Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Hún var áminning um úreltan hugsunarhátt

Í minn­ingu Auð­ar Har­alds­dótt­ur.

Hún var áminning um úreltan hugsunarhátt
Auður Haralds Rödd sem var umbreytingaafl. Mynd: Stundin / Davíð Þór

Auður Haralds var kona sem fékk fólk til að hugsa – sumt til að sprengja á sér hausinn.

Raunar bendir ýmislegt til að henni hafi leiðst fólk sem nennti ekki að hugsa umfram það allra nauðsynlegasta. Hröð hugsun einkenndi hana sem gat dritað út úr sér tilsvörum um leið og hún afhjúpaði forpokun í hugsun annarra, oft á ögrandi hátt, enda má segja að ögrun fylgi áræðinni hugsun.

Enginn átti neitt inni hjá henni, frekar en hún taldi sig eiga eitthvað inni hjá einhverjum. Eins sjálfstæð og hún var meinfyndin. Sennilega einn sjálfstæðasti hugur sem hefur sett mark sitt á þetta samfélag.

Þessi kona með blik viðkvæmni í augunum sem gat allt í einu brosað eins og barn í sólskini á sumardaginn fyrsta. Í henni bjó sprengikraftur, megnugur þess að mölbrjóta vana íhaldsseminnar jafnt sem viðteknar hugmyndir.

Rótaði í hugsun samborgara sinna

Andspænis góðborgaralegum tepruskap benti hún ekki bara eins og barnið í Nýju fötum keisarans heldur hló og sagði eitthvað svo ískrandi hæðið að það berstrípaði alla í kringum hana. Allir allsberir. Fólk hjá lánastofnunum jafnt sem elskhugar hennar, dagfarsprúðar konur í nágrenninu og sjálfskipaðir siðapostular samfélagsins.

Í örfáum setningum gat hún sagt eða skrifað eitthvað snarbrjálað, eldklárt, þungt af tilfinningu; sorglegt, fyndið, ögrandi og sterkt. Stíllinn iðandi af barokki og spriklandi fjörugum orðum.

Hún skrifaði hratt, þrautreyndur pistlahöfundur sem fjallaði af djörfung um samfélagsmál og afkastaði á við beitningakóng á ritvélina sína fullri af kaffiskvettum. Gat skilað pistli upp á akkúrat réttan orðafjölda, aftur og aftur, og í hvert sinn rótað í hugsun samborgara sinna. Álíka beitt og hún iðaði af leikgleði.

 Skrifin erfiðisvinna

Þó kallaði hún skrifin erfiðisvinnu, þriggja barna sjálfstæð móðir með ofbeldissambönd að baki sem hamaðist við að skrifa með börn sem grétu. Það þurfti að fæða þau og lá á að skrifa þessar bækur.

Hún var einskis nema sjálfrar sín að harka til að eiga þak yfir höfuðið og mat handa börnunum. Þegar einhverjir kölluðu hana kommúnista fyrir að skrifa í Þjóðviljann kom hún ofan af fjöllum og hváði að henni hefði bara verið boðið að skrifa þar. Svo hún gerði það!

Krítísk á viðmót sem konur mættu hjá læknum, að mati hennar, löngu, löngu, löngu áður en The New York Times auglýsti viðlíka fréttaskýringu um slíkt fyrir örfáum árum á Twitter.

„Þá opnaði hún á umræðu um heimilisofbeldi jafnt sem kvennakúgun“

Ruddist inn á svið bókmenntanna

Þegar hún sló í gegn sem pistlahöfundur á Skjá einum í árdaga nútímans hló yngra fólk með þessari ískrandi fyndnu konu á aldur við mömmu þeirra. Sumir hissa að einhver miðaldra kona gæti verið svona fyndin.

Ýmsir voru þó ómeðvitaðir um að á skjánum var kona sem hafði ruðst inn á svið bókmenntanna, einna líkust leysingum í jökulá, með rödd sem var engu lík. Á undan sinni samtíð í fámennu samfélagi þegar hún skrifaði um svæsið heimilisofbeldi, basl, óskilgetin börn, kjör lágstéttarkvenna og einstæðra mæðra, fátækt og góðborgaralegt feðraveldi í sjálfsævisögulegum skáldskap sem þó var ævintýralegri en margt sem margir höfðu lesið.

Bókin Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn kom út árið 1979 og þá opnaði hún á umræðu um heimilisofbeldi jafnt sem kvennakúgun.

Í hugum margra er sú bók ein af bókum lífsins og hlýtur að teljast vera tímamótaverk. Líklega er óhætt að segja að Hvunndagshetjan sé ein ástsælasta og þekktasta bók hennar í vitund samfélagsins. 

Fræðimannsaugað greinir fortíðina

Í fyrra kom út síðasta skáldsaga hennar – Hvað er drottinn að drolla? – hjá Forlaginu en hún hafði fyrst birt þá sögu í upphafi aldarinnar á vefsíðunni Strik.is í samstarfi við Hrafn Jökulsson heitinn, löngu áður en fólk hafði vanist tilhugsuninni að lesa bækur rafrænt. Því var sagan eins og ný þegar hún kom út og hlaut góðar viðtökur.

„Að öllu sögðu skrif­ar Auð­ur Har­alds hér hug­vekj­andi bók um mið­ald­ir og heims­far­aldra, en ekki síð­ur um all­ar ósýni­legu mið­aldra kon­urn­ar í nú­tím­an­um“, sagði í dómi Ás­geirs H. Ing­ólfs­son­ar hér í Heimildinni.

Bókin fjallar um miðaldra skrifstofukonu sem átti sér þann draum að læra fornleifafræði en smitast svo af bók um svartadauða og læknisfræði miðalda að hún vaknar í líkama tvítugrar stúlku árið 1348, í upphafi svartadauða.

Skáldsagan er eins rík af hugmyndaflugi og þekkingu á sagnfræði. Og Ásgeir skrifaði: Þetta er merkilega raunsæ skáldsaga um tímaferðalag, enda Guðbjörg praktísk manneskja með látlausa fræðimannsdrauma, og það er fræðimannsaugað sem greinir fortíðina af nákvæmni og í anda samanburðarrannsókna.

Fleiri skáldsögur hennar urðu biblíur í lífi ófárra; bækur á borð við Læknamafíuna og Ung, há, feig og ljóshærð. Bókin Baneitrað samband á Njálsgötunni um samband móður og unglingsdrengs, á kjarnaðri íslensku, var einnig ógleymanleg, og ýmsir lesa hana reglulega en hún varð jafnframt leikrit. Eins lágu margir í Elíasbókunum vinsælu sem höfðu örugglega áhrif á þróun húmors sumra á mótunarárum, en þær bækur skrifaði hún upp úr innslögum sem þær Valdís Óskarsdóttir höfðu gert fyrir Stundina okkar.

Auður var fjölhæf og ævistarf hennar felst líka í blaðamennsku, útvarpsþáttagerð og þýðingum, auk þess sem hún starfaði við verslun, skrifstofustörf, í verksmiðju og efnalaug.

 Konur að skrifa um ofbeldi duttu úr tísku

Árið 1982 kom út skáldsagan Hlustið þér á Mozart? sem var þriðja skáldsaga Auðar. Næstu árin gaf hún út bækurnar um Elías og það var ekki fyrr en árið 1987 að hún gefur út skáldsöguna Ung, feig, há og ljóshærð. Eftir útgáfu hennar gaf hún ekki aftur út skáldsögu fyrr en í áðurnefndri útgáfutilraun með Hrafni Jökuls – Hvað er drottinn að drolla? – bók sem kom út eins og ný í fyrra.

Ýmsir hafa velt fyrir sér af hverju þessi öflugi skáldsagnahöfundur, þessi sterka rödd, hafi látið hér við sitja.

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, lærður bókmenntafræðingur, sagði í sjónvarpsmynd að Auður og fleiri sterkir kvenrithöfundar á hennar reki hafi hreinlega dottið úr tísku, rithöfundar sem nutu alþýðuhylli og brutu niður múra en þóttu um leið ekki nógu merkilegar til að fá greiningar í fagtímaritum bókmenntanna. En vangaveltur um hvarf þessarar skáldkvenna af sjónarsviðinu á níunda áratugnum hafa einnig verið viðraðar í ritgerð eftir Kolbrúnu Huldu Pétursdóttur og blaðagrein í Mannlífi eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur, þegar Gerður Kristný var ritstjóri þess.

„Lærður bókmenntafræðingur sagði í sjónvarpsmynd að Auður og fleiri sterkir kvenrithöfundar á hennar reki hafi hreinlega dottið úr tísku, rithöfundar sem nutu alþýðuhylli og brutu niður múra en þóttu um leið ekki nógu merkilegar til að fá greiningar í fagtímaritum bókmenntanna.“

Áminning um úreltan hugsunarhátt

Auður og fleiri konur af þessari kynslóð voru, eins og áður sagði, að skrifa um veruleika kvenna. Ofbeldi. Basl. Tabú. Það að vera lágstétt. Vera einstæð móðir. Ást, fantasíu, vesen. Upplifun konu af hinu og þessu.

Þótti það ekki nógu fínt til að teljast bókmenntir á þeim tíma? Eða var bara ekki nógu bókmenntalegt að vera fyndin? Þær tínast út á svipuðum tíma og töfraraunsæi var að komast í tísku og bókmenntalegra þótti kannski að lesa Gabriel García Márquez, þegar 100 ára einsemd varð aðalbókin. Síðasta bókin sem út kom á íslensku eftir hann var árið 2006 en það var verkið Minningar um döpru hórurnar mínar.

„Þótti það ekki nógu fínt til að teljast bókmenntir á þeim tíma? Eða var bara ekki nógu bókmenntalegt að vera fyndin?“

 Í kynningartexta um þá bók hjá Forlaginu segir: Á níræðisafmæli sínu ákveður sögumaður þessarar bókar – þekktur pistlahöfundur og óforbetranlegur piparsveinn – að veita sér munað: eldheita nótt með hreinni mey. Jómfrúin er á unglingsaldri og þegar hann sér hana sofandi verður hann djúpt snortinn af æskuljóma hennar. Hin heita ástarnótt verður að heilu ári þar sem sögumaður rifjar upp ævilöng kynni sín af konum, flestum skyndikonum, og upplifir allt í einu sterka og framandi kennd – hreina og óspillta ást.

 Til gamans má bera þennan texta saman við kynningartexta Hvunndagshetju Auðar: Þessi berorða, skarpskyggna og bráðfyndna saga af hetjunni sem fann þrjár óbrigðular aðferðir til að eignast óskilgetin börn er nú endurútgefin eftir tvo áratugi. Bókinni var þó ekki ætlað að koma aftur út, heldur skyldi hún standa sem minnisvarði um úreltan hugsunarhátt. Samt er hér fátt sem lesendur nútímans kannast ekki við úr eigin ranni. Það fellur líka seint í aðal þessarar bókar – óbrigðula fundvísi Auðar á hræsni og yfirdrepsskap og hæfileika hennar til að lýsa honum svo úr verður konungleg skemmtun.

 Víst er að Auður náði að stuða svoleiðis sumt samtíðarfólk sitt að einn reyndi að kyrkja hana á meðan aðrir helltu úr glasi yfir hana á Óðali. Orðin hennar stuðuðu alla tíð, líka karla sem lúbörðu hana – konuna sem svaraði ofbeldi með fyndni. Hún var í lifanda lífi áminning um úreltan hugsunarhátt.

Í næsta blaði verður kafað dýpra og fræðilegar í þessar vangaveltur, en þá munu birtast fleiri greinar um Auði Haralds og lífsstarf hennar.

Kjósa
58
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Vilborg Norðdahl skrifaði
    Vel skrifað um góða vinkonu
    1
  • Anna Óskarsdóttir skrifaði
    Mikil eftirsjá að þessarri konu - hún vakti mér nýjan sannleika sem ég hafði aldrei gert mér grein fyrir með Hversdagshetjunni
    3
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár