„Okkur finnst skipta gríðarlega miklu máli að þessi ákvörðun komi frá RÚV. Því ef þetta er óbreytt þá mun fólk draga sig út – tónlistarfólk og listafólk. Við viljum frekar að RÚV taki þessa ákvörðun heldur en að þetta sé sett á hvern og einn – sem er þá kannski í klípu á milli þess að fylgja samviskunni og að sjá tækifæri til að stíga á stóra sviðið úti. Við viljum frekar að ákvörðunin komi að ofan.“
Þetta segir Bragi Valdimar Skúlason, formaður félags tónskálda og textahöfunda (FTT), í samtali við Heimildina. Félagið hefur sent áskorun til útvarpsstjóra og stjórnar RÚV um að hætta við þátttöku Íslands í Eurovision til að mótmæla fyrirhugaðri þátttöku Ísraels í keppninni.
Bragi segjast skilja vel að RÚV bíði svara og ákvarðana frá þeim sem halda keppnina úti. „En ef enginn gerir neitt þá aukast líkurnar á því að það verði ekkert gert,“ segir hann.
„Þetta er fyrst og fremst réttlætismál“
Í fyrra hótuðu Finnar að draga sig úr keppni væri Rússum leyft að keppa. „Það varð til þess að það kom þrýstingur á að Rússar yrðu ekki með. Ef einhver tekur skrefið þá getur það sett þrýsting,“ segir Bragi.
Hann útskýrir að stjórnin líti kannski ekki á þetta sem pólitískar yfirlýsingar. „Þetta er fyrst og fremst réttlætismál. Við viljum að það sama verði látið ganga yfir Ísrael núna eins og Rússa í fyrra. Ekkert flóknara en það. Svo það sé ekki einhver tvískinnungur í því,“ segir Bragi.
Hann segir það hafa verið einhug í stjórn FTT að senda áskorunina. „Auðvitað eru skiptar skoðanir um þetta. En almennt í okkar röðum virðist vera tekið vel í þetta.“ Hann segir að félagsfólk hafi skorað á stjórnina að aðhafast eitthvað. Það sé svo annarra að taka ákvarðanirnar. „Við erum allavega búin að gera þetta.“
Athugasemdir (3)