Hagstofan birti í vikunni úttekt sína á afkomu fyrirtækja á árinu 2022, í samanburði við fyrri ár. Fréttirnar eru þær að óvenju mikið góðæri sé nú í fyrirtækjunum. Tekjur fyrirtækja jukust gríðarlega mikið bæði árin 2021 og 2022. Einungis eitt ár af síðustu 20 árum var aukning heildartekna fyrirtækja meiri en nú, þ.e. árið 2006 í miðri bankabólunni.
Hagnaður fyrirtækja er einnig í methæðum, í kringum 12% af óvenju mikilli veltu. Hagnaður var meiri einungis eitt ár af síðustu 20 árum, þ.e. árið 2012. Eins og sjá má af meðfylgjandi mynd hefur launakostnaður fyrirtækjanna hins vegar verið að lækka (sem byggir á gögnum Hagstofunnar).
Launakostnaður hefur verið að lækka jafnt og þétt frá 2018, sem % af veltu, úr 22,1% niður í 19,8%. Fyrirtækin hafa þannig verið að taka stærri skerf af verðmætasköpuninni til sín um leið og hlutur launafólks hefur verið minnkandi og afkoma heimilanna ört versnandi (sjá hér).
Hagnaður fyrirtækja er sem sagt óvenju mikill núna, eða nærri þrisvar sinnum meiri en langtíma meðaltal síðustu 20 ára, eins og líka má sjá af myndinni. Byrði fyrirtækjanna af launakostnaði hefur hins vegar verið minnkandi og er nú nálægt langtímameðaltalinu.
Þá má spyrja hvernig það geti verið að verðbólgan nú sé einkum launahækkunum að kenna, eins og atvinnurekendur og Seðlabankinn segja? Það er augljóslega erfitt að styðja slíka ályktun með tölum Hagstofunnar um afkomu fyrirtækja.
Nærri lagi er að draga þá ályktun af stöðunni að verðbólgunni hefur verið beitt að hörku og klókindum til að auka hagnað fyrirtækjaeigenda og stjórnenda. Það eru jú fyrirtækin sem hafa hækkað vöruverðið upp í þessar hæðir, umfram kostnað, sem hefur skilað þeim methagnaði. Og allt er það á kostnað heimilanna.
Seðlabankinn bregst síðan við verðbólgunni með því að auka skuldabyrði með vaxtahækkunum, sem bitnar mest á tekjulægri heimilunum.
Kaupmáttur dregst aftur úr
Ef við horfum nær nútímanum og tökum árin 2022 og 2023 saman inn í myndina þá er þróun hagnaðar og kaupmáttar launavísitölunnar eins og sjá má á næstu mynd.
Þar er lögð saman árleg breyting hagnaðar fyrirtækja og kaupmáttar launa fyrir bæði árin. Þessi mynd sýnir enn betur stöðuna sem nú ríkir þegar fyrir liggur að gera nýjan kjarasamning.
Hófleg áætlun um aukningu hagnaðar á árinu 2023, sem byggir á veltutölum frá janúar til ágúst á þessu ári og birtum ársfjórðungsuppgjörum fyrirtækja á markaði, bendir til að samanlögð aukning hagnaðar bæði árin sé rúmlega 14%.
Árið 2022 var hins vegar engin aukning á kaupmætti launavísitölunnar og Hagstofan spáir 0,9% aukningu á yfirstandandi ári – samanlögð kaupmáttarbreyting beggja ára er þannig 0,9%. Tölur Hagstofunnar um þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna (sem ná einnig til aukningar á vaxtakostnaði heimilanna) sýnir um 5% rýrnun á kaupmættinum á öðrum ársfjórðungi yfirstandandi árs.
Misvægið er þannig mjög mikið. Hagnaður er í allra hæstu hæðum en kaupmáttur heimilanna dregst aftur úr. Síðan leyfa menn sér að kenna launafólki um verðbólguna og krefjast þess að heimilin taki á sig enn frekari rýrnun kaupmáttar – sem myndi þá auka hagnað fyrirtækjanna enn frekar.
Athugasemdir