Gerðu það pabbi, hjálpaðu mér,“ segir fimm ára sonur Majdis A. H. Abdaljawwads síendurtekið við föður sinn í skilaboðum og símtölum. Majdi, palestínskur þriggja barna faðir sem er með stöðu flóttamanns á Íslandi, er að gera hvað hann getur. En það gengur illa.
Hann hélt að hann gæti bjargað þeim með því að leggja einn land undir fót og komast til Íslands, eins og hann gerði í fyrra. Hér sótti hann fyrst um alþjóðlega vernd, sem hann fékk, og svo um fjölskyldusameiningu svo hann gæti fengið börnin sín þrjú: Zaid, Zaina og Leyan og eiginkonu sína Reem, til sín í öryggið. Umsókn hans um fjölskyldusameiningu var samþykkt. Hann hélt að það væri nóg. Þau væru hólpin. Íslensk stjórnvöld myndu aðstoða þau að komast af svæðinu sem er í algjörri herkví.
En þau gerðu það ekki. Eftir að Majdi hafði beðið í mánuð safnaði hann saman því litla sem hann átti og ferðaðist til Kaíró, höfuðborgar Egyptalands. Það er það næsta sem hann kemst fjölskyldu sinni, sem er staðsett um 300 kílómetrum frá – í palestínsku borginni Rafah. Þar dvelja um tvær milljónir manna við aðstæður sem erfitt er fyrir venjulegan Íslending að ímynda sér: Vatn og matur er af mjög skornum skammti og fólk er farið að deyja úr hungri. Flóttamannabúðir eru yfirfullar og smitsjúkdómar dreifast eins og eldur í sinu. Hljóðið í sprengjum er orðið daglegt brauð – rétt eins og dauðsföllin. Ísraelskar hersveitir drepa um 250 manns daglega á Gasasvæðinu, samkvæmt hjálparsamtökunum Oxfam.
Krafinn um tæpar tvær milljónir
Fyrsta verk Majdis þegar hann kom til Kaíró var að óska eftir því í utanríkisráðuneytinu þar í landi að fjölskylda hans, sem er með dvalarleyfi á Íslandi, yrði flutt frá Rafah. Hann segist hafa verið krafinn um alls 12.500 dali, það sem nemur um 1,7 milljónum íslenskri króna, fyrir aðstoð við það.
„Ég á þá peninga ekki til,“ segir Majdi blaðamanni Heimildarinnar. En samt ætlar hann ekki að gefast upp.
„Ég mun ekki fara aftur til Íslands án eiginkonu minnar og barnanna þriggja. Það er nóg að ég sé búinn að missa móður mína og frænda. Ég ætla ekki að missa þau líka.“
Athugasemdir