Í nótt vaknaði ég upp með andfælum við að síminn minn hringdi. Barst hringingin úr skilaboðaforriti Facebook, sem tilkynnti mér að hópsamtal væri að hefjast í Facebook-grúppu sem ég tilheyri. Mér er hulin ráðgáta hvernig ólætin brutu sér leið úr stafrænni handanveröld inn í veruleika minn um miðja nótt þar sem síminn var stilltur á „do not disturb“ og slökkt var á öllum tilkynningaskyldum skilaboðaforritsins. Í dag kenni ég hins vegar Facebook um örþreytu, önugleika, skróp mitt í ræktina og frosna pakka-pitsu með skinku og e-efnum sem ég hyggst gefa börnunum í kvöldmat.
Á sunnudaginn fagnar samfélagsmiðillinn Facebook tuttugu ára afmæli sínu. Í tuttugu ár höfum við þjáðst yfir ljósmyndum af tám annarra í flæðarmálinu á Tene og lofræðum foreldra um æðrulaus afkvæmi sín. Í tuttugu ár höfum við setið undir spekúlöntum túlka tilfinningasvörun sína sem sérfræðiþekkingu á sviði faraldsfræði, jarðfræði, hernaðarlistar og sögu Mið-Austurlanda. Og í tuttugu ár hefur Facebook verið hentugur blóraböggull fyrir alla helstu breyskleika mannkyns.
„Í tuttugu ár höfum við þjáðst yfir ljósmyndum af tám annarra í flæðarmálinu á Tene og lofræðum foreldra um æðrulaus afkvæmi sín.“
Eðli Facebook
Í byrjun árs 2021 var skotið úr byssu á bifreið Dags B. Eggertssonar, þáverandi borgarstjóra. Lögreglan tók málið föstum tökum og fordæmdi stjórnmálafólk flestra flokka verknaðinn. Ekki voru þó allir jafnhneykslaðir.
Tilvist varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Ólafs Guðmundssonar, kom óvænt upp á yfirborðið þegar hann tjáði sig á Facebook um árásina á fjölskyldubíl borgarstjóra. „Nú er byltingin komin heim og þú verður bara að taka því Hr. borgarstjóri,“ skrifaði hann. Orð hans mæltust illa fyrir og var Ólafi gert að víkja úr þeim ráðum sem hann sat í hjá borginni. Sjálfur virtist hann hins vegar telja sig blásaklausan af ummælunum. Hann neitaði því ekki að hann hefði látið þau falla en þetta sýndi „bara hvernig Facebook og samfélagsmiðlarnir eru“. Þetta er „eðli Facebook,“ sagði Ólafur í viðtali.
Eigin skömm
Í tuttugu ár höfum við kennt Facebook um rof samkenndarinnar. Í tuttugu ár höfum við kennt Facebook um pólitíska skautun og umdeildar kosninganiðurstöður. Í tuttugu ár höfum við kennt Facebook um hnignandi athyglisgáfu, forheimskun samfélagsins, blindu í bergmálshellum, vinsældir maraþonsins og lífsgæðakapphlaupsins, þvermóðsku náungans, sjálfhverfu samtímans, upprisu egósins og eilíft tuð.
Í skáldsögunni Myndin af Dorian Gray eftir Oscar Wilde segir frá manni sem selur sál sína í skiptum fyrir eilífa fegurð. Á meðan Dorian Gray lifir árum saman í óhóflegum vellystingum helst fríðleiki hans ósnortinn. Á háaloftinu felur Dorian hins vegar málverk af sjálfum sér sem geymir þau ummerki tímans, lífsstíls hans og mannvonsku sem líkami hans kemur sér undan.
En eftir tvo áratugi af saurlífi tekur samviskan að plaga hann. Hann sakar vin sinn um að hafa hrint af stað syndugu líferni sínu með því að gefa sér sem ungum manni ósiðlega bók. Vinurinn gefur lítið fyrir þá söguskýringu og svarar: „Bækurnar sem heimurinn kallar siðlausar eru ekki annað en bækur sem birta heiminum eigin skömm.“
Í tuttugu ár höfum við kennt Facebook um okkar myrkustu hugsanir og lægstu hvatir. Í tuttugu ár höfum við látið eins og það sé ekki í eðli okkar að kalla samborgara okkar fífl og að fyllast Þórðargleði þegar gamall skólafélagi missir millistjórnendastöðuna í bankanum sem hann var svo montinn af. Í tuttugu ár höfum við látið eins og það sé ekki í eðli okkar að gefa í skyn að í lagi sé að skjóta stjórnmálafólk heldur sé það í eðli Facebook.
En Fésbók, rétt eins og aðrar bækur, gerir ekki annað en að „birta heiminum eigin skömm“.
Hefði ég farið í ræktina í dag og gefið börnunum fisk og gufusoðið grænmeti í kvöldmatinn ef Facebook hefði ekki orðið til fyrir tuttugu árum? Ég kýs að standa í þeirri trú.
Athugasemdir (3)