Þjóðarmorðin í Palestínu eru mér efst í huga og hjarta. Það rífur í allar tilfinningar að sjá blóðug skjálfandi lemstruð börn í áfalli á samfélagsmiðlum og fréttum og vanmátturinn er alger og sorgin yfirtekur allt. Undirbúningur jólanna verður yfirborðslegur og hallærislegur og maður veit ekki hvernig maður á að vera. Dauðanum fylgir svo mikið myrkur og kuldi og það væri táknrænt að slökkva á öllum ljósum klukkan sex á aðfangadag og sitja um stund í myrkri til að minnast þeirra sem hafa látið lífið í stríðinu á Gaza.
Þegar siðferðið hverfur frá manninum verður hann grimmur, kaldur og hættulegur. Það er erfitt að skrifa um eitthvað annað en þjóðarmorðin í Palestínu, en ég ætla að láta reyna á það og skrifa um annars konar ofbeldi, kynferðisofbeldi, og hvaða áhrif það hefur á brotaþola.
Það sést ekki endilega utan á fólki að það hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi því afleiðingarnar liggja svo djúpt í tilfinningalífi fólks. Afleiðingarnar geta skert verulega lífsgæði fólks. Sérstaklega í nándinni, snertingunni og kynlífinu þar sem traust er nauðsynlegt. Manneskja sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi fyllist oft kvíða við snertingu frá öðrum, sérstaklega af hendi maka, og áfallastreita getur yfirtekið alla rökhugsun og brotaþolinn getur upplifað sig í hættu. Ofbeldismenn þurfa að gera sér grein fyrir hvað kynbundið ofbeldi markar djúp spor á brotaþolann. Það er stundum hægt að segja að brotaþoli kynferðisofbeldis geti verið með ákveðna fötlun að hluta til í tilfinningalífinu sem skyggir á samskipti í nándinni. Það þarf varfærni og skilning og mjúklega nálgun við manneskju sem hefur orðið fyrir kynbundnu ofbeldi.
Það er mikilvægt fyrir maka og aðra aðstandendur að skilja hvað brotaþolinn er meiddur þó það sjáist ekki utan á honum. Stígamót héldu fyrstu ofbeldismannaráðstefnuna á Íslandi í október og voru um fjögur hundruð manns sem sóttu hana.
Samfélagið þarf að skilja að gerendameðvirkni er engum hjálpleg, hvorki geranda né brotaþola.
Að börn og barnabörn geti lifað í öryggi
Gerandinn þarf á aðstoð að halda til að taka ábyrgð á gjörðum sínum og leita sér hjálpar, t.d. hjá Taktu skrefið. Í menningunni þurfum við öll að taka þátt í að útrýma kynbundnu ofbeldi með því að gera ekki lítið úr reynslu brotaþola og upplýsa gerendur og aðstandendur um hvaða áhrif kynferðisofbeldi hefur á þann sem verður fyrir því.
Það er oftar en ekki einhver sem konan þekkir eða kannast við sem beitir kynbundnu ofbeldi samkvæmt tölum úr komuskýrslum Stígamóta. Ég vona svo innilega að við öll sem búum í þessu samfélagi getum borið gæfu til þess að fræða okkur um afleiðingar af kynbundnu ofbeldi svo börnin okkar og barnabörn geti lifað í öryggi og sjálfstrausti á annað fólk.
Athugasemdir (2)