Form og reglur landsstjórnarinnar og stjórnsýslunnar eru hönnuð og skrifuð nær undantekningarlaust af lögfræðingum. Í sumum tilvikum hafa þeir tryggt að aðrir en lögfræðingar fá ekki að koma að tilteknum málum og þótt það eigi við um margt eru mér, auk þess sem fjallað er um hér að neðan, sérstaklega hugleikin mál sem tengjast skiptum og slitum á þrotabúum bókhaldsskyldra aðila.
Bókhald og reikningsskil, sem oft er af fræðimönnum líkt við sjálfstætt tungumál, eru aðferðir og aðgerðir margskonar aðila til að halda utan um fjárhagslegar upplýsingar á ýmsu formi sem síðan eru notaðar víða í samfélaginu. Skattkerfi heilla þjóða byggjast á bókhaldi og reikningsskilum og sama er að segja um tekjuöflun annarra stjórnsýslueininga eins og sveitarfélaga. Atvinnureksturinn í landinu notar bókhald og reikningsskil til mats á árangri og við ákvarðanatöku í rekstrinum og haldið er utan um allar stjórnsýslueiningar í landinu með bókhaldi og reikningsskilum við mat á árangri eða til ákvarðanatöku á einn eða annan hátt. Um notkun og mikilvægi þessara upplýsinga hafa verið skrifaðar heilu bækurnar en ekki verður farið nánar út í þá umfjöllun hér.
Dómstólar og úrskurðaraðilar í stjórnsýslunni þurfa oft að dæma og úrskurða í málum sem byggja á bókhaldi og reikningsskilum. Því miður gerist það of oft að dómarar eða úrskurðaraðilarnir taka ákvarðanir í málum af þessu tagi án þess að tala eða skilja tungumálið sem ágreiningsefnið byggist á. Þannig hafa oft orðið stórslys í þessum efnum og þau verða ekki aftur tekin nema hægt sér t.d. að leita til dómstóls eins og Evrópudómstólsins eins og dæmi eru um að hafi gerst.
Nýlega las ég dóm úr héraði þar sem dómarinn var í býsna stóru máli m.a. að túlka frásögn úr sjóðsstreymi hlutafélags. Greinilegt var að dómarinn hafði ekki vald á tungumálinu og hélt fram rökum sem höfðu bein árif á niðurstöðu dómsins en voru augljóslega röng. Svo sjálfsöruggur var þessi dómari að það virðist ekki hafa hvarflað að honum að kalla til sérhæfða meðdómendur. Svona geta orðið stórslys og það er ekkert víst að þeir sem hagsmuni eiga í málinu átti sig á því eða geti sett undir lekann því að það eru takmörk fyrir því hvað leggja má fram af nýjum gögnum á síðari dómstigum. Svipuð atriði eiga við um úrskurðaraðila eins og t.d. yfirskattanefnd þar sem dæmi hafa verið um að ekki sé til staðar vald á tungumálinu.
Er ekki kominn tími til að treysta réttarkerfið og taka á svona málum? Mér þætti ekki óeðlilegt að dómskerfið hefði á að skipa löggiltum endurskoðanda með víðtæka reynslu sem tæki þátt í að dæma í málum þar sem kunnáttu á bókhaldi og reikningsskilum er krafist. Sama mætti hafa í huga við skipan í yfirskattanefnd. Það á ekki að þurfa að horfa upp á svona klúður hvað eftir annað í samfélagi sem vill láta taka sig alvarlega.
Athugasemdir (2)