Nýjustu talningar á mófuglum í Rangárvallasýslu hafa valdið sérfræðingum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi nokkrum heilabrotum. Rannsóknasetrið hefur unnið að talningu mófugla á 63 stöðum sem dreifast um alla sýsluna frá árinu 2011.
Á þeim rúmlega áratug sem talningin hefur farið fram hefur skógarþresti fjölgað verulega. Hrossagaukur og jaðrakan sýna ekki marktæka breytingu en tjaldi, heiðlóu, spóa, stelk, lóuþræl og þúfutittlingi fækkar verulega, segir í samantekt Rannsóknarsetursins eftir sumarið. „Þessar breytingar eru mjög hraðar í öllum samanburði og vekja spurningar um framtíð hinna stóru íslensku mófuglastofna,“ segir í samantektinni.
Skilgreindar hafa verið ábyrgðartegundir fugla á Íslandi, en það eru tegundir þar sem stór hluti Evrópustofns og jafnvel heimsstofns verpur á Íslandi, eða kemur hér við á farleiðum sínum. Spói, heiðlóa, jaðrakan og stelkur eru meðal ábyrgðartegunda Íslands.
Ekki er augljósra skýringa á þessum breytingum fyrir að fara á vetrarstöðvum fuglanna þar sem þeir dreifast víða, allt frá Bretlandseyjum til Vestur-Afríku. Því gæti verið að drifkraftana sé að finna hér á landi. Vísindamenn á Rannsóknarsetrinu munu fylgja niðurstöðunum eftir með frekari rannsóknum og leita skýringa.
Athugasemdir