Guðrún Sigríður Jónsdóttir félagsráðgjafi er látin.
Guðrún var ötul baráttukona fyrir réttindum kvenna og barna í íslensku samfélagi, en hún var í lykilhlutverki við stofnun Stígamóta árið 1990. Áður hafði hún komið að stofnun Kvennaráðgjafar, Kvennaathvarfs og Samtaka kvenna á vinnumarkaði, þar sem barist var gegn kynbundnum launamun og misrétti á vinnumarkaði. Hún var oddviti Kvennaframboðsins og sat í borgarstjórn á árunum 1982 til 1986. Hún kom einnig að stofnun Kvennalistans og seinna að stofnun Vinstri grænna.
Merkur aktívisti
Árið 1985 birtist frétt um að borgarfulltrúi hefði verið handtekinn að næturlagi. Þar var Guðrún að verki, með gjörning sem átti að minna fólk á skelfilegar afleiðingar kjarnorkusprengingarinnar í Hiroshima. Fleiri gjörningar vöktu athygli, svo sem þegar konur mótmæltu háu vöruverði með því að neita að greiða nema því sem nam hlutfallslega launum kvenna af launum karla fyrir hráefni í grjónagraut og sorgargöngur Stígamóta, þar sem gengið var undir slagorðinu: „Við lifðum af kynferðisofbeldi.“
„Hún sem aktívisti á sér langa og merkilega sögu“
Guðrún studdi einnig opinberlega við konur sem sökuðu þáverandi biskup um vafasama háttsemi gegn sér árið 1996 og mætti miklu mótlæti vegna þess. Hún stóð einnig þétt að baki Kristínu Gerði Guðmundsdóttir í baráttu hennar við að vekja samfélagið til vitundar um vændi á Íslandi og skaðlegar afleiðingar þess. Síðasta jafnréttisbaráttan sem Guðrún háði var í þágu eftirlaunakvenna á lægsta mögulega lífeyri, en hún reyndi að fá sveitarfélagið þar sem hún var búsett síðustu árin til þess að veita þessum hópi vilyrði til þess að stunda sundleikfimi sér að kostnaðarlausu. Vatnsleikfimi væri sérstaklega mikilvæg fyrir þennan hóp kvenna, í ljósi þess að láglaunastörf eru oft líkamlega krefjandi og taka sinn toll af fólki. Sjálf þekkti hún vel hvað vatnsleikfimi getur haft góð áhrif á líkamann. Um væri að ræða einfalda aðgerð fyrir sveitarfélagið.
„Hún sem aktívisti á sér langa og merkilega sögu,“ sagði Kristín Ástgeirsdóttir í viðtali við Stöð 2 í nóvember.
Brautryðjandi í félagsráðgjöf
Áður en Guðrún lét til sín taka í kvennabaráttunni var hún brautryðjandi í félagsráðgjöf hér á landi. Hún var fyrsti Íslendingurinn sem menntaði sig í faginu og byggði upp nám í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Sheffield árið 1991. Doktorsverkefnið gekk út á að ræða við brotaþola sifjaspella, en þar lýstu 27 íslenskar og breskar konur reynslu sinni af sifjaspelli og lýsingar þeirra voru ekki í neinum takti við fyrri lýsingar fræðimanna á sifjaspellum.
Árið 2007 fékk Guðrún riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir frumherjastörf í félagsráðgjöf og framlag til réttindabaráttu.
„Við verðum að gera eitthvað“
Guðrún lést í gær, þriðjudaginn 9. janúar, á hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi. Eiginmaður Guðrúnar, Ólafur Thorlacius, lést árið 2019. Guðrún var fædd þann 16. júní 1931. Hún lætur eftir sig dóttur, Ragnheiði Thorlacius, fyrrverandi héraðsdómara.
„Við verðum að gera eitthvað“
Ævi- og baráttusaga Guðrúnar, Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg, kom út fyrir jól og lauk með þessum orðum: Hjartað er orðið viðkvæmt. Stundum finnur hún fyrir hjartsláttartruflunum og oftar en einu sinni hefur hún endað á spítala vegna þess. Guðrún er meðvituð um að hjartað geti brostið á hverri stundu. Hún á til að minna fólk á að dauðinn sé skammt undan. En hún er hér enn og svo lengi sem hún lifir er hún tilbúin til að heyja baráttu fyrir bættri stöðu kvenna í íslensku samfélagi. Ekki er vanþörf á. „Við verðum að gera eitthvað.“
Minnist nöfnu sinnar
Þann 29. nóvember síðastliðinn stóðu Forlagið, Stígamót, Kvennaráðgjöfin, Félagsráðgjafafélag Íslands og félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands fyrir málþingi til heiðurs Guðrúnu. Af því tilefni sagði nafna hennar og arftaki á Stígamótum. í viðtali við Stöð 2: „Hún hafði tileinkað sér hina nýju hugsun og hinar nýju aðferðir og varð snillingur í að gera grín að hinu grafalvarlega ofbeldi og þeirri grafalvarlegu kúgun sem konur voru beittar og það gat verið beittasta verkfærið í baráttunni.“
„Í hennar minningu ættum við að ráðast í alvöru þjóðarátak gegn kynferðisofbeldi“
Við þessi tíðindi segir Guðrún nú: „Mér þykir það harmafregn að nafna mín og vinkona skuli hafa kvatt en ég veit að hún var södd lífdaga og því fagna ég líka hennar vegna. Þakklæti er mér efst í huga fyrir að hún skuli hafa verið sú stórkostlega jarðýta sem hún var, með öllu því sem fylgdi. Það var fyrst og fremst hún sem dró útbreitt kynferðisofbeldi fram í dagsljósið, stofnaði Stígamót og lagði fræðilegan grunn að starfseminni. Mér þótti undurvænt um hana og alveg fram undir það síðasta og leitað ég til hennar með hugmyndir mínar og vangaveltur og hún tók mér alltaf opnum örmum. Í hennar minningu ættum við að ráðast í alvöru þjóðarátak gegn kynferðisofbeldi, með sérstakri áherslu á að skólera karla þessa lands. Ríkisstjórnin ætti að leggja í það myndarlegt fjármagn og menntakerfið og breiðfylking hugsjónafólks ætti að skipuleggja það.“
Höfundur greinarinnar er einnig höfundur ævi- og baráttusögu Guðrúnar, Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg.
Athugasemdir (4)