Eldgosið norðan við Sundhnúk á Sundhnúkaröðinni, um fjórum kílómetrum norðaustur af Grindavík og í námunda við Svartsengi, hófst klukkan 22:17 í gærkvöldi. Í aðdraganda þess varð kröftug jarðskjálftahrina sem hófst rétt um hálf níu í gærkvöldi en frá þeim tíma hafa mælst um 500 jarðskjálftar við kvikuganginn. Sá stærsti varð um 23:25 í gær og mældist um 4,1 að stærð.
Samkvæmt upplýsingum sem Veðurstofa Íslands er gossprungan um fjórir kílómetrar að lengd og er norðurendi sprungunnar rétt austan við Stóra-Skógfell og syðri endinn rétt austan við Sundhnúk. Fjarlægðin frá syðri endanum að jaðri Grindavíkur er tæpir þrír kílómetrar. „Áfram gýs á allri gossprungunni, mestur er krafturinn um miðja sprunguna.“
Um miklu stærra gos er að ræða, og miklu kraftmeira, en þau eldgos sem orðið hafa á svæðinu á undanförnum árum. Bæði er sprungan mun lengri og magnið af kviku sem streymir úr henni mun meira en í síðustu gosum.
Heldur virtist draga úr krafti eldgossins þegar leið á nóttina og í uppfærslu sem Veðurstofan birti um fjórum klukkutímum eftir upphaf þess sagði að slíkt sæist bæði á skjálftamælum og GPS mælum. „Það að þegar sé að draga úr virkninni er ekki vísbending um hversu lengi eldgosið mun vara, heldur frekar að gosið sé að ná jafnvægi. Þessi þróun hefur sést í upphafi allra gosanna á Reykjanesskaganum síðustu ár.“
Veðurstofan mun halda áfram að vakta þróun virkninnar og er í beinu sambandi við almannavarnir og viðbragðsaðila á svæðinu. Vaktin mun birta upplýsingar um þróun atburðarásarinnar undir „Athugasemdir sérfræðings“ eftir því sem þurfa þykir. Samráðsfundur vísindamanna verður haldinn í fyrramálið.
Hagstæð veðurskilyrði
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sagði í færslu á Facebook í nótt að það mætti teljast heppni að vindur stóð ekki af suðaustri í kvöld, þegar eldgosið hófst. Ef svo hefði farið hefði gosmökkinn „lagt beinustu leið yfir Reykjanesbæ og Garðskaga“ og Keflavíkurflugvöllur jafnframt að öllum líkindum lokast.
Í staðinn blés vindur úr vestri og vindáttin hélst nokkuð stöðug til morguns. Næsta þéttbýli til austurs, sem gosmóðan leggur þá yfir, er Þorlákshöfn. „V-átt er fremur heppileg vindátt, en þó gæti slegið niður gasi í Þorlákshöfn og neðan til í Ölfusinu. Eins á Eyrarbakka og Stokkseyri og e.t.v. víðar í lágsveitum Suðurlands.„ Í dag á vindáttin svo að vera enn heppilegri, eða norðvestanátt með strekkingsvindi, sem þýðir að gosmökkinn leggur yfir Krísuvíkurbjarg og þaðan beint á haf út.
Neyðarstig og öllum leiðum inn í Grindavík lokað
Tveir lögreglubílar voru staddir í Grindavík þegar gosið hófst og þeir gengu úr skugga um að bærinn væri tómur. Bláa lónið, sem opnaði aftur á sunnudag, hafði einungis heimild til að vera opið til klukkan átta í gærkvöldi þannig að allir gestir þess voru farnir. Fyrirtækið bauð gesti velkomna á ný í lónið í færslu á Facebook-færslu á sunnudag en hefur nú fjarlægt þá færslu, enda fyrirséð að Bláa lónið muni ekki bjóða neinn velkominn í bráð.
Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum, ákvað strax skömmu eftir klukkan ellefu í gærkvöldi að fara neyðarstig Almannavarna vegna eldgossins. Samhæfingastöð Almannavarna var samhliða virkjuð og almenningur var beðinn um að fara ekki á staðinn á meðan viðbragðsaðilar voru að meta stöðuna. Ekki urðu allir við því og mikil bílaröð myndaðist á Reykjanesbraut þrátt fyrir að öllum leiðum inn í Grindavík hafi verið lokað í kjölfar þess að gosið hófst.
