Þessi grein birtist fyrir rúmlega 3 mánuðum.

Danska kokkabókaflóðið

Á ný­liðnu ári komu út í Dan­mörku tæp­lega 300 mat­reiðslu­bæk­ur. Þar á með­al ný út­gáfa einn­ar vin­sæl­ustu bók­ar af því tagi sem út hef­ur kom­ið í land­inu. Hún kom fyrst út fyr­ir 50 ár­um. Frk. Jen­sens Ko­ge­bog sem kom fyrst út ár­ið 1901 trón­ir hins­veg­ar á toppi mat­reiðslu­bókalist­ans, hef­ur selst í um það bil einni millj­ón ein­taka.

Danska kokkabókaflóðið

Útgáfa matreiðslubóka er ekki ný af nálinni í Danmörku. Fyrsta prentaða matreiðslubókin sem vitað er um með vissu er frá árinu 1616. Uppskriftirnar voru mestmegnis þýskar og franskar að uppruna og miðaðar við hina efnameiri. Fyrir þann tíma voru til handskrifuð hefti með uppskriftum, það elsta sem vitað er um í Danmörku skrifaði munkurinn Knud Jul í Sorø á Jótlandi.
Bókin sem kom út árið 1616 hét Koge-bog: Indeholdendis et hundrede fornødne stycker, som era om Brygning, Bagning, Kogen.

Í þessari fyrstu útgáfu var ekki getið um höfund en lengi var talið að uppskriftirnar væru teknar uppúr þýskri matreiðslubók frá árinu 1597, höfundur hennar hét Anna Weckers. Fyrir fáum árum kom hinsvegar í ljós að helmingur uppskriftanna væri úr bók sem kom út í Þýskalandi árið 1593, höfundur hennar hét Johannes Coler. Hvaðan aðrar uppskriftir í þessari fyrstu bók sem prentuð var í Danmörku voru komnar er ekki vitað. Fyrsta upplagið, árið 1616, var lítið en bókin var endurprentuð 1625 og aftur 1637.

Kökur og sætabrauð

Önnur matreiðslubókin sem kom út í Danmörku hét „En artig og meget nyttelig Kogebog“. Höfundur hennar var áðurnefnd Anna Weckers og bókin kom út árið 1648. 55 ár liðu þangað til þriðja danska matreiðslubókin leit dagsins ljós, sú hét „En høy-fornemme Madames Kaagebog“,  höfundur hennar hét Anna Elisabeth. Þetta var þykkur doðrantur með um 600 uppskriftum og, eins og titillinn gaf til kynna, ætlaður heldri frúm. Í bókinni eru auk mataruppskrifta, uppskriftir af kökum og sætabrauði. Nokkuð sem almenningur hafði sjaldnast efni á að veita sér. Í þessari bók frá árinu 1703 birtist í fyrsta sinn uppskrift af smákökum sem segja má að   séu í dag  „dönsku jólasmákökurnar“. Hér er að sjálfsögðu um að ræða litlu hálfkúlulaga piparkökurnar„pebernødder“.  Í kökunum voru nokkur bragðefni sem almenningur notaði fyrst og fremst til hátíðabirgða á 18. öld og reyndar lengur. Uppskriftin, eins og hún birtist í heldri frúa uppskriftabókinni má lesa hér:

Tag et pund puddersukker (farin), et pund fint hvedemel, fem æg, et lod kardemomme, et lod kanel og muskatblomme tilsammen. Et halvt lod anis, lidt peber, tre lod sukat, to lod citronskaller og ælt den sammen og bag det.

Orðið lod sem þarna kemur fyrir er gamalt vigtarmál, 1 lod eru 15.5 grömm.
Eftir að piparkökubaksturinn varð að sið sem tengdist jólunum hjá Dönum fór baksturinn iðulega fram skömmu fyrir jól, eftir að búið var að baka jólabrauðið. Þannig var hitinn frá bökunarofninum nýttur. Að baka krafðist kunnáttu og nákvæmni þar sem ofnhitinn skipti miklu ef baksturinn ætti að lukkast.

Matreiðslubækur festust í sessi

Heldri frúa uppskriftabókin frá árinu 1703 var endurprentuð þrisvar sinnum. Enn liðu 37 ár þangað til næsta matreiðslubók leit dagsins ljós en síðan fór þeim fjölgandi. Áhugi Dana á matreiðslubókum fór sömuleiðis vaxandi en það var þó ekki fyrr en á 19. öld að útgáfa og sala á slíkum bókum jókst svo um munaði. Þar ber hæst  „Kogebog for små husholdninger“ sem kom fyrst út 1837 og var endurprentuð 40 sinnum, síðast árið 1910. Þegar það upplag var á þrotum  höfðu selst 220 þúsund eintök. Höfundurinn var Anne Maria Mangor. Margar fleiri bækur seldust líka vel og voru margoft endurprentaðar.

Kirstine Marie Jensen

17. júlí 1858 kom í heiminn, í Randers á Jótlandi, stúlka sem fékk nafnið Kirstine Marie. Foreldrarnir, sem ekki bjuggu saman, létust þegar stúlkan var ung að aldri og hún ólst upp hjá ömmu sinni í Randers. Eftir fermingu hélt hún til Kaupmannahafnar, þar sem hún vann ýmis heimilisstörf. Árið 1880 innritaðist Kirstine í stúlknaskóla Natalie Zahle, í tveggja ára nám. Nokkrum mánuðum fyrir útskrift stofnaði Natalie Zahle hússtjórnardeild við skólann og Kirstine söðlaði um og innritaðist í þessa nýju deild.

Að námi loknu vann hún á ýmsum stöðum, var meðal annars eitt ár í Englandi. Kirstine fékk snemma áhuga á matargerð og heimilishaldi og var eitt ár í Englandi þar sem hún vann og kynnti sér jafnframt ýmislegt sem við kom heimilishaldi. Hún breytti jafnframt nafni sínu, í Kristine. Eftir heimkomuna frá Bretlandi árið 1891 varð hún bústýra hjá Jørgen Melchior, ekkjumanni með fjögur börn, það yngsta eins árs drengur. Jørgen Melchior stjórnaði Melchior skólanum í Kaupmannahöfn, einkaskóla sem faðir hans hafði stofnað árið 1839. Uppúr aldamótunum 1900 fór að þrengja að rekstri einkaskóla og svo fór að Melchior skólinn komst í þrot 1908. Bústýran hafði löngu fyrr séð hvert stefndi og hún tók til sinna ráða við að afla tekna, meira um það síðar. Hún hélt heimili með Jørgen Melchior til dauðadags árið 1923, þau bjuggu saman en voru hvorki hjón né sambýlisfólk í þeim skilningi, Jørgen lést árið 1925.

Óperusöngvarinn Lauritz Melchior

Yngsta barn Jørgen Melchior, sonurinn Lauritz var eins árs þegar Kristine Jensen réðst til fjölskyldunnar. Segja má að hún hafi gengið börnunum í móðurstað, og í tilviki hins unga Lauritz reyndar gott betur. Snemma kom í ljós að drengurinn hafði góða söngrödd og bústýran Kristine Jensen sá til þess að drengurinn gæti greitt fyrir söngnámið hjá góðum söngkennurum. Lauritz varð heimsfrægur óperusöngvari og söng áratugi í þekktustu og virtustu óperuhúsum heims, og söng inn á fjölmargar hljómplötur. Hann lést árið 1973.  

Frk. Jensens Kogebog

Árið 1901 kom út hjá bókaútgáfunni Nordisk Forlag (síðar hluti af Gyldendal) bók sem bar titilinn Frk. Jensens Kogebog. Bókin hlaut strax góðar viðtökur og ekki leið á löngu áður en Frk. Jensen varð þjóðþekkt þótt nánast engir vissu hver hún væri þessi fröken. Áherslurnar í bókinni, sem seldist eins og heitar lummur, voru hagsýni, hófsemi og nýtni.

Þegar Kristine Jensen lést árið 1923 hafði bókin verið endurprentuð 27 sinnum. Sérstök hátíðarútgáfa kom út árið 2021, sú inniheldur um það bil 1000 uppskriftir og að sögn útgefanda hefur Frk. Jensens Kogebog samtals selst í um einni milljón eintaka frá árinu 1901.

Eftir að matreiðslubókin kom út sóttust dagblöð og tímarit eftir að fá Frk. Jensen til starfa og hún tók að sér hlutastarf hjá dagblaðinu Politiken, skrifaði ennfremur í vikublaðið Hjemmet og tímaritið Haven. Auk þess skrifaði hún nokkrar sérhæfðari matreiðslubækur t.d. Sveppir á 100 mismunandi vegu og Grænmetis- og ávaxtaréttir.

Frk. Jensens Kogebog er að finna á meirihluta danskra heimila (skv. nýlegri könnun dagblaðsins Berlingske) og samkvæmt sömu könnun þykir ómissandi að hafa Frk. Jensen við hendina þegar gjöra skal góða veislu á stórhátíðum.
Þess má geta að fyrir nokkrum árum var sýnt í Kaupmannahöfn leikrit sem hét Frk. Jensens Kogebog og á þessu ári verður settur upp í Randers á Jótlandi söngleikur byggður á ævi og uppskriftum frk. Jensen.

God mad let at lave

Árið 1973 kom út í Danmörku matreiðslubók sem átti eftir að gera það gott. Höfundar þessarar bókar sem fengið hafði nafnið God mad let at lave voru Inger Erner Andersen og Lotte Haveman. Bókin seldist frá upphafi vel og hefur margoft verið endurútgefin, með breytingum í takt við tímann.  Í tilefni þess að í fyrra voru liðin 50 ár frá því að bókin kom fyrst út sendi forlagið Lindhardt og Ringhof  frá sér sérstaka viðhafnarútgáfu . Í nýju útgáfunni eru um það bil 750 uppskriftir, nýjar og gamlar í bland. Trine Ravn útgáfustjóri hjá forlaginu Lindhardt og Ringhof, sagði í viðtali við danska útvarpið, DR, að ástæðan fyrir vinsældum bókarinnar í hálfa öld væri að í henni væri eitthvað fyrir alla. Á forsíðu fyrstu útgáfunnar 1973 voru kjötbollur í aðalhlutverki og salat með kínakáli og tómötum með.

GoðsögnForsíða fyrstu útgáfu Frk. Jensens Kogebog.

Í útgáfunni frá 1990 voru kjötbollurnar enn á forsíðu en nú var grænmeti meira áberandi, svo kom útgáfa með grænmetisbollum á forsíðu. Í nýju hátíðarútgáfunni eru vissulega bollur á forsíðunni en uppskriftin gerir ráð fyrir mun minna kjötinnihaldi í bollunum en áður var. Á þeim 50 árum sem liðin eru frá því að God mad let at lave kom fyrst út hefur bókin samtals selst í um það bil 400 þúsundum eintaka og er í öðru sæti á vinsældasölulista danskra matreiðslubóka. Frk. Jensens Kogebog situr á toppnum með sín milljón seldu eintök.

Bókaflóð og breytingar

Eins og nefnt var í upphafi þessa pistils streymir árlega á danska bókamarkaðinn mikill fjöldi matreiðslubóka. Árið 1970 höfðu samtals verið gefnar út í Danmörku 1200 matreiðslubækur, nýrri tölur eru ekki til en miðað við fjölda þeirra bóka sem út hafa komið á síðustu árum er óhætt að margfalda þessa tölu.

Um og uppúr 1970 fóru að verða breytingar á matreiðslubókunum. Þá fóru til dæmis að koma á markaðinn bækur um grænmetisfæði, þær höfðu verið sjaldséðar fram að því. Þegar hinar svonefndu sólarlandaferðir urðu vinsælar meðal Dana fengu landsmenn aukinn áhuga fyrir spænskri og ítalskri matargerð, svo fylgdu bækur um tælenska, kínverska og indverska matargerð svo fátt eitt sé nefnt. Sömuleiðis komu á markaðinn matreiðslubækur ætlaðar börnum.

Mjólkurvöruframleiðendur gáfu út matreiðslukver undir nafninu Karolines Køkken, danska kaupfélagasambandið, FDB, gaf út 28 kver með uppskriftum, á nokkurra ára tímabili og fleira mætti nefna. Í dagblöðum og tímaritum hafa í áratugi birst mataruppskriftir og umfjöllun um mat.

Sjónvarps- og netkokkar

Ekki hefur farið framhjá þeim sem horfa á sjónvarp að þar er mikið framboð af alls kyns efni um mat og matargerð. Það eru ekki eingöngu kokkar sem þar hræra í pottum, þekktir einstaklingar úr samfélaginu eru kallaðir til leiks, íþróttamenn, leikarar, stjórnmálamenn og fleiri og fleiri hengja á sig svuntuna og matbúa sinn eftirlætisrétt. Iðulega fylgir svo bók í kjölfarið. Baksturs- og matreiðslukeppnir eru líka vinsælt sjónvarpsefni.

Ekki má svo gleyma netinu, þar er að finna í þúsundatali uppskriftir, leiðbeiningar og myndbönd um mat og matargerð.

Verði ykkur að góðu !

Kjósa
18
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • SÍF
    Sveinn í Felli skrifaði
    Ekkert minnst á biblíuna Gyldendals store Kogebog frá 1963 ???
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár