Í ljósi þess að við hjónin höfum tekið mikilvæga ákvörðun um að bjóða fram krafta okkar í þágu þjóðarinnar er hollt og gott að skoða hvað hefur leitt okkur á þennan stað.
Við kynntumst árið 1990, þegar við vorum nýorðin 16 og 19 ára. Við höfum alltaf verið mjög góðir vinir og átt gott með að ræða saman um allt milli himins og jarðar. Strax á ungum aldri létum við okkur dreyma um stóra fjölskyldu, góða vinnu og fallegt heimili. Námsárin mótuðu okkur og við höfðum mikinn metnað í starfi, en á mikilvægum tímamótum stóðum við frammi fyrir því að velja lífsstíl, hversu miklu mátti t.d. fórna fyrir vinnu og frama? Eru börnin og heimilið ekki besta fjárfestingin? Gott hjónaband grundvallast á jafnvægi, þar sem báðir aðilar geta vaxið og stutt hvort annað en um leið fengið rými til að blómstra og stækka á sínum eigin forsendum. Í skjóli sjálfstæðra, en samstíga foreldra hafa öll börnin okkar fimm fengið ást, umhyggju og hvatningu til að rækta hæfileika sína, guðsgjafir sínar, sjálfum sér til þroska og öðrum til gleði.
Við höfum lært að nota okkar eigin gjafir og láta ljós okkar skína. Við eigum okkar sjálfstæðu áhugamál, en líka sameiginleg áhugamál þar sem við njótum þess að verja tíma okkar saman. Saman fórum við m.a. í sálgæslunám við Endurmenntun HÍ 2019–2020 þar sem okkur gafst m.a. færi á að kryfja þær sorgir og mótlæti sem við, eins og aðrir, höfum þurft að glíma við á lífsleiðinni. Það var bæði hollt og þroskandi að vera í náminu saman og geta rætt um erfiðar tilfinningar. Í náminu lærðum við m.a. að nýta innsæi okkar betur og láta hjartað ráða för, okkur sjálfum til góðs, en líka til að hjálpa öðrum að öðlast jafnvægi í lífi og starfi.
Við höfum lært að jafnvægi þarf að ríkja innra með okkur. Þar þarf að finnast bæði mýkt og styrkur, kyrrð og eldmóður, frelsi og agi, sveigjanleiki og skipulag. Við höfum lært að meta visku eldra fólks og einlægni barna.
„Við þurfum öll að finna jafnvægi milli hjarta og hugar, efnis og anda, lífs og leiks“
Við höfum lært að til að verða heilbrigð og hamingjusöm er ekki nóg að rækta líkamann, heldur einnig anda og sál. Allir menn hafa þörf fyrir að skapa, búa eitthvað til sem gleður og bætir. Við getum öll fundið gleði og tilgang í því að glæða hugmyndir okkar lífi, svo þær megi líta dagsins ljós. Á þeirri leið þurfum við að yfirstíga ýmiss konar þröskulda, oftar en ekki innri hindranir, t.d. þegar við erum full efasemda og skortir trú á að við höfum eitthvað gott fram að færa. Í þeirri innri glímu finnum við að hugrekki er höfuðdyggð, sem gerir okkur unnt að brjótast út úr skelinni og taka flugið á eigin vængjum. Lífið er of stutt til að fela ljósið sem býr innra með okkur öllum.
Við þurfum að geta treyst á okkur sjálf, en við höfum líka lært að treysta öðru fólki sem býr yfir hæfileikum sem okkur sjálf skortir. Saman getum við bætt hvert annað upp og gert stórkostlega hluti. Við höfum líka lært að treysta á æðri mátt, ekki síst þegar fótunum er kippt undan okkur, þegar sjúkdómar sækja að, þegar ytri áföll skella á. Þá skiptir miklu að treysta og halda alltaf í vonina um að úr muni rætast og að við komumst á leiðarenda þótt ferðin sé stundum hlykkjóttari en við höfðum ætlað.
Í ljósi reynslunnar hafa gildi okkar mótast og hvað við viljum leggja áherslu á í lífinu. Óttinn má aldrei ná undirtökunum. Honum má bægja frá með trú, von og kærleika, visku, réttlæti, hugrekki, hófsemi, heilindum, jákvæðni, bjartsýni, hjálpsemi, heiðarleika og seiglu.
Nú eru börnin okkar orðin sæmilega stálpuð og við höfum orku til að sinna fjölbreyttari málefnum en áður, málefnum sem standa hjarta okkar nærri. Við viljum bæði sjá annað fólk vaxa. Við viljum hjálpa öðrum að feta sína braut og þroskast, sjálfum sér til heilla og samfélaginu til framdráttar.
Í stuttu máli þurfum við öll að finna jafnvægi milli hjarta og hugar, efnis og anda, lífs og leiks.
Við hlökkum til að mæta þeim áskorunum sem á vegi okkar verða næstu misserin og kynnast betur Íslendingum um allt land. Lífið er ævintýri með spennandi söguþræði sem við eigum öll þátt í að semja.
Athugasemdir