Ástþór Magnússon, forsetaframbjóðandi, hefur verið læstur úti af Facebook reikningi sínum síðan í maí í fyrra. Í samtali við blaðamann Heimildarinnar segir Ástþór að hann hafi verið staddur í Mexíkó þar sem hann reyndi að skrá sig inn á Facebook-síðu sína en fékk meldingu um að skráningin hans væri óeðlileg. Hann var beðinn um að staðfesta með korti og auðkenningu en við það hrundi síminn hans.
Í tilkynningu sem Ástþór sendi fjölmiðlum í dag segir að hann vilji vekja „athygli á brotum Meta sem rekur Facebook, Instagram og fleiri samfélagsmiðla á nýlegum reglum Evrópusambandsins (Digital Services Act) sem gæti leitt til 7,6 milljarða dala sektar (þúsund milljarða íslenskra króna) sem Meta þurfi að greiða fyrir að grafa undan lýðræði í Evrópu.“
Ástþór kemst sjálfur ekki inn á gömlu-Facebook framboðssíðu sína. Í fréttatilkynningunni segir að hann vari „við þeirri ógn sem Facebook er orðið við þjóðfélagsumræðu og lýðræðislegar kosningar.“
Ástþór höfðaði mál gegn Meta í Dublin á Írlandi. Fékk hann þær upplýsingar frá Meta að þeir myndu reyna að leysa málið. „Lögfræðingar mínir í Írlandi telja að þetta sé brot gegn persónuverndarlögum af því þeir eru búnir að loka mig úti af mínum eigin gögnum.“
„100% af allri umræðu á Íslandi fer í gegnum þennan miðil,“ segir Ástþór. „Við erum búin að opna nýja síðu og hún byrjar bara á núlli.“
Facebook-síðan sem Ástþór studdist við í forsetaframboði sínu árið 2016 hefur um 1.800 fylgjendur. Hana má sjá hér.
Athugasemdir (4)