Þegar blaðamaður Heimildarinnar hafði samband til að bjóða mér að skrifa um það sem ég hefði lært í lífinu leist mér bara vel á, fólk sem lendir í því að kynna bækur sínar í jólabókaflóði grípur öll tækifæri til að minna á sig.
En þegar ég síðan fór að hugsa um það hvað ég hefði lært í lífinu vandaðist málið, kannski var það minna en ég hugði. Hvatvísi og fljótfærni hafa fylgt mér alla tíð og var ekki þarna komið enn eitt dæmið um það, ég hafði hoppað á að skrifa grein um að ég væri orðinn þroskaðri en fyrir hálfri öld án þess að leiða að því hugann að líklega stæði ég enn í sömu sporum.
„Hvatvísi og fljótfærni hafa fylgt mér alla tíð og var ekki þarna komið enn eitt dæmið um það“
Vissulega hugsar maður öðruvísi sjötugur en tvítugur, maður hallast meira að tónlist þar sem farið er sparlega með tónana og líka orðfærri ljóðum og skáldsögum en ég hika við að kalla það þroska, þeir tónar og sá skáldskapur sem hittu á mig tvítugan voru einfaldlega söngur tímans og hljóma enn þá rétt í sínu samhengi.
Síðustu þrjú árin hef ég rifjað upp ævi mína og skráð á bók sem kom út fyrir mánuði síðan og heitir Gangandi bassi, endurminningar djassmanns. Þótt ævin hafi ekki gagnast mér til að verða að gagni vitrari en áður tók ég eftir einu við skriftirnar: Gáfulegustu og gagnlegustu ákvarðanirnar sem ég tók í lífinu áttu það sameiginlegt að ganga þvert á það markmið að búa mig undir örugga framtíð, stundum er það kennt við heilbrigða skynsemi og hagnýta hugsun.
Þegar ég var nítján ára gamall í harmonikkunámi heillaðist ég af argentínskum tangó, spiluðum á bandoneón, tangóharmonikkuna. Ég hugsaði með mér að það hlyti að vera hámark jarðneskrar upplifunar að fara til Buenos Aires og hlusta á þessa tónlist. Ég hugsaði sem svo að ef maður ætlaði til Suður-Ameríku yrði maður að geta bjargað sér á spænsku og keypti kennslubók fyrir byrjendur í spænsku. Um leið og spænskan blasti við mér af síðunum var ég gagntekinn, ég hafði aldrei séð tungumál sem var svona fagurt ásýndum. Fegurðin náði hámarki í spurningar- og upphrópunarmerkjum, þau voru á hvolfi fyrir framan en hefðbundin fyrir aftan málsgreinina: ¿Por qué?
Haustið 1975 lá því beint við að fara til Barcelona og eftir að heim kom fór ég á vertíð, það þurfti að safna miklu fé fyrir ferðina um Rómönsku Ameríku. Það var lítið vit í því út frá praktískum sjónarhóli að læra spænsku árið 1975, nema þá að maður hefði brennandi áhuga á því að gerast leiðsögumaður í sólarferðum, sem var ekki ofarlega á mínum óskalista.
Árið 1980 pompaði ég endanlega ofan í djassmúsík og byrjaði að spila á kontrabassa og hóf nám í nýstofnuðum Tónlistarskóla FÍH. Með því að fara úr spænskunni í djassinn var ég í raun að fara úr öskunni í eldinn hvað hyggileg framtíðaráform snerti. Tekjur af djassspili voru lengi vel innan við einn tíundi af því sem þurfti til lágmarks framfærslu, fyrstu árin björguðu mér húsvarsla og skúringar. Sú hugsun flögraði að mér á níunda áratugnum að músíklega séð hefði ég betur sleppt spænskunni og byrjað fyrr á kontrabassanum og djassinum, það leit ekki út fyrir að spænskan kæmi mér að miklu gagni.
„Með því að fara úr spænskunni í djassinn var ég í raun að fara úr öskunni í eldinn hvað hyggileg framtíðaráform snerti“
Árið 1989 bauðst mér fyrir tilviljun að þýða bók eftir sílenska höfundinn Isabel Allende. Launin gerðu mér kleift að gefa út plötuna Nýjan tón sama ár, þá fyrstu í eigin nafni. Þýðingar stóðu svo undir umtalsverðri plötuútgáfu á þeim árum sem fylgdu.
Aldamótaárið 2000 var ég kominn á kaf í latíntónlist og fór í fyrsta sinn til Kúbu. Þremur árum síðar fór ég aftur og hljóðritaði þá plötuna Havana með kúbverskum tónlistarmönnum. Þá upptöku og aðrar í kjölfarið hefði ég aldrei getað gert án spænskukunnáttunnar, Kúbverjar voru flestir ekki mæltir á aðrar tungur en spænsku og ekki hafði ég efni á því að hafa með mér túlk.
Þegar ég fyrir tilviljun örlaganna lenti í hljómsveitinni Diabolus in Musica í Kaupmannahöfn 1980, græningi í hópi reynds tónlistarfólks, var ég að fara að skrá mig á byrjendanámskeið í portúgölsku. Bossanova-tungumálið portúgalska var og er í mínum eyrum hljómfegursta tungumál veraldarinnar. Portúgalskan var sýnu ópraktískari en spænskan starfslega séð, en þegar djassinn og kontrabassinn tóku yfir hafði ég fundið það sem sló bæði spænsku og portúgölsku út í óhagnýtu námi, tryggilega fjarri öruggri framtíð í efnahagslegum skilningi.
Og er þá loksins komið að því eina sem ég hef lært í lífinu: Þeim mun fjær sem draumar mínir eru heilbrigðri skynsemi og hagnýtri hugsun, þeim mun meiri líkindi eru til þess að það verði mér til hamingju að elta þá. Ég var í borginni Porto sl. haust og varð enn á ný gripinn löngun til að læra portúgölsku, þetta flókna mál með sínum töfrandi hljómi. Ég náði að setja saman setningar með hjálp dagblaða og spænskukunnáttu og prófaði þetta á innfæddum sem dembdu á mig kraftmiklum fossi af mér algjörlega óskiljanlegum orðum. Galnar hugmyndir hafa orðið mér til gæfu í lífinu og kannski læt ég vaða á portúgölskuna, það er alla vega nógu ópraktískt.
Athugasemdir