Fimmtudagsmorguninn 25. nóvember 2021 barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um að keyrt hefði verið á gangandi vegfaranda af strætisvagni. Atvikið átti sér stað á gatnamótum Skeiðarvogs og Gnoðarvogs í Reykjavík, við hlið Menntaskólans við Sund. Hafði ökumaður strætisvagnsins, Kristinn Eiðsson, keyrt á sjötuga konu með þeim afleiðingum að hún lést.
Samkvæmt skýrslugjöf Kristins hjá lögreglu eftir atvikið og lýsingu fyrir dómi keyrði hann Skeiðarvog til suðurs þar sem hann stöðvaði vagninn við biðskýli. Þar hleypti hann farþegum úr vagninum við Menntaskólann við Sund og ók svo varlega að rauðu ljósi á gatnamótum Skeiðarvogs og Gnoðarvogs. Hann kvaðst hafa ekið af stað en hægt á sér þegar drengur gekk í veg fyrir vagninn en síðan tekið beygju til hægri. Þá fyrst horfði hann á gangbrautina þar sem var grænt ljós fyrir gangandi vegfarendur. Taldi hann engan þar hafa verið og hefði því ekið rólega af stað, horfði beint áfram og síðan gjóað augunum til vinstri og haldið áfram. Fann hann þá högg og taldi að afturendi vagnsins hefði rekist utan í bifreið. Taldi hann sig síðan hafa séð barn undir vagninum og brotnaði niður við það. Hann man því ekki eftir allri atburðarásinni vegna áfallsins.
Það var þó ekki barn sem strætisvagninn hafði keyrt á, heldur eldri kona.
Taldi sig gæta fyllsta öryggis
Kristinn taldi ekkert í umhverfinu hafa truflað sig við aksturinn en hafði ekki séð konuna í aðdraganda atviksins. Vegurinn var blautur, úti var myrkur og glampaði ljós af veginum. Hann taldi sig hafa gætt fyllsta öryggis og kannað umhverfið sitt áður en hann ók af stað. Einn farþegi strætisvagnsins hafði gengið fram fyrir vagninn á þessum gatnamótum og hann því þurft að hægja á sér en utan þess taldi hann engar aðrar truflanir vera á sínum vegi.
Í samantektarskýrslu tæknideildar Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að það hafi verið mat skýrsluhöfundar að fjölmenni hafi verið á gangstéttinni hægra megin við vagninn sem takmarkaði útsýni ökumannsins til hægri.
Í myndbandsupptöku úr vagninum sést konan ganga af stað yfir Gnoðarvog í sömu mund og strætisvagninn beygir úr Skeiðarvogi. Vagninum var ekið óhikað inn í beygjuna, í veg fyrir og síðan á konuna. Vitni sögðu vagninn ekki hafa keyrt hratt í beygjuna enda beygjan verið kröpp. Á upptökunni sést hún lyfta upp höndunum og reyna að koma sér undan vagninum sem skellur svo á henni. Þar með féll hún í götuna og sást ekki lengur á upptökunni. Samkvæmt krufningarskýrslu hlaut konan áverka á kviðarholi, brjóstholi og hálsi.
Hún var flutt á bráðamóttökuna í Fossvogi þar sem hún var úrskurðuð látin.
„Ég mun aldrei gleyma gallanum sem hún var í konan, blessuð sé minning hennar, og hvernig hún lá við afturdekkið. Ég vissi um leið að konan var dáin,“ segir Kristinn í viðtali við Vísi í desember 2022.
Röð áfalla
Tæpum tveimur mánuðum eftir slysið missti Kristinn eiginkonu sína. Í janúar 2022 fylgdi hann henni til læknis þar sem hún var send áfram í frekari rannsóknir. Hún lést í febrúar 2022 úr krabbameini. Í áðurnefndu viðtali við Vísi sagði Kristinn að yfirheyrslur vegna slyssins hafi staðið yfir á svipuðum tíma. Áföllin dundu á Kristni en um þetta leyti komst hann að því að dóttir konunnar sem hann hafði ekið á hefði kært slysið til lögreglu. „Þó svo að ég geti ekki tekið þetta slys til baka þá held ég að ég hafi hlotið refsingu sem mun fylgja mér það sem ég á eftir ólifað,“ sagði Kristinn við Vísi.
Fyrir dómi sagðist Kristinn aldrei hafa séð konuna. Það hefði verið myrkur og úðarigning úti. Göturnar voru blautar og mikil speglun á veginum. Að sgön Kristins speglaðist ljós af öryggisgleri sem hafði verið við ökumannssætið en honum hafði alltaf þótt glerið óþægilegt. Þetta gler var sett upp á tímum heimsfaraldurs til að minka líkurnar á að vagnstjórarnir smituðust af Covid. Lögreglumaður sem framkvæmdi rannsókn á vagninum sagði að stoð öryggisglersins hefði getað haft áhrif á sjónsvið bílstjórans, og hversu vel hann sæi hliðarspegla.
Dómsniðurstaða
Niðurstaða dómsins var að Kristinn hefði átt að sýna aukna varúð á gatnamótunum vegna aðstæðna. Taldi dómurinn einnig að hann hefði átt að taka tillit til öryggisglersins þar sem það gæti haft áhrif á útsýni hans. Dómurinn taldi, með vísan til myndbandsupptaka, að Kristinn hefði ekið ógætilega miðað við aðstæður og að hann hafi ekki hafa gengið úr skugga um að enginn gangandi vegfarandi væri að ganga yfir gangbrautina á grænu ljósi. Héraðsdómur komst því að þeirri niðurstöðu að um stórfellt gáleysi af hálfu Kristins hefði verið að leiða og að það hafi leitt til þess að hann ók strætisvagninum á konuna með þeim afleiðingum að hún lést.
Kristinn var dæmdur til tveggja mánaða fangelsisvistar en fullnustu refsingar var frestað og hún fellur niður tveimur árum eftir uppkvaðningu dóms ef ákærði heldur almennt skilorð. Var hann einnig sviptur ökuréttindum í sex mánuði frá birtingu dómsins og gert að greiða dóttur og eiginmanni konunar miskabætur. Fá þau hvor um sig tvær milljónir króna ásamt áföllnum vöxtum.
Athugasemdir