Fjárhús á jörðinni Götu í Selvogi skammt frá Strandakirkju hýsir nú stóran hluta fjár í Grindavík. Fjárhúsið hefur staðið tómt síðastliðin þrjú ár eftir að eigandi fjárhússins ákvað að setjast í helgan stein þegar hann var kominn á áttræðisaldur.
Georg Sylvíuson, sonur jarðeigandans, var í óða önn að gera og græja og moka hænsnaskít þegar ljósmyndara Heimildarinnar bar að garði en hænur og endur hafa hreiðrað um sig í tómu fjárhúsinu undanfarið. „Þær fara núna í sitt gamla rými,“ segir Georg. Pláss er fyrir 560 kindur í fjárhúsinu og Georg er fullviss um að hann kæmi öllu sauðfé á Suðurnesjum fyrir í fjárhúsinu. Faðir hans hætti búskap fyrir um þremur árum og Georg fann sig ekki knúinn til að halda búskapnum áfram. „Það var ekkert upp úr þessu að hafa, það var málið sko.“
En það mun ekki væsa um kindurnar í fjárhúsinu í Götu. „Við þurfum að laga girðingarnar ef við ætlum að hleypa þeim eitthvað út. Þar er nóg að bíta og brenna.“ Hann segir það skemmtilega tilhugsun að þurfa að hugsa um 500 kindur. „Það er bara smá gaman. Ég held nú að fólkið vilji vera með puttana í þessu, þeim þykir það vænt um þessi grey. Hér er nóg pláss.“
Grétar Jónsson, formaður fjáreigendafélags Grindavíkur, stóð fyrir flutningi fésins í dag ásamt Hönnu Sigurðardóttur, varaformanni fjáreigendafélagsins. Hann tekur ekki í mál að Georg sjái einn um að hugsa um féð. 157 kindur eru nú komnar í fjárhúsið og vel gekk að smala þeim í morgun og tók það aðeins um klukkustund.
„Ég fann bara eina dauða í fjörunni,“ segir Grétar. Kindurnar eru í eigu tíu „hobbýbænda“ eins og Hanna kemst að orði og Grétar segir að bændurnir muni skiptast á að hugsa um hópinn, annað komi ekki til greina.
Hanna segir það mikinn létti að vita af fénu öruggu. „Venjulega myndum við smala um miðjan nóvember, taka það allt heim á hús, við ætluðum að smala næstu helgi. Það var nauðsynlegt að komast inn á hús, ég er mjög fegin að komast hér inn. Mjög þakklát.“
Fé enn fast á sprungusvæði
Enn á eftir að sækja um 120 kindur, að minnsta kosti, sem eru í fjárhólfi vestan við Grindavík hjá Stað. Fjöldi sprungna hefur myndast á því svæði síðustu vikur. „Það er svo mikið sprungusvæði þar að við treystum okkur eiginlega ekki að fara á eftir þeim þar. Ef þeir ætla að ná þeim er helst að björgunarsveitin hjálpi okkur með dróna og komi þeim nær höfnunum til að ná þeim en við náum þeim ekki eins og er,“ segir Hanna.
Senn líður að fengitíma og Hanna segir að geri þurfi ýmsar ráðstafanir vegna þess. „Ætli það verði ekki bara tilhleypingar hér, allir saman, það verður bara gaman hjá okkur,“ segir Hanna og hlær. Hún býst því við aukinni fjölbreytni þegar sauðburður verður með vorinu. „Bara á okkar bæ erum við með 12 eða 15 hrúta og um 60-65 ær. Þessu verður örugglega öