Opið bréf til umboðsmanns Alþingis: Þegar þjáningu og sársauka er gefinn lögmætur frestur
Rósa Ólöf Ólafíudóttir gerði kröfu um sanngirnisbætur vegna dvalar á Elliðahvammi. Krafan var gerð í mars 2022, en frestur til að skila slíkum kröfum rann út árið 2012. Rósa kvartaði til umboðsmanns Alþingis, á þeim forsendum að skaðinn rennur ekki út á tíma. Kröfu hennar var hafnað.
Ég verð að stækka letrið upp í 14 punkta, geri mig líklega til að fást við leturgerðina. En hætti við og hristi hausinn: Hvaða máli skiptir hvort það er Ariel eða eitthvað annað?
Bréfið lá á gólfinu fyrir framan bréfalúguna. Maðurinn minn tók það upp og rétti mér:
„Það er frá umboðsmanni Alþingis,“ sagði hann.
Ég gekk að eldhúsborðinu og settist niður. Handlék bréfið andartak áður en ég reif það upp. Skyldi ég hafa rifið bréfið sjálft? Spurningin ómaði í höfðinu meðan ég tók það úr umslaginu og las. Ég skautaði yfir setningar um lagabókstafi í leit að svarinu:
„Eftir að hafa kynnt mér úrskurð nefndarinnar og fyrirliggjandi gögn tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar um að krafa yðar hafi borist utan lögmælts kröfulýsingarfrests. Þá verður ekki séð á hvaða lagagrundvelli úrskurðarnefndinni hefði verið heimilt að víkja frá hinum lögmælta fresti.“
Ég lokaði augunum þegar ég fann tárin þrengja sér fram í augnkrókana. Stóð upp, fannst ég þurfa að ganga um gólf, hafnaði faðmlögum. Það jók á köfnunartilfinninguna. Ég settist aftur niður við eldhúsborðið og lokaði augunum. Tárin runnu niður á lyklaborðið:
Ég get ekkert gert í dag og það eru að koma jól,
hugsaði ég um leið og myndin af mér birtist fyrir hugskotssjónum mínum. Ég var átján mánaða í lögreglubíl, á leið til vistunar í barnafangelsi fyrir óknyttastráka að Elliðahvammi. Mamma var fárveik og baklandssnauð á sjúkrahúsi. Í þá daga var engin kona í löggunni.
„Þú berð fyrir þig lagabókstaf til að réttlæta þjáningu sem hefur og hafði engan lögmætan kröfulýsingarfrest“
„Þú varst óvenju fallegt barn,“
sagði Guðrún Jónsdóttir þegar ég hitti hana í Stígamótum um árið,
„ekki það að þú sért ekki falleg núna, en þá varstu óvenju falleg stúlka.“
Hún horfði á mig: „Ég var mjög ung í þá daga. Gerði mér ekki grein fyrir hvað ég var að gera,“ bætti hún við. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort þetta var afsökunarbeiðni?
Ég svaraði engu og leit niður. Ég barðist við að kyngja reiðinni sem hreiðraði um sig innra með mér. Hún lá einhvers staðar á milli þindarinnar og magans, umkringd óttanum, sem gerði vart við sig eins og titrandi ára sem leiddi fram í handleggina. Ég stakk höndunum undir lærin á mér til að hemja skjálftann. Þegar ég kom fram á ganginn í gamla húsinu við upphaf Vesturgötunnar leit ég í spegilinn á ganginum:
„Þú ert ljót,“ ómaði í hausnum, um leið og grundvöllur tilverunnar brast.
Ég var víst fallegt barn. Það var það eina sem ég var, á meðan mér var þvælt á milli stofnana íslenska ríkisins, í þá daga. Ég var fallega barnið, sem skelfdist mest af öllu hljóðið í bláu bjöllunni hennar Guðrúnar Jónsdóttur, sem dró mig nauðuga þangað sem ég vildi ekki fara. Ég frétti að ævisagan hennar væri í jólabókaflóðinu. Ég velti fyrir mér hvort sögunni fylgi frásögn af störfum hennar sem fulltrúi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Ég kíkti í bókina þegar ég átti leið fram hjá bókaborðinu í Hagkaup. Ég skautaði í flýti yfir efnisyfirlitið og fletti upp á kaflanum um störf henni í Barnaverndarnefnd Reykjavíkur á blaðsíðum 128, 129, 130, 131 og enn fleiri síðum. Þarna stóð það, svart á hvítu, lýsingar á kjörum okkar, fátæka fólksins í Kamp Knox og víðar um borgina. Vitnisburður embættismanns. Hún var mér ný kenndin sem ég fann bærast í brjósti mínu í hennar garð. Þakklæti.
Ég sit enn við eldhúsborðið og handleik bréfið frá umboðsmanni Alþingis, virði fyrir mér orðin á blaðinu sem renna til, verða að einni hlykkjóttri línu sem ég get ekki lesið og muldra í hálfum hljóðum:
„Hæstvirti umboðsmaður Alþingis!“
Ég reyndi eins og ég gat. Veistu að það eina sem ég vildi var að gleyma. Ég reyndi að þurrka út úr höfðinu á mér minningarnar um fyrstu 15 ár lífs míns. Neyddist til að forðast alla staði sem kveikt gætu sársauka liðinna ára. Árin sem ég var á forsjá íslenska ríkisins. Ég skammaðist mín, hafnaði mér, níddist á mér. Ég ásakaði mig harðlega og tók á mig alla ábyrgð á miskunnarlausum gjörðum skipaðra fulltrúa þess. Ég reyndi árangurslaust að halda áfram að vera falleg. Núna er ég 68 ára. Það er orðið of seint að vera falleg og þú, hæstvirti umboðsmaður Alþingis, berð fyrir þig lagabókstaf til að réttlæta ákvarðanir embættismanna.
Þú berð fyrir þig lagabókstaf til að réttlæta þjáningu sem hefur og hafði engan lögmætan kröfulýsingarfrest.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Almenningur hefur viðhaldið Stundinni og Kjarnanum með áskriftum og styrkjum síðan 2013. Með því að kaupa áskrift að Heimildinni styrkir þú sjálfstæða rannsóknarblaðamennsku.
Athugasemdir