Í dag, þriðjudag, og næstu daga verður öllum leiðum inn til Grindavíkur áfram lokað nema fyrir viðbragðsaðila og verktaka sem eiga erindi inn á hættusvæðið við Grindavík, en vinna við gerð varnargarða við Svartsengi stendur enn yfir. Í samtali við RÚV í nótt sagði Jóhann Haukur Steingrímsson, sérfræðingur í varnargörðum hjá Eflu verkfræðistofu, að gerð varnargarðanna sem staðið hefur yfir í rúman mánuð hafi verið algjörlega á síðustu metrunum þegar gosið hófst. „Það var bara sáralítið eftir í kringum Bláa lónið.“
Á „kórréttum stað“ en mögulega „búið fyrir áramót“
Jóhann sagði ennfremur að staðsetning gossins væri heppileg. Flæði í átt að Grindavík væri ekki orðið neitt að ráði og að „lítið potast í átt að Sýlingafelli.“ Aðalþunginn lægi niður í lægðina í átt að Fagradalsfjalli og Jóhann sagði það „ eiginlega eins heppilegt og þetta gat orðið við þessar aðstæður.“
Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, var staddur á Sýlingafelli að mæla sprunguna í nótt. Þar sagði hann við RÚV að hún væri rétt rúmlega fjórir kílómetrar að lengd en að hún næði ekki yfir vatnaskil í átt að Grindavík. „Hún hefur verið að stjaka sér norður úr og það er kominn straumur í norðaustur í átt að Grindavíkurveginum en að öðru leyti fer hraunið í átt til austurs í átt að Fagradalsfjalli. Þetta er versta sprunga sem gat gosið á.“ Þrátt fyrir það kæmi gosið upp „á kórréttum stað“.
Ármann bjóst við því í nótt að hraun myndi renna áfram til austurs og „bunkast upp“ við Fagradalsfjall, en að lokum, haldi gosið áfram, leita í áttina að Þórkötlustaðahverfi sem liggur austast í Grindavík. „Um miðjan dag á morgun [í dag] verða þetta örfáir gígar sem eru eftir,“ sagði hann. „Þetta verður búið fyrir áramót.“
Hvað eru eiginlega vatnaskil?
Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands eru vatnaskil hæsta lína fjallshryggs tveggja dala. Ef hraun, eða eftir atvikum annað efni sem getur runnið, rennur frá efsta punkti þeirra þá rennur það niður beggja vegna og niður í báða dali.
Á meðan að gossprungan nær ekki yfir vatnaskil í átt að Grindavík, og hraun rennur norðan við þau, þá rennur hraunið úr eldgosinu frá Grindavík.
Sem stendur streymir hraun bæði norður og vestur frá gossprungunni auk þess sem það virðist líka vera straumur í austurátt. Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur sagði í samtali við RÚV í nótt að ef „þetta fer í austur er möguleiki að flæðið fari sunnan við vatnaskilin og þannig farið suður til Grindavíkur.“
Hvað einstaklinga varðar, þá hefur komið í ljós að fjöldi húsa er ekki bjargandi, þá er fyrsta tilkynning frá Viðlagasjóði að einungis verði greitt fyrir ætlað brunabótamat, að slepptu einhverjum prósentum og ætluðum förgunarkostnaði!
Með öðrum orðum, brot af raunverulegu tjóni er bætt.
Ef hins vegar drullupollur, afurð frá virkjun sem notað er sem ferðamannastaður, þarf að loka, þá eru strax tillögur um að gefa viðkomandi lokunarstyrk – óafturkræfan.
Það mætti geta þess að þessi drullupollur hefur gefið sínum eigendum milljarða arð á hverju ári.
Þann sama drullupoll ásamt virkjuninni þótti rétt að verja með framkvæmd, varnargarð er hefur þegar kostað ótrúlega milljarða úr vösum skattborgaranna
Getur verið að ráðamenn geri ekki grein á milli þess er verið er að vernda innviði samfélagsins og einkahagsmuni einhverra einstaklinga?
Virkjun er án vafa, hluti af innviðum samfélagsins, en afleiddur drullupollur vegna þessa????
Spurði einhver hverjir hafi notið afreksturs af drullupollnum??