Ég held að 2023 verði minnst í sögunni sem ársins þegar fólk vaknaði.
Flest okkar höfum lengi vel talið að samfélagið og umhverfið bara væri í lagi. Við höfum verið sannfærð um að ef við veikjumst muni öflugt heilbrigðiskerfi grípa okkur, að mannréttindi okkar séu virt og að á Vesturlöndum sé lýðræði og réttlæti. Í umhverfismálum á Íslandi hefur mátt lýsa afstöðu margra í orðatiltækinu „lengi tekur sjórinn við“, gengið út frá því að mengun sé bara útlenskt stórborgavandamál sem ekki komi okkur við.
Við höfum búið svo lengi við margþætt lífsgæði að mörg okkar hafa farið að taka þeim sem sjálfsögðum, litið á lýðræði og mannréttindi sem einhvers konar náttúrulögmál sem alltaf verði til staðar. Mörg hafa misst sjónar af því að flest okkar lífsgæða voru til komin vegna baráttu fyrri kynslóða sem komu á sæmilega réttlátu þjóðfélagi með félagslegu öryggisneti og öflugu heilbrigðiskerfi. Gleymt því að heilbrigð náttúra er undirstaða atvinnulífsins en ekki öfugt.
Á líðandi ári finnst mér hafa orðið straumhvörf. Við sem þjóð erum farin að opna augun fyrir því að mannréttindi, lýðræði og tjáningarfrelsi eru ekki sjálfsögð. Fólki er ljóst hvílík hætta steðjar að lýðræði Vesturlanda ef Trump verður aftur kosinn forseti í Bandaríkjunum. Við krefjumst þess að okkar kjörnu fulltrúar taki skýra afstöðu gegn hræðilegum árásum á sjúkrahús og almenna borgara í Úkraínu og Palestínu og viljum ekki fara í gleðipartí í vor ef þjóðir sem fremja stríðsglæpi fá að taka þátt.
„Við höfum búið svo lengi við margþætt lífsgæði að mörg okkar hafa farið að taka þeim sem sjálfsögðum“
Að afneita staðreyndum um hamfarahlýnun jarðar af mannavöldum er orðin kjánaleg jaðarskoðun. Fólki er nú ljóst hvílík firra stjórnlaust sjókvíaeldi við Íslandsstrendur er. Flest hafa áttað sig á þeim skaðlegu áhrifum sem ofuráhersla á bílinn sem samgöngumáta hefur haft á umhverfi okkar og heilsu. Draga má saman stöðuna í umhverfismálum þannig að við erum ekki lengur að ræða um hvort útlitið sé svart, á árinu 2023 breyttist umræðan í að snúast um hvernig við brettum upp ermar og tökumst á við vandann.
Í heilbrigðiskerfinu sáum við nýjan meðferðarkjarna Landspítala rísa, sem er, fyrir utan barnaspítalann, fyrsta sjúkrahúsbyggingin í 40 ár á höfuðborgarsvæðinu (við gætum rétt ímyndað okkur ástandið í skólamálum ef ekkert hefði verið byggt í 40 ár). Búið er að ákveða myndarlega fjölgun læknanema við Háskóla Íslands. Starfsfólk í heilbrigðisþjónustu hefur vaknað til meðvitundar um mikilvægi skaðaminnkandi nálgunar við fíknivanda, að dæma ekki þau sem kjósa að nota fíkniefni heldur styðja þau eins og annað veikt fólk. Við líðum ekki lengur áreiti og misrétti og höfum umbylt þjónustu við þolendur ofbeldis. Heilbrigðiskerfið okkar er fjarri því fullkomið en það er unnið af krafti að því að endurreisa og efla það.
„Í ár verða nýársheitin ekki bara að mæta í ræktina og efla okkar eigin heilsu, heldur að láta í okkur heyra um þau mál sem við brennum fyrir“
Ég held að á nýju ári muni þessi þróun halda áfram. Í ár verða nýársheitin ekki bara að mæta í ræktina og efla okkar eigin heilsu, heldur að láta í okkur heyra um þau mál sem við brennum fyrir. Ég spái að fleiri muni standa vörð um lýðræðið og mannréttindin, jafnrétti, tjáningarfrelsi og frjálsa fjölmiðla, hið félagslega öryggisnet sem einkennir þróað samfélag, öflugt heilbrigðiskerfi og hreina náttúru.
Athugasemdir (1)