„Life is a bitch and then you die,“ er vísdómur sem vinur minn vitnaði stundum til þegar við vorum ung. Þessi orð voru einkum látin falla vegna vonbrigða í ástarmálunum eins og það gæti riðið manni að fullu og fylgt manni inn í eilífðina að einhver gaur eða gella segði manni upp. Þó að þetta hafi verið sagt í gríni frekar en alvöru vitum við að öllu gamni fylgir nokkur alvara. Alvaran á bak við þetta grín fór ekki fram hjá mér vegna þess að vinur minn hafði orðið fyrir alvöru sorg á barnsaldri og vissi því hvernig það er að hafa sorgina að lífsförunaut. En það vissi ég ekki. Það kom síðar: Þegar ég missti dóttur mína, Hörpu Rut, og fékk sorgina að lífsförunaut.
Vangaveltur um lærdóma lífsins vekja ósjálfrátt spurningu um það hvort ég hafi lært eitthvað?
Já, líklega hef ég lært eitthvað enda hef ég haft nokkra áratugi til þess og lent í ýmsu. Ég gat t.d. aldrei „tollað“ í vinnu, eins og sagt var í mínu ungdæmi um fólk sem var alltaf að skipta um vinnu: Þegar ég hafði náð nokkuð þolanlegum tökum á starfinu sem ég gegndi varð ég ógurlega leið og hætti. Endurtekningin fór óskaplega í taugarnar á mér svo að ég varð að fara að gera eitthvað annað, helst eitthvað sem ég kunni ekki eða frekar illa.
Smám saman hlóðst þannig upp einhvers konar reynsla og eitthvað lærði ég þótt það hafi kannski verið frekar handahófskennt og sitt af hverju tagi. Ég kynntist mörgu og margvíslegu fólki á þessu ferðalagi mínu um vinnumarkaðinn og lærði sitthvað um mismunandi kjör fólks sem tilheyrir mismunandi stéttum. Því er oft haldið fram að Ísland hafi verið stéttlaust þjóðfélag allt fram á síðustu ár en það er náttúrlega bölvuð vitleysa, Ísland hefur alltaf verið stéttskipt. Allt frá landnámi voru sumir jafnari en aðrir, rétt eins og í sögunni Animal Farm/Dýrabær eftir George Orwell: Hingað sigldu uppgjafa höfðingjar úr Noregi með sitt vinnufólk og á leið sinni yfir hafið komu þeir við í nokkrum löndum og rændu fólki sem þeir hnepptu í þrældóm sjálfum sér til ávinnings og ánægju. Hún er ekkert sérstaklega fögur þessi saga, sjálf Íslandssagan.
Annað sem fylgdi þessum óróleika mínum var það að ég gat aldrei ákveðið hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Ég hafði áhuga á svo mörgu, vildi kynna mér sem flest og reyna mig í ýmsu, hvort sem ég hafði hæfileikana til þess eða ekki. Einungis reynslan gat leitt í ljós hvort ég höndlaði verkefnið sæmilega; sumt gekk vel, annað ekki eins vel og sumt jafnvel miður og þá var bara að finna sér nýtt verkefni.
„Ég gat aldrei ákveðið hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór.“
Það sem mér fannst skemmtilegast af öllu var að vinna við kvikmyndagerð enda tolldi ég lengst í því starfi af öllum þeim sem ég reyndi mig við. Nýjasta starfsheitið fékk ég svo nýlega þegar mér tókst að koma frá mér ljóðabók og get því kannski leyft mér, á gamalsaldri, að kalla mig skáld! En það þýðir ekki að ég ætli bara að vera skáld það sem eftir er, heimurinn er opinn og fullur af tækifærum fyrir okkur sem búum við þokkaleg kjör, sæmilega heilsu og nokkurn frið í okkar samfélagi.
En því miður eru ekki allir jafn lánsamir og ég: Stéttaskiptingin á Íslandi stingur í augu: Hér býr fólk sem er svo fátækt að það getur ekki leyft börnum sínum að taka þátt í íþróttum, það þarf að sækja mat og föt á börnin til hjálparstofnana og það hefur ekki efni á að gefa börnum sínum jólagjafir. Mikil er skömm ríkisstjórnarinnar og okkar allra, þjóðarinnar, að láta slíka grimmd viðgangast í okkar auðuga og gjöfula landi!
Því miður batnar það ekki þegar við lítum út fyrir landsteinana, þá liggur við að við förum að halda að við séum alveg sérlega lánsöm, íslenska þjóðin, því að við fylgjumst nú með svo skelfilegum atburðum á Gaza að ég er hætt að geta horft á fréttir. Hvernig í ósköpunum geta menn hugsað sér að myrða börn eins og við verðum nú vitni að á hverjum einasta degi? Hvernig í ósköpunum stendur á því að ríkisstjórn Íslands tekur ekki afstöðu gegn stöðugum árásum Ísraelsmanna á saklausa borgara í Palestínu? Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin er ekki búin að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael? Hvernig stendur á því að Ríkisútvarpið ætlar að taka þátt í Eurovision þótt ekki sé búið að vísa Ísraelsmönnum úr keppninni? Hvernig stendur á því að íslenska íþróttahreyfingin telur sæmandi að keppa í fótbolta við Ísraelsmenn? Og hvernig stendur á því að alþjóðasamfélagið stöðvar ekki þjóðarmorð Ísraela á Palestínumönnum, Ísraela sem hafa rænt Palestínumenn öllu sínu, kúgað þá, misþyrmt og myrt síðustu 75 árin?
Hvernig stendur á því að við rekum palestínsk börn beint inn í sprengjuregnið og neitum ungum manni um að fá móður sína hingað og bjarga henni þar með úr helvítinu sem hún býr nú í? Mikið sem ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur þegar ég fylgist með fréttum af því hvernig við förum með bágstatt fólk, Íslendinga jafnt sem þá erlendu flóttamenn og hælisleitendur sem hingað leita skjóls fyrir sig og sína!
„Hvernig stendur á því að við rekum palestínsk börn beint inn í sprengjuregnið?“
Enn er stríð í Úkraínu en það fær nú minna pláss af því að fréttir af nýjum fjöldamorðum eru teknar við. Fréttirnar af árásum Rússa á Úkraínu ýttu fréttum af öðrum stríðum í fjarlægari löndum út úr fréttatímunum – kannski ráðum við ekki við fréttir af fleiri en einu stríði í einu og sum okkar veigrum okkur við því að horfa á myndir af stríðshrjáðu fólki, myrtum börnum og heimilum í rúst.
Af öllum þeim stríðum sem gengið hafa yfir saklausa borgara þessa heims get ég ekki dregið aðra ályktun en þá að þau stafi af frekju og græðgi þeirra sem völdin hafa. Valdhafarnir vilja ræna löndum annarra þjóða, þeir ásælast landgæði annarra og auðlindir í stað þess að rækta sinn eigin garð. Þessa græðgi og frekju sjáum við í smærri útgáfu innan þjóða þar sem þeir sem komast að kjötkötlunum stinga bestu bitunum í sína eigin potta og er nákvæmlega sama um það hvernig öðrum líður, gefa skít í fátæktina í samfélagi sem er alveg nógu auðugt til að við gætum öll haft það gott ef ekki væri fyrir frekjuna í þeim gírugu. Og við sjáum þetta jafnvel innan fjölskyldna þar sem sumir fjölskyldumeðlimir eru svo gráðugir að þeir fórna fjölskyldutengslunum ef þeir telja sig geta grætt á því og stungið einhverjum krónum í eigin vasa.
Ég hef lært það að ég þoli ekki fátækt, ég þoli ekki græðgi, ég þoli ekki stríð: Við eigum að vera til friðs!
Athugasemdir (1)