Afleiðingar hernaðaraðgerða Ísraelshers sem beinast gegn óbreyttum borgurum á Gaza eru skelfilegar. Frá upphafi þessarar hrinu óaldar í október sl. hefur Samfylkingin talað skýrum rómi og fordæmt ofbeldisverkin sem bera öll ummerki brota á alþjóðlögum. Yfirlýsingar ráðamanna í Ísraelsríki og helstu bandaþjóða þess vekja litlar sem engar vonir um að vopnahlé sé í augsýn.
Rangfærslur og mótsagnir í ríkisstjórn
Viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna stríðsins hafa í senn verið blendin og misvísandi. Þar ber hæst framferði utanríkisráðherra sem ber ábyrgð á hjásetu í atkvæðagreiðslu Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í október sl. og lét hafa eftir sér óskiljanleg ummæli á Norðurlandaráðsþingi í nóvember sl. þar sem hann vefengdi svívirðilega árás Ísraelsmanna á flóttamannabúðir á Gaza.
„Viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna stríðsins hafa í senn verið blendin og misvísandi.“
Þá lét dómsmálaráðherra hafa eftir sér undarleg ummæli í árslok um að snúið væri fyrir Ísland að stuðla að fjölskyldusameiningum þar sem slíkt viðgangist ekki í nágrannalöndum. Óvíst er hvað dómsmálaráðherra átti við með þessum yfirlýsingum, en morgunljóst er að strangar en skýrar reglur sem gilda um sameiningu fjölskyldumeðlima gilda þegar hér á landi sem og erlendis á grundvelli ákvæða útlendingalaga nr. 80/2016. Ákvæðin byggja á meginreglu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttafólks um einingu fjölskyldunnar og er rétturinn jafnframt tryggður í EES-rétti. Fjölskyldusameiningar, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, eru í fullri og virkri framkvæmd í Evrópulöndum – þar með talið á öllum Norðurlöndunum.
Allt saman klárt?
Eins og málum virðist nú háttað er koma fjölskyldumeðlima þeirra Palestínubúa sem fyrir eru hér á landi háð því að fólk komist út af hinu stríðshrjáða svæði á Gaza. Að sögn félagsmálaráðherra er „allt saman klárt“ vegna móttöku hópsins þar sem fyrir eiga að liggja samningar við alþjóðlegu fólksflutningastofnunina (IOM) og þá hefur Útlendingastofnun, undirstofnun dómsmálaráðuneytisins, veitt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameininga til um hundrað einstaklinga að því virtu að takist að stuðla að flutningum fólksins frá Egyptalandi. Það er ljóst að ef af því á að verða þarf samhent og samstillt átak til frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Á liðnum árum hefur myndast mikil þekking hjá fulltrúum utanríkisþjónustunnar sem og innan annarra ráðuneyta sem nýst getur við það verkefni. Enginn gerir lítið úr því að verkefnið yrði í senn flókið og krefjandi, en athugum að fjölmörg fordæmi eru fyrir því að íslenska ríkið hafi aðstoðað fjölskyldur við að sameinast fjölskyldumeðlimum hér á Íslandi og koma fólki út úr óöruggum aðstæðum.
Orð eru ódýr ef ekkert er gert
Oft er talað um að orð séu ódýr, enda sé auðvelt að lofa öllu fögru en láta það ógert. Enn verra er þegar yfirvöld búa yfir kunnáttu, leiðum og tengiliðum til að afla nauðsynlegra upplýsinga sem gagnast geta í því verkefni sem við stöndum frammi fyrir, en skella skuldinni á lagaflækjur sem eru ekki fyrir hendi og að örðugt sé að standa að upplýsingaöflun. Eftir því sem tíminn líður aukast líkur á því að samband tapist við framangreindan hóp einstaklinga, ýmist vegna þess að þau týnast eða hreinlega láta lífið. Þá þarf að gera ráð fyrir því að kostnaður vegna hjálparaðgerða geti aukist verulega að sama skapi.
Sé til staðar einhver vilji af hálfu ríkisstjórnarinnar til að styðja við óbreytta borgara í Palestínu með því og stuðla að móttöku fyrirfram skilgreinds hóps fólks á flótta með skipulögðum hætti, ber henni að sýna það í verki og veita almenningi og palestínskum aðstandendum upplýsingar um slíkar fyrirætlanir. Örvæntingarfullir aðstandendur og bágstödd börn á Gaza fá þannig beint að finna fyrir barðinu á ósætti ríkisstjórnarinnar sem starfar nú einungis saman að nafninu til.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.
Athugasemdir (2)