Næstum átta af hverjum tíu landsmönnum eru óánægð með störf Bjarna Benediktssonar, nú utanríkisráðherra en sem var áður fjármála- og efnahagsráðherra í meira og minna í áratug. Alls 76,7 prósent aðspurðra í nýrri könnun Prósent segjast vera óánægð með störf formanns Sjálfstæðisflokksins en einungis 11,8 prósent segjast ánægð með ráðherrastörf Bjarna.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri kemur skammt undan í óvinsældum. Alls segjast næstum tveir af hverjum þremur, 64,5 prósent, vera óánægð með störf hans og 14 prósent lýsa yfir ánægju með þau.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mælist minna óvinsæl en ofangreindir en er þó í þeirri stöðu að rúmlega helmingur aðspurðra, 54,2 prósent, sögðust óánægðir með störf hennar. Tæpur fjórðungur segist hins vegar vera ánægð með forsætisráðherra.
Í könnun Prósents kemur fram að fylgjendur Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins eru ánægðari með störf Katrínar en fylgjendur annarra flokka. Þar segir enn fremur að fylgjendur Sjálfstæðisflokksins séu ánægðari með störf Bjarna Benediktssonar en fylgjendur annarra flokka auk þess sem þeir eru ánægðari með störf Ásgeirs Jónssonar en allir aðrir flokkar fyrir utan Vinstri græn.
Þá kemur fram að konur eru marktækt ánægðari með störf Katrínar en karlar.
Könnunin var gerð 9. til 24. nóvember. Úrtakið var 1.900 manns 18 ára og eldri og svarhlutfall var 47,6 prósent.
Athugasemdir