Það var aðfaranótt 16. nóvember sem þjófur eða þjófar brutust inn í bíl Baldvins Vernharðssonar og Fríðu Þorkelsdóttur á Rekagranda í Vesturbæ. Í bílnum voru veruleg verðmæti sem hurfu: Tölva, kvikmyndamónitor, minniskort, rafhlöður og fleiri smáhlutir sem Baldvin, sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmaður, notar við vinnu sína.
Tjónið hljóðar upp á 1,8 milljónir að sögn Baldvins. Fjölskyldan fékk einungis um 200 þúsund krónur úr tryggingunum.
„Fyrir mig sem sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmann þá er þetta svolítill biti,“ segir Baldvin.
Fóru sjálf að leita uppi þýfið
Hann gerði lögreglunni viðvart sem tók af honum skýrslu en svo segir Baldvin að lögreglan hafi lítið aðhafst. Þegar hann sá að tölvan væri líklega í húsnæði Króks í Hafnarfirði, miðað við staðsetningarforritið Find My, hafði hann samband við lögregluna.
„Löggan segist ekkert geta gert í svona málum og spyr hvort ég geti ekki bara farið sjálfur og tékkað á þessu,“ segir Baldvin. „Sem við gerum og fáum að fara þarna inn og skoðum okkur um en ekkert finnst svo sem. Mig grunar að það sé ólöglega búið á efri hæðinni í þessu húsi svo ég ímynda mér að það geti eitthvað tengst þessu.“
Var ekkert ógnvekjandi fyrir ykkur að fara þarna sjálf og leita uppi þjóf sem þið vitið ekkert hver er?
„Manni stóð ekkert alveg á sama. Það var smá hugur í manni, mann vantaði bara þetta dót aftur en jú, jú, ég, liggur við, bjóst alveg við því að fá hnefa í andlitið einhvers staðar.“
Gat lögreglan ekkert gert frá upphafi?
„Þegar hún kom þarna og tók skýrslu af mér þá bara rétt kom hún og hún skoðaði ekki einu sinni bílinn. Ef hún hefði litið á einhverja staði – maður myndi halda að löggan myndi vita um ákveðnar leiðir til þess að komast inn í bíla – þá hefði hún séð ummerkin. En það var ekkert gott viðmót frá lögreglunni frá upphafi,“ segir Baldvin.
Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, kannaðist ekki við þetta einstaka mál en sagði í samtali við Heimildina að allar vísbendingar séu skoðaðar í innbrotsmálum.
„Ef við höfum einhverjar vísbendingar, upptökur eða hvað sem er, þá skoðum við það allt saman. En ef ekkert gerist þá þarf því miður að loka þeim málum.“
Þá sagði Guðmundur að almennt fylgi lögreglan oft fólki í leit að stolnum munum.
„Alla vega í mörgum tilvikum, ef við höfum mannskap í það þá gerum við það.“
Tekur nokkra mánuði að safna fyrir nýjum búnaði
Baldvin hefur þegar keypt sér nýja tölvu en það mun taka hann einhverja mánuði að safna fyrir nýjum kvikmyndatökubúnaði.
„Viðskiptalíkanið mitt er þannig að ég leigi út búnað með mér í verkefni þannig að það hækkar launin mín líka á hverjum degi,“ segir Baldvin. „Nú get ég það ekki og þarf þá að leigja þetta annars staðar frá.“
Baldvin fylgist nú vel með því hvort búnaðinum bregði fyrir á sölusíðum eða annars staðar en hann hefur ekkert séð eða heyrt.
„Þetta er svo sérstakur búnaður að það er ekkert hlaupið að því að selja þetta,“ segir Baldvin.
Athugasemdir