Það eru komin fimm ár síðan ég keypti mér tjald. Þetta er fyrsta tjaldið sem ég eignast sem er ekki einhvers konar hriplekt útihátíðartjald. Þvert á móti var þetta veglegt fjölskyldutjald með nægu plássi fyrir garðstóla, prímus, rauðvínsbelju og kynstrin öll af ömurlegum útilegu-tómstundagræjum sem engum dettur í hug að brúka nema í banalíteti íslensks tjaldstæðalífs: badmintonspaðar með beygluðu neti, frisbí sem meiðir alla í puttana og krokkettsett sem gengur í erfðir þvert á vilja allra eins og ættarbölvun.
Það var ekki fyrr en síðasta sumar sem ég fékk þá flugu í höfuðið að núna væri tíminn til að fara að skapa kjarnminningar hjá börnunum, þannig að öllum var skóflað upp í bíl og skundað rakleitt að Úlfljótsvatni.
Til að gera langa sögu stutta þá fannst engum gaman í krokkett, enginn vildi borða grilluðu pulsurnar, mamma og pabbi voru ávítt af breskum skátaleiðtoga fyrir að drekka moðvolgan bjór og enginn sofnaði fyrr en þrjú um nóttina, en þá kom úrhelli og flæddi inn í tjaldið. Morguninn eftir var öllum skóflað inn í bíl og tjaldið sett aftur innst í geymsluna eins og allir forboðnu munirnir í endanum á Indiana Jones.
Allt þetta til að segja að tjaldlífið er ekki allra.
Ég hugsa að Bjarni Ben hafi ekki farið í margar tjaldútilegur; hann hefur líklega látið sig hafa það að standa í nokkrum partítjöldum í gegnum tíðina þótt ég gruni hann um að vera meiri garðskálamann. Það kom raunar á óvart að hann hafi verið á staðnum til að stika með vandlætingarsvip fram hjá tjöldum palestínskra mótmælenda um daginn þar sem hann er vanalega annaðhvort á Flórída eða í ítölsku Ölpunum á þessum árstíma. Það var honum sárast að þetta fólk væri að dúsa þarna á milli styttunnar af Jóni Sigurðssyni og hávirðulegu Alþingi líkt og reiturinn sé svo heilagur að það mætti halda að páfinn hafi einhvern tímann migið þar.
Mig grunar samt að það hafi ekki bara verið þessi heilaga vandlæting sem dró Bjarna dragsúran að lyklaborðinu. Ég hugsa að hann hafi meiri áhyggjur af því að fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist sögulega lágt eftir setu í óvinsælustu ríkisstjórn síðan í hruninu. Bætum nokkrum persónulegum skandölum í súpuna og við erum að horfa upp á arfleifð gamallar vonarstjörnu í molum. Það er eitt elsta trikk popúlískra stjórnmála að grafa upp blóraböggla til að staðsetja sjálfan sig sem málsvara fólksins gegn þessum nýja óvini. Þetta er margreynt bragð til að komast til valda, en virkar líka vel til að halda í völd þegar fjarar undan, til dæmis þegar maður virðist ekki hafa neina stjórn á efnahagsmálum eða hefur glatað tiltrú almennings út af spillingu og vanhæfni.
Bjarni var sjálfur algjörlega forviða á að fólk hefði getað lesið einhvers konar rasisma eða einangrunarhyggju út úr þessum sakleysislegu hugleiðingum hans á Facebook. Samhengi orða skiptir samt máli. Í einni málsgrein talar hann um hvers konar vanvirðing „þráseta“ þessa palestínska flóttafólks sé við Alþingi, í þeirri næstu talar hann um að hælisleitendakerfið sé þanið og ósjálfbært og að lokum klykkir hann út með því að það þurfi að efla eftirlit á landamærunum og auka valdheimildir lögreglu til að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Þessar hugleiðingar eru ekki aðskildar eða settar fram í tómi. Þær eru risavaxnir og augljósir brauðmolar sem leiðir lesandann í átt að ákveðnum ályktunum; búa til tiltekið samhengi. Þannig virkar hundaflautan.
Þetta er ekkert í fyrsta skipti sem Sjálfstæðisflokkurinn notar málefni útlendinga sem strámann í pólitískri umræðu, en vanalega hafa það verið varðhundar af jaðrinum sem hafa haldið þeim málflutningi á lofti. Það má segja að það kveði við nýjan tón þegar formaðurinn sjálfur ákveður að taka þetta upp og gera að sínu hobbímáli.
„Hún málar upp mynd af þokukenndum óvini og lofar svo að verja þig gegn honum“
Það er líklega einföldun að halda því fram að þarna sé Sjálfstæðisflokkurinn að reyna að sækja „rasistafylgið“ lengst á hægri jaðrinum. Markmiðið er mikið frekar að búa til nýtt mengi af kjósendum: fólk sem upplifir sig óöruggt. Öll þessi umræða um hælisleitendamál, sem alltaf er pökkuð inn sem ábyrgðarfull umræða um innviði og öryggi hefur fyrst og fremst það markmið að skapa ónotatilfinningu hjá fólki sem nú þegar hefur áhyggjur af afkomu sinni, af húsnæðismálum, af öryggi sínu. Hún málar upp mynd af þokukenndum óvini og lofar svo að verja þig gegn honum. Fyrir hægt-deyjandi hægriflokk er þetta fullkominn málaflokkur því að þegar fólk er óttaslegið er það tilbúið að horfa fram hjá ótrúlegustu hlutum; gleymið spillingarmálunum, gleymið frændhyglinni og sívaxandi misskiptingu. Gleymið vonlausri hagstjórn og ósanngjörnu skattkerfi sem hyglar þeim sem mest eiga. Gleymið þessu öllu því barbararnir eru við hliðið og aðeins við getum verndað ykkur gegn þeim.
En málið er að þessir barbarar eru bara vofur; uppdiktaður óvinur sem fátt er á bak við. Íbúum með erlent ríkisfang hefur ekkert fjölgað í fangelsum síðustu ár og enginn hefur bent á gögn sem sýni að hælisleitendur hafi haft áhrif á húsnæðismarkaðinn eða aðra innviði. Þvert á móti er innviðum Íslands bókstaflega haldið uppi af útlendingum. Á Íslandi búa í dag um 70.000 útlendingar, flestir sem hafa komið hingað í gegnum EES. Hópur sem að stóru leyti mannar byggingariðnað og þjónustustörf landsins. Þetta er fólkið sem viðheldur lífsgæðum okkar. Samtök iðnaðarins hafa gefið það út að við þurfum þúsundir til viðbótar til að standa undir uppbyggingarkröfu næstu ára. Hér eru í gildi skattaívilnanir til að lokka til landsins erlenda sérfræðinga. Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki hafa jafnmiklar áhyggjur af því álagi sem þetta fólk setur á innviðina okkar, hvað þá þeim milljónum túrista sem keyra vegina, fylla íbúðir og nýta sér heilbrigðisþjónustu.
„En málið er að þessir barbarar eru bara vofur; uppdiktaður óvinur sem fátt er á bak við.“
Þá komum við aftur að rasismanum. Orðinu sem enginn vill kannast við. Því að útlendingar virðast ekki vera vandamálið okkar, heldur „tilteknir“ útlendingar. Fólk úr tilteknum menningarheimi. Það er þannig sem rasisminn læðist inn bakdyramegin. Það er enginn sem heldur að fólk sitji með Ku Klux Klan-hettuna á höfðinu og horfi á Vikuna með Gísla Marteini á meðan það bróderar litla hakakrossa í gestahandklæðin. Þessi tegund af rasisma er lúmskari. Þessi ónotatilfinning.
Bjarni segist hafa miklar áhyggjur af skautun eftir þessa umræðu; orð sem hann er allt í einu farinn að nota svo mikið að hann hlýtur að hafa eignast einhvers konar orð dagsins-almanak. Sjálfstæðismönnum virðist brenna það helst fyrir brjósti að það sé ekki bara hægt að „taka umræðuna“ lengur. Nema þetta er nærri alltaf fölsk premísa sett fram í slæmri trú, því það sem þeir meina er að þeir vilja taka umræðuna á þeirra forsendum og ef maður hafnar þeim forsendum er maður að tala inn í þessa skautun. Ef Bjarni hefði virkilegar áhyggjur af sívaxandi skautun þá hefði hann ekki hellt bensíni á bálið í von um að orna sér við eldinn.
Það er í raun ótrúleg hugarleikfimi þegar valdamesta fólk þjóðarinnar fer að kvarta yfir þöggun. Elítan sem hefur allt aðgengi að stjórnun, fjármunum og fjölmiðlum landsins. Það er eiginlega stórkostlegt að hinni bókstaflegu elítu hafi tekist að skapa þá ímynd að þau séu málsvarar almennings í baráttunni við einhvers konar siðferðiselítu þegar þau sjálf gangast upp í því að etja saman fátækum og jaðarsettum eins og innviðir og velferð sé núllsummuleikur þar sem króna til eins hverfi frá öðrum. Fjármagnseigendum, stórútgerðum og stórfyrirtækjum finnst líklega fátt fyndnara en þetta.
Munurinn á mínu tjaldferðalagi og þeirra sem höfðust við á Austurvelli er að þegar mér var orðið kalt á tánum gat ég brunað með börnin mín heim í upphitaða íbúð og pakkað mér undir sæng í dúnmjúku áhyggjuleysi. Það eru forréttindi – forréttindi sem flóttafólk frá Palstestínu býr ekki við; fólk frá landi þar sem innviðir eru bókstaflega sprungnir; sprengdir af ómannúðlegum og ólöglegum árásum á óvarða saklausa borgara. Fólk sem upplifir ekkert öryggi, veit ekki um afdrif sinna nánustu og hæstvirtur utanríkisráðherra getur ekki svo mikið sem sýnt þeim þá virðingu að ræða við þá áður en hann fer heim í Garðabæinn og breytir þeim í leiksoppa örvæntingarfullrar stjórnmálabaráttu sinnar.
Kannski er rétt að við þurfum að taka umræðuna. Umræðuna um hver við viljum vera í hinu stóra alþjóðasamfélagi. Það er vinsælt viðkvæði að við getum ekki bjargað öllum. Þetta er löt tómhyggjumantra og við megum ekki verða tómhyggjunni að bráð. Ísland getur ekki bjargað öllum, en við getum verið fyrirmynd. Þjóð sem hægt er að horfa til á meðan nágrannaríkin falla fyrir popúlískri óttapólitík. Skautunin er líklega komin til að vera. Það er ekki líklegt að við verðum sammála um flesta hluti næstu misserin. En getum við ekki í það minnsta verið sammála um að láta ekki glepjast af orðræðu örvæntingarfulls milljarðamærings sem fæddist inn í valdastétt og er hræddur um að missa allt frá sér?
Athugasemdir (2)