Tvær myndir sem teknar voru á Íslandi voru á meðal verðlaunamynda í alþjóðlegri ljósmyndasamkeppni um ferðaljósmynd ársins, International Travel Photographer of the Year. Verðlaunahafarnir voru kynntir á BBC, en þar kemur fram að alls hafi ljósmyndarar frá 150 löndum sent inn yfir 20 þúsund ljósmyndir.
Myndirnar sem teknar voru hér á landi og unnu til verðlauna voru veittar annars vegar í flokki ungra ljósmyndara og hins vegar flokki landslags og umhverfis.
Ljósmyndarinn sem vann til verðlauna í flokki ungra ljósmyndara heitir Zayan Durrani og er fjórtán ára gamall. Hann kom til Íslands með föður sínum til að skoða eldgosið við Litla-Hrút og tók drónamynd af gosinu. Í viðtali við BBC segir hann þá feðga hafa verið í kapphlaupi við tímann þegar þeir gengu að Litla-Hrút þar sem farið hafi verið að dimma og þétt þoka var að breiðast yfir dalinn.
Armand Sarlangue vann síðan til verðlauna í flokki landslags og umhverfis fyrir mynd af Svínafellsjökli. Myndin var tekin með dróna í víðmynd. Þar sést vel hvernig jökullinn rennur ofan í jökulvatnið og jökuláin streymir burt.
Athugasemdir