Matseðill fíla og annarra dýra í dýragarðinum í Berlín í Þýskalandi var með frábrugðnum hætti í dag. Á boðstólunum voru jólatré sem ekki tókst að selja fyrir jólin. Jólaandinn fékk því að lifa örlítið lengur í dýragarðinum í dag.
Jólatrjáa-át dýranna er orðinn árlegur viðburður í dýragarðinum í Berlín. Fílarnir rifu greinarnar af trjánum með rananum sínum og jöpluðu á greinunum með bestu lyst eða köstuðu þeim í kringum sig.
Vísundarnir hreiðruðu um sig á trjánum áður en þeir mauluðu á greinunum en hreindýrin þefuðu og léku sér með greinarnar.
Trén sem dýragarðurinn tekur á móti eru fersk, óseld jólatré frá völdum söluaðilum. Dýragarðurinn býður dýrunum ekki upp á jólatré sem staðið hafa í stofum yfir jólahátíðina, þar sem þau gætu innihaldið einhver eiturefni eða mögulega jólaskraut.
Athugasemdir