Læknirinn Tómas Guðbjartsson hefur verið í leyfi frá störfum við Landspítalann síðan í ársbyrjun. „Frá áramótum hef ég jafnframt verið í rannsóknum vegna æxlis í ristli sem við frekari rannsóknir reyndist illkynja. Því miður tókst ekki að fjarlægja það með minni aðgerð og mun ég því þurfa að gangast undir stærri skurðaðgerð bráðlega,“ skrifar hann á Facebook. „Fyrir vikið verð ég áfram í veikindaleyfi næstu mánuði. Ég þakka veittan stuðning á síðustu vikum,“ segir Tómas í Facebook færslu sinni.
Í fréttaskýringaþættinum Þetta helst á RÚV fyrr á þessu ári var haldið fram að brotthvarf Tómasar frá störfum tengdist aðkomu hans að plastbarkamálinu. Sögðust umsjónarmenn þáttarins hafa heimildir fyrir því að framtíð og staða Tómasar væri í skoðun hjá æðstu stjórnendum Landspítalans. Einhverjir teldu að hann yrði að hætta störfum vegna aðkomu sinnar að plastbarkaígræðslunni á Andemariam Beyene.
Tómas var læknir Andemariams Beyene sem lést í kjölfar plastbarkaígræðslu árið 2011. Paolo Macchiarini, sá sem framkvæmdi ígræðsluna, fékk Tómas til að halda því fram að aðrar meðferðir væru útilokaðar fyrir Andemariam.
Tómas birti færslu á Facebook 8. janúar síðastliðinn þar sem hann hafnaði því að leyfið væri vegna plastbarkamálsins. Landsspítalanum. Hann sagðist hafa sótt sjálfur um sjúkra leyfi og með því hafi hann verið að fylgja eindregnum ráðum lækna. „Það geri ég bæði heilsu minnar vegna og með hagsmuni sjúklinga minna í huga“.
Í starfi hjarta- og lungnaskurðlæknis geti mistök í aðgerð auðveldlega ógnað lífi þeirra, en „í þeim stormi sem hefur geisað undanfarið hef ég ekki haft þá einbeitingu sem starfið krefst. Stjórnendur á Landspítala hafa stutt þessa ákvörðun mína.“
Færslu Tómasar í dag í heild sinni er hægt að lesa hér að neðan:
Athugasemdir