 milljörðum króna. Fjármálaráðherra tekur þó fram í áðurnefndu viðtali við Ríkisútvarpið að uppbygging sjóðsins hefjist ekki að alvöru fyrr en skuldastaða ríkissjóðs verði löguð. Skuldastaðan er slæm og ríkissjóður er rekinn með miklum halla. Árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs nema tæpum 100 milljörðum króna samkvæmt fjárlögum. Þá þarf ríkissjóður að leggja hinum svokallaða ÍL-sjóði 200 til 250 milljarða króna árið 2034. Þetta er fyrir utan lífeyrisskuldbindingar vegna hinnar svokölluðu B-deildar sem er tryggð með beinni ábyrgð ríkisins. Þessar lífeyrisskuldbindingar námu um 620 milljarða króna í árslok 2017. Á árunum 2017 og 2018 greiddi ríkissjóður 5 milljarða króna inn á skuldina hvort árið um sig en árið 2019 voru greiðslurnar hækkaðar í 7 milljarða. Frumvarpið gerið ráð fyrir að haldist þessar inngreiðslur óbreyttar verði skuldin að fullu uppgreidd um 2060. Jafnframt er tekið fram að: „...að áður en langt um líður verði Ísland, eitt örfárra ríkja í heiminum, með traustar áætlanir um nánast fullfjármagnað og samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Slík staða felur í sér afar þýðingarmikinn styrkleika til frambúðar fyrir fjármál hins opinbera.“ Hér veifa stjórnvöld tálbeitu sem engin innstæða er fyrir, en hvað sem því líður er ekki ljóst af þessu frumvarpi hvenær Þjóðarsjóðurinn verður að fullu fjármagnaður.
Þjóðarsjóðir eru starfræktir víða um heim. Í meginatriðum eru til tvær gerðir sjóða, annars vegar sparnaðarsjóðir og hins vegar stöðugleikasjóðir. Þeir fyrrnefndu tengjast yfirleitt öldrun þjóða og þar af leiðandi fyrirsjáanlegum auknum opinberum útgjöldum, bæði lífeyrisgreiðslum og útgjöldum til heilbrigðismála. Tilgangur þeirra síðarnefndu er hins vegar að jafna sveiflur í útflutningstekjum og þeir eru einkum til í hrávöruútflutningslöndum sem eru háð einni hrávöru, t.d. olíu, kopar, demöntum o.þ.h.
Hugmyndir um íslenska Þjóðarsjóðinn falla ekki að þessum skilgreiningum heldur er annars vegar tekið mið af svokölluðum áfallasjóðum, sbr. Viðlagatryggingin, og hins vegar þjóðarsjóðum, þó frekar af áfallasjóðum. Íslensk stjórnvöld fara hér ótroðnar slóðir eins og oft áður.
Í frumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um Þjóðarsjóð eru tilgreindir nokkrir áfallasjóðir víða um heim. Samt er hvergi nefndur sjóður Evrópusambandsins (ESB): The Solidarity Fund and the Emergency Aid Reserve, Samstöðu- og neyðarsjóður Evrópusambandsins. Sjóðurinn gerir ESB kleift að veita aðildarríki, eða landi sem tekur þátt í aðildarviðræðum, stuðning til að takast á við afleiðingar stórfelldra náttúruhamfara eða neyðarástands á sviði lýðheilsu.
Samstöðusjóðurinn var stofnaður til að bregðast við hörmulegum flóðum sem gengu yfir Mið-Evrópu sumarið árið 2002. Síðan hefur verið úthlutað ríflega 130 sinnum úr sjóðnum, en 24 aðildarríki (auk Bretlands) og þrjú umsóknarríki (Albanía, Svartfjallaland og Serbía) fengið stuðning frá Samstöðusjóðnum að upphæð samtals 8,2 milljarðar evra.
Frá árinu 2021 hafa Samstöðusjóðurinn og Neyðaraðstoðarsjóðurinn verið fjármagnaðir sem einn sjóður: Samstöðu- og neyðaraðstoðarsjóðurinn (SEAR). Hámarks árleg fjárveiting fyrir SEAR er 1,2 milljarðar evra (á verðlagi 2018).
Aðstoð frá Samstöðu- og neyðaraðstoðarsjóðnum er í formi styrks til viðbótar útgjöldum viðkomandi ríkis og er ætlað að fjármagna nauðsynlegar neyðaraðgerðir til að bæta úr tjóni sem í grundvallaratriðum er ekki hægt að tryggja. Styrkhæfar aðgerðir eru:
-
Tafarlaus endurreisn innviða og aðstöðu sem veitir orku, drykkjarvatn, losun skólps, fjarskipti, flutninga, heilsugæslu og menntunar;
-
Útvegun bráðabirgðahúsnæðis og fjármögnun björgunarþjónustu til að mæta þörfum íbúanna sem verða fyrir áhrifum;
-
Tafarlaus sameining forvarnarinnviða og verndun menningarminja;
-
Hreinsun hamfarasvæða, þar á meðal náttúrusvæða;
-
Skjót aðstoð, þar á meðal læknisfræði, við íbúa sem verða fyrir áhrifum af alvarlegu neyðarástandi á sviði lýðheilsu og vernd íbúa gegn hættu á að verða fyrir áhrifum.
ESB getur veitt hvaða aðildarríki eða umsóknarríki fjárhagsaðstoð eftir miklar náttúruhamfarir. Tjónsríkið þarf að leggja fram umsókn sína innan 12 vikna frá hamförunum. Framkvæmdastjórnin metur umsóknina og leggur til fjárhæð aðstoðar.
Málsmeðferð við úthlutun styrks er fylgt eftir með fjárlagaafgreiðslu (samþykkt Evrópuþingsins og ráðsins), og getur tekið nokkra mánuði. Þegar fjárveitingarnar eru tiltækar gerir framkvæmdastjórnin samning við tjónsríkið og veitir styrk.
Frá og með árinu 2014 geta aðildarríki farið fram á fyrirframgreiðslur, sem framkvæmdastjórnin ákveður að veita, ef nægt fjármagn er fyrir hendi. Hámarksfjárhæð fyrirframgreiðslna er 25% af áætlaðri heildarfjárhæð fjárframlags úr Samstöðu- og neyðarsjóði og er hámarkið 100 miljónir evra, eða svipuð upphæð og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hyggst geta lagt í sinn Þjóðarsjóð eftir ótilgreindan tíma.
Styrkþegaríkið ber ábyrgð á því að nýta styrkinn og gera grein fyrir því hvernig honum er varið. Hægt er að fjármagna neyðaraðgerðir afturvirkt til að styrkja aðgerðir frá fyrsta degi hamfaranna.
„Ef þjóðin yrði fyrir öðru eins áfalli og móðuharðindin voru má ætla að bæði efnahagurinn og mannfjöldinn færðist hálfa öld aftur í tímann“
Greinilegt er á frumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að stjórnvöld átta sig hvorki á afleiðingum móðuharðindanna á heilsu forfeðra okkar né á efnahag landsmanna. Fyrst skal nefna að gosið í Laka var svo öflugt og svo mikið magn brennisteinsoxíðs náði upp í heiðhvolf að það skyggði á sól og fyrir vikið lækkaði hitastig víða á norðurhveli jarðar. Aska og flúor mynduðu mikla móðu og hennar varð vart um allt land. Gríðarlegt tjón varð af öskufalli og það var niðdimmt allan sólarhringinn, og það í júní. Fjölmargir flosnuðu upp frá heimilum sínum og urðu veglausir beiningamenn, eins og Grindvíkingar nú. Um það bil 20% þjóðarinnar létust ýmist beint af móðuharðindunum eða vegna ýmissa pesta sem geisuðu samhliða, og í kjölfarið fóru 14,8% allra býla á landinu í eyði. Þetta var landbúnaðarsamfélag, en ríflega helmingur alls bústofns landsmanna féll. Með öðrum orðum hvarf helmingur landsframleiðslunnar á einu bretti og ekki fór að sjá til sólar fyrr en um miðja 19. öldina.
Uppkaup ríkissjóðs á húseignum Grindvíkinga kosta 61 milljarð króna. Ef þjóðin yrði fyrir öðru eins áfalli og móðuharðindin voru má ætla að bæði efnahagurinn og mannfjöldinn færðist hálfa öld aftur í tímann, ef ekki enn lengra aftur, m.v. mannfjölda og landsframleiðslu á mann. Þá er allt annað ótalið. Það gefur auga leið að gagnvart slíku áfalli er ekki hægt að safna í sjóði. Eina hjálpin sem við Íslendingar getum hugsanlega fengið er frá vinveittum nágrönnum. Norðurlöndin hafa ætíð reynst okkur vel, sbr. aðstoð þeirra í móðuharðindunum og Hruninu 2008 en þá barst aðstoðin í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í dag byggist öll samvinna Norðurlanda á Evrópusambandinu og Schengen.
EES-samningnum veitir okkur ákveðna tryggingu en aðstæður í heiminum í dag hafa ekki verið eins hættulegar og ótryggar síðan í heimsstyrjöldinni. Einkum er það uppgangur öfgahægrimanna sem vekur ugg. Þeir ala á ótta og þjóðernishyggju og boða einangrunarstefnu í utanríkis- og efnahagsmálum. Fyrir bragðið gæti aðgangur okkar að Evrópusambandinu breyst á næstu misserum.
Frá lokum heimsstyrjaldarinnar og fram að síðustu aldamótum umhverfðist starf þjóðþinga um hin hefðbundnu hægri og vinstri gildi. Uppruni gildanna réðst af því hvar hinir pólitísku fulltrúar sátu á franska þinginu eftir byltinguna 1789. Þá var öfgahægrið ekki til. Nú dugir tvívíða myndin ekki lengur, nú hefur þriðja víddin bæst við: fasisminn. Hann er ekki jaðarbreyta í samfélaginu heldur innri breyta á hinu lýðræðislega þingi. Með öðrum orðum eru hægri og vinstri ekki lengur mæld út frá fjarlægð frá miðju eða nálægð við öfgar, heldur umfram allt eftir stærð og styrks þessarar þriðju víddar.
Fasisminn byggist á samvinnu lýðskrumara við fjármálaelítuna. Nýfrjálshyggjan meðtekur meginreglur fasismans: þjóðernishyggju, útlendingaóþol og stríðsáróður. Þannig verður nýfrjálshyggjan að fasískri frjálshyggju. Dæmi um þetta má sjá hérlendis; stjórn Katrínar Jakobsdóttur boðar í sömu orðum náttúruvernd og stóriðju, lækkun skatta auðmanna og aukin þjónustugjöld, en hvorki jafnræði né frelsi, heldur aðeins frelsi markaðarins. Þessi hugmyndafræði tíðkast nú víða um heim þegar hefðbundnir íhaldsflokkar samsamast öfgaflokkum. Skýrasta dæmið er stefna Donalds Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Slagorð hans: Make America Great Again eða á hinu ástkæra og ylhýra: Endurreisum veldi Bandaríkjanna, vísar til þeirrar efnahagsstefnu þar í landi sem ríkti fyrir valdatíð Franklin Delano Roosevelt (FDR) 32. forseta Bandaríkjanna 1933-1945. Frægastir boðberar hennar voru þeir John D. Rockefeller og J.P. Morgan sem byggðu allt sitt veldi á einokun, verndartollum og fyrirlitningu á verkamönnum. Roosevelt braut þá einokun á bak aftur góðu heilli.
Ofsagróði tryggingafélaga, banka, skipafélaga og ekki síst matvöruverslana hérlendis byggist á þessari sömu stefnu með íslensku krónuna í hlutverki verndartollsins sem lokar fyrir alla samkeppni erlendis frá. Með inngöngu í ESB hyrfi þessi „verndartollur“.
Af sama toga er hitt meginslagorð Trumps: Amercia first, eða Bandaríkin í forgang. Það vísar í einangrunarstefnu Bandaríkjanna á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Woodrow Wilson 28. forseti Bandaríkjanna 1913-1921 notaði slagorðið í kosningabaráttunni 1916 en einkum voru það andstæðingar Roosevelts sem flögguðu því í seinna stríði. Þegar Trump komst til valda 2016 dró hann Bandaríkin út úr öllu alþjóðasamstarfi sem ekki þjónaði hagsmunum Bandaríkjanna beint. Hann kallaði heim svo til alla hermenn frá Evrópu og dró verulega úr greiðslum til Atlandshafsbandalagsins (NATO). Fátt virðist geta komið í veg fyrir sigur Trumps í komandi forsetakosningunum.
Evrópusambandið býr sig undir brotthvarf Bandaríkjanna úr NATO með auknum fjárveitingum til Úkraínu. Allar varnir ESB og NATO, sem verða í reynd eitt og sama bandalagið, snúast um stríð Rússa og Úkraínu, sbr. opinber heimsókn Macrons, forseta Frakklands, til Svíþjóðar fyrir skemmstu. Þar kom skýrt fram að Svíar taka fullan þátt í vörnum Evrópu. Þar af leiðandi verður lítið, ef nokkuð, fé eftir til varnar ríku landi norður í ballarhafi ef það skyldi falast eftir hjálp. Hver er stefna íslenskra stjórnmálaflokka? Hvernig ætla íslenskir stjórnmálamenn að bregðast við? Ætla þeir endalaust að treysta á velvild vinveittra nágrannaþjóða án þess að leggja neitt fram á móti? Allt fyrir ekkert, eins og stefna þeirra hefur verið hingað til, eða vilja þeir að þjóðin sitji við sama borð og aðrar fullvalda þjóðir og taki þátt í og axli ábyrgð í alþjóðasamfélaginu?
"Hvernig ætla íslenskir stjórnmálamenn að bregðast við? Ætla þeir endalaust að treysta á velvild vinveittra nágrannaþjóða án þess að leggja neitt fram á móti?"
Ísland hangir eins og varta á ESB - staðreynd sem hvorki vottar um sjálfstæði Íslands né fyllir mann stolti. Með aðild að ESB værum við jafningjar.