Japan og Kína voru að mestu lokuð lönd og áttu lítil sem engin samskipti við umheiminn um aldabil þar til um og eftir miðja 19. öld. Það var þá sem Bretar þvinguðu bæði löndin til að hefja viðskipti við þá. Bretar neyttu aflsmunar til að kúga Kínverja til undirgefni með ósiðlegum ópíumstríðum 1839-1842 og aftur 1856-1860. Breta vanhagaði um postulín, silki og te frá Kína og þeir neyddu Kínverja til að þiggja ópíum í staðinn; aðrir segja að Bretar hafi ekki haft neitt annað að bjóða sem Kínverjar höfðu hug á að kaupa. Bretar kúguðu Japana með hótunum um hernaðarofbeldi sem Japanar töldu sig ekki hafa þrótt til að standa gegn.
Þannig hófu þessi fornfrægu menningarlönd í Asíu aftur blómleg viðskipti við okkar heimshluta fyrir 150 árum eða þar um bil. En löndin tvö fóru ólíkar leiðir inn í nútímann. Kína hjakkaði lengi í gömlu fari og sætti innrás Japana 1937 sem lauk ekki fyrr en með ósigri Japans í heimsstyrjöldinni síðari 1945. Kommúnistar náðu völdum í Kína 1949 að loknu borgarastríði og héldu landinu í sárri fátækt í 30 ár eða þar til þeir hófu umbætur í átt til markaðsbúskapar 1978 að vestrænni fyrirmynd til að lyfta lífskjörum almennings. Það tókst.
Þrjú stríð, tveir sigrar
Japan tók aðra stefnu. Japanar gáfust upp fyrir ofbeldishótun skipstjóra brezka Austur-Indíafélagsins, sem hafði ruðzt í land þótt erlendum skipum væri ekki heimilt að sigla til Japans. Japanar ákváðu að taka sig á með því að gerbreyta stjórnarháttum í landinu, uppræta herveldið og lénsveldið sem höfðu staðið þar öldum saman. Umskiptin hófust 1868. Japanar kusu að semja sig að vestrænum háttum, jafnvel í klæðaburði. Þeir sendu fulltrúa sína til Evrópu og Ameríku til að tileinka sér aðferðir, hugmyndir og tækni vesturlanda. Japan tók að breytast hratt úr fátæku bændasamfélagi í nútímalegt iðnríki.
Japanar háðu stríð við Rússa 1904-1905 og höfðu sigur. Það var fyrsta stríðið þar sem Asíuþjóð sigraði Evrópuland. Japanar börðust við hlið Frakka, Breta og Bandaríkjamanna gegn Þjóðverjum og bandamönnum þeirra í fyrri heimsstyrjöldinni 1914-1918. Að loknum sigri væntu Japanar þess að þeir fengju að sitja við borð sigurvegaranna, en þar buðu Frakkar, Bretar og Bandaríkjamenn þeim ekki til sætis. Japanar litu svo á að kynþáttafordómum væri um að kenna. Þeir undu niðurlægingunni ekki vel.
Þannig gerðist það að japönsk þjóðernisstefna ruddi sér til rúms og Japanar hervæddust enn frekar og ruddust inn í Kína og önnur Asíulönd. Úr því að Bretar og Frakkar höfðu lagt undir sig öll þessi lönd um allan heim, hví skyldu þá Japanar ekki gera það líka?
Heimsstyrjöldin síðari hófst ekki 1939 í Asíu, heldur 1937 með innrás Japana í Kína. Þetta skýrir að hluta ákvörðun Japana um árásina á Pearl Harbor 1941, bandalag þeirra við þýzka nasista og ítalska fasista í stríðinu, mikla grimmd japanskra herja á herteknum svæðum í Asíu og gallharða andspyrnu þeirra gegn Bandaríkjaher á lokastigi stríðsins. Þessi harka japönsku herforingjanna sannfærði Harry Truman Bandaríkjaforseta um nauðsyn þess að varpa kjarnorkusprengjum á Hírósíma og Nagasakí í ágúst 1945 til að knýja Japana til að gefast upp frekar en að halda áfram að berjast við þá lengi enn með miklu mannfalli á báða bóga.
Ósigur skilaði árangri
Að stríðinu loknu endurtók sagan sig. Líkt og 1868 vinguðust Japanar við sigurvegarana, Bandaríkin og bandamenn þeirra, og hefur hvergi borið skugga á vinfengið frá 1945. Síðan þá hafa Japanar byggt upp glæsilegt og siðfágað samfélag og stöndug fyrirtæki sem gerðu landið að efnahagslegu stórveldi, þriðja mesta hagveldi heimsins á eftir Bandaríkjunum og Kína. Næstu sæti listans skipa nú Þýzkaland, Indland, Bretland, Frakkland og Ítalía.
Japan er að ýmsu leyti óvenjulegt land. Japönum hefur fækkað um þrjár milljónir frá 2010. Æ fleiri íbúðir standa auðar af þeim sökum. Japanskir heimilisfeður hefja daginn yfirleitt eldsnemma þar eð þeir þurfa að ferðast langar leiðir með lestum til vinnu sinnar. Að loknum vinnudegi telja þeir sér skylt að skemmta þeir sér með vinnufélögum sínum þar til síðasta lestin skilar þeim aftur heim seint á kvöldin. Þeir eru félagsverur, aðrir segja hópsálir, og sjást því margir sjaldan heima hjá sér nema í mýflugumynd um helgar. Af þessu auk annars leiðir að 40% ungra japanskra kvenna eru nú afhuga hjónaböndum og barneignum.
Japönsk menning er samofin félagshyggju frekar en einstaklingshyggju, samhyggju frekar en sérhyggju. Japanar stæra sig ekki af verkum sínum eða sjálfum sér, það þykir ókurteisi. Þeir samsama sig yfirleitt þeim hópum sem þeir tilheyra, fjölskyldunni, félagssamtökum og fyrirtækjunum þar sem þeir vinna, og breyta samkvæmt því. Það telst yfirleitt vera andfélagslegt athæfi að rísa gegn hópum sem menn tilheyra.
Japanskur konsúll í Kaunas í Litháen í síðari heimsstyrjöldinni, maður að nafni Chiune Sugihara, fékk að kenna á þessu. Hann gaf út vegabréfsáritanir handa sex þúsund gyðingum til að bjarga þeim undan drápsvél nasista gegn fyrirmælum stjórnarráðsins í Tókíó. Þegar heim kom að stríði loknu var honum útskúfað fyrir að hafa óhlýðnazt yfirvöldum. Hlýðni við yfirboðara, dæmda stríðsglæpamenn að loknu stríði, vó þyngra en lífgjöf til þúsunda.
Blikur á lofti
Japanar lifa þjóða lengst. Lífslíkur Japana eru 85 ár sem er heimsmet. Fjöldi Japana sem eru 100 ára og eldri nálgast nú 100.000 sem einnig er heimsmet. Heilbrigðismál í Japan eru eftir því í góðu horfi og einnig menntamál.
Eigi að síður hefur hægt á uppgangi Japans undangengin 30 ár eftir mikinn vöxt áratuganna eftir stríð. Og nú horfir aftur ófriðlega í Asíu þar eð Kínverjar hafa í hótunum við frændur sína í Taívan. Þess vegna búast Japanar nú til að hervæðast að nýju líkt og Þjóðverjar gera nú í Evrópu vegna stríðsins í Úkraínu. En nú er af það sem áður var. Enginn þarf að óttast yfirgang af hálfu Japans eða Þýzkalands eins og reynslan frá stríðslokum 1945 vitnar um. Báðum löndum og einnig Ítalíu hefur vegnað vel frá ósigrinum í heimsstyrjöldinni.
Athugasemdir