Hvað hef ég lært? Sjáðu til, elsku litla lúsin mín, lífið hefur kennt mér stafrófið. Stafrófið er kerfi til að mynda heiminn með tungunni og sleikja hann upp eins og hundur eins og þú segir alltaf. Á Íslandi byrjar stafrófið á A og endar á Ö.
A) alltaf að grípa tæki. Ég er með sjálfum mér með tæki í hönd. Tæki er breitt hugtak. Ein merking er áhald. Ég er þrjátíu&sex ára og túlka heiminn í áföngum.
B) bera sig eftir björginni. Ég á foreldrum mínum allt að þakka.
D) dauðans matur. Ég reyni eins og ég get að setja lífið í samhengi við dauðann. Fara út að ganga og vera tilbúinn að snúa ekki til baka. Þá stundina er það stutt og sárt. Táradalur.
E) sjaldan er ein boran stök. Ég veit að ég stjórnast af mynstrum. Eitt kallar á annað. Þessi kallar á hinn. Hugsun hefur áhrif á tilfinningar og öfugt. Hvað fær að spígspora um huga minn?
G) enginn veit hvað það er að gera sitt besta. Mér er ljóst að ég þarf að gera mitt besta (annars fæ ég á lúðurinn) en samt er sú mynd utan seilingar. Ég feta villur vega í góðri trú.
F) freður sé með eður. Ég er að austan. Amma Unnur var að austan. Ég held að það hafi verið í gríni en hennar kraftur var ekkert grín. Hinum megin var amma Marsibil. Hana þekkti ég ekki eins vel en um daginn sagði pabbi mér að hún hefði unnið og hvílst til skiptis. Sjálfur unni ég mér engrar hvíldar. Desværre.
H) hamingjukrafa. Ég fór eitt sinn óboðinn á setustofu annarrar stéttar á flugvelli og lét fara vel um mig. Það olli engu fjaðrafoki. Krafa mín um meiri hamingju tók á sig þá mynd. Ég var nýkominn úr heimsókn frá vini mínum. Vináttan er verðmætust eðalsteina, lúsin mín.
I) innmatur er hollur. Hvernig ætli það sé að trúa á forvera sína? Toga í hár þeirra í gegnum hefðir eins og systkini. Lifa í gegnum þau sem byggðu landið. Ég veit að enga fótfestu er að finna en það breytir enginn fortíðinni með að túlka hana upp á nýtt. Skemmtilegur leikur samt.
Í) í leikskóla er gaman, þar leika allar saman, þær leika úti og inni og allar eru með.
J) jújú. Pabbi minn, þú ert besti pabbi minn.
LK) sem skráður meðlimur í LK veit ég ekki hvernig lk.is gekk okkur úr greipum.
M) minningar geymast bæði við stofuhita og í kæli.
N) nú já? Forvitnin er dyggð segi ég og skrifa. Margar af mínum bestu stundum birtast þegar ég lifi mig inn í þær af forvitni.
O) mér þykir vert að gefa mig skynfærum mínum á vald og sjá sögur og andlit í hvívetna. Heildarmynd. Sögum um að ég sé misheppnuð sköpun trúi ég ekki nema í svartnætti.
K) ég veit þú kemur um kvöld til mín en ekki hvaða dag vikunnar.
P) prump er fyndið. Það finnst dætrum mínum.
R) reyndu aftur. Gott lag.
S) Sigurður fáfnisbani er nafni allra Sigga. Sigurd á þýsku og Sjoerd á hollensku. Ég gisti einu sinni á sófanum hjá Sjoerd í Amsterdam. Hann sagði á prófílnum sínum að hann væri núdisti. Ég hélt að ég myndi frelsast í heimsókninni hjá honum í þrjár nætur. Drekka djús á rassinum einum klæða. Í staðinn leið mér eins og í Vatnaskógi forðum daga og hélt mína leið eftir fyrstu nóttina. Ég er sko á leið til Amsterdam eftir nokkra daga (slá í gegn) og vantar gistingu. Kannski er lag að gefa núdismanum annan dans?
T) T Bone Mendez. Ég hélt í mörg ár að ég ætti son sem myndi einn dag koma inn í líf mitt. Í alvöru. Ég beið í 18 ár með að deila grun mínum. Þá köfuðum við ofan í saumana á Facebook og ég komst að því að þetta var allt saman óskhyggja. En ég hefði nefnt hann Tyrfing.
U)-beygja er dans. Jæja, ég finn mig falla um lífið. Akandi er hægt að taka u-beygju. Þær eru þó vanalega ekki leyfðar á þungum umferðaræðum í dag.
Ú) úlalala
V) velkomin til vinstri, ég skrifaði allt þetta með vinstri eins og ég tjáði þér í bréfum mínum.
Þ) í Þrymskviðu fór Þór í kjól til að komast í mjúkinn hjá þursinum Þrymi. Til að þóknast guðunum þurfti hann að ganga á eigin mörk.
Æ) ævin er undir. Í starfi mínu í Passamyndum öðlast ég stundum ró ef ég set gjörðir mínar í samhengi við ævi mína. Ég læt fylgja myndir af yngsta hópnum sem kom í myndatöku (birtar með góðfúslegu leyfi). Hvernig munu þau minnast mín?
Ö) stundum ríkir ömurð og himnarnir falla saman í lungunum.
Litla lús, ég ann þér og þú ert draumur. Þetta var stafrófið. Kerfi til að sleikja upp heiminn.
Athugasemdir