Á þessari stundu er nýr sigdalur að myndast í austurhluta Grindavíkur. Mörk hans liggja við vesturenda Efrahóps í vestri, nákvæmlega þar sem hrauntunga rann inn í bæinn um helgina, og liggja eystri mörk hans við Þórkötlustaðahverfi. Hann er um 800 til 1.000 metra breiður. Mesta sig í dalnum er um 30 sentímetrar, en eins og Veðurstofan greinir frá er „svæðið enn að síga og dalurinn að víkka“.
Sprungur sem liggja gegnum þveran og endilangan bæinn úr norðnorðaustri til suðsuðvesturs eru mörk þessa sigdals og annars sigdals sem myndaðist 10. nóvember, þegar kvikugangur braut sér leið undir bæinn og hann var síðan rýmdur að kvöldi.
Sá sigdalur var um tveggja kílómetra breiður og mun dýpri en þessi sem nú er í myndun, eða mest um 1,3 metrar að dýpt. Veðurstofan varar við aðstæðum í bænum vegna sprunganna í tilkynningu nú undir kvöld:
„Innan þessa nýja sigdals var áður búið að kortleggja sprungur sem höfðu myndast og voru sýnilegar á yfirborði. Þær sprungur hafa stækkað og nýjar myndast. Hætta í tengslum við sprungur og að jarðvegur hrynji ofan í þær hefur því aukist í austurhluta Grindavíkur frá því sem áður var.“
Þá er líklegt að enn sé að hlaðast í nýtt eldgos á svæðinu. „Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi með svipuðum hraða og fyrir tvö síðustu gos. Þetta er niðurstaða samráðsfundar vísindamanna sem haldinn var í morgun. Líkt og í gosinu 18. desember hljóp kvika frá söfnunarstaðnum undir Svartsengi, til austurs og myndaði kvikugang sem teygir sig frá Stóra Skógsfelli og suður undir Grindavík,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Meðfylgjandi myndir sýna aðstæður í Grindavík eftir að sigdalurinn tók að myndast.
Athugasemdir