Guðbjörg Matthíasdóttir, útgerðarkona í Vestmannaeyjum sem verið hefur stærsti hluthafi Ísfélagsins síðastliðin ár, hefur fært meirihluta hlutabréfa sinna í útgerðinni yfir á fjóra syni sína. Í dag á hún minni hlut í Ísfélaginu en þeir. Þetta má sjá í skráningarlýsingu Ísfélagsins, fyrir væntanlega skráningu þess á hlutabréfamarkað, sem og ársreikningum félaga Guðbjargar og sona hennar. Vefmiðillinn Hluthafinn.is greindi fyrst frá eigendaskiptunum á hlutabréfum.
Með þessum gerningi fetar Guðbjörg í fótspor stofnenda og fyrrverandi stærstu eigenda Samherja, Þorsteins Más Baldvinssonar og Kristjáns Vilhelmssonar, sem færðu stærstan hluta bréfa sinna í Samherja yfir á börnin sín fyrir nokkrum árum.
„Í maí 2023 var hlutafé félagsins lækkað með útgreiðslu til hluthafa kr. 2.750.000.000.“
Fer úr 92 prósenta hlut í rúm 11
Í lok síðasta árs átti Guðbjörg Matthíasdóttir tæplega 92 prósenta hlut í eignarhaldsfélaginu Fram ehf. sem aftur átti ÍV fjárfestingarfélag sem átti tæplega 58 prósenta hlut í Ísfélaginu. Synir hennar fjórir, Einar, Kristinn, Magnús og Sigurður Sigurðssynir, áttu rúmlega 2 prósenta hlut hver á móti henni.
Í skráningarlýsingu Ísfélagsins kemur fram að þetta sé nú breytt og á hún nú rúmlega 11 prósenta hlut í Fram ehf. Synir hennar eiga nú rúmlega 22 prósenta hlut í Fram ehf. hver. Um þetta segir í skráningarlýsingunni í tilfelli Einars Sigurðssonar, eins sona hennar: „Einar á engan beinan hlut í félaginu sjálfur, en á 22,12% eignarhlut í fjölskyldufyrirtækinu Fram ehf. sem er eini hluthafi ÍV fjárfestingafélags ehf., sem á um 57,7% í félaginu. Einar er jafnframt þriðjungseigandi í MKE ehf. sem á um 0,26% af hlutafé í Ísfélagi (0,27% miðað við atkvæðisrétt).“
Eigendur Fram ehf. í dag, og þar með hlutabréfanna í Ísfélaginu, eru því fjórir synir Guðbjargar með rúm 22 prósent hver og svo hún sjálf með rúmlega 11 prósent.
Fjölskyldan selur bréf fyrir um 9 milljarða
Í skráningarlýsingunni kemur fram að Guðbjörg og synir ætli sér að selja 8,57 prósenta hlut í útboðinu á Ísfélaginu. Félög þeirra munu fara úr því að eiga 57,77 prósent hlut og niður í 49,13 prósenta hlut.
Miðað við áætlað markaðsvirði Ísfélagsins upp á um 110 milljarða króna þá gæti fjölskyldan fengið um 9,4 milljarða króna fyrir þessi hlutabréf. Fjölskyldan er því að fara að innleysa mikinn söluhagnað í útboðinu.
Við þetta bætist að í maí á þessu ári greiddi fjölskyldufyrirtækið Fram ehf. út tæplega 3 milljarða króna til Guðbjargar og sona hennar með því að lækka hlutafé félagsins: „Í maí 2023 var hlutafé félagsins lækkað með útgreiðslu til hluthafa kr. 2.750.000.000.“
Greiningarfyrirtækið Jakobsson Capital sendi frá sér verðmat á Ísfélaginu í gær þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Ísfélagið væri undirverðlagt og að virði félagsins sé 129,7 milljarðar króna.
Boltinn er hjá blaðamönnum Heimildarinnar. Því hvernig hrókeringarnar ganga fyrir sig er lítils virði... en hver tilgangurinn er skiftir öllu máli. Enda í þessu máli eru gerendurnir hið opinbera og stjórnmálamenn ef skattsvikaleiðir undir skjóli skattahagræðis er átölulaust og umræðulaust af hálfu blaðamanna.
Frekar furðulegt að menn hafi ekki spurt skattinn um þessa hlið mála.
Auðvitað bráðsnjallt að selja börnunum sínu 20 milljarða fyrirtæki á nafnvirðinu 100 milljónir... og komast upp að það... þó svo erfðarfjárskatturinn af 100 milljónunum sé greiddur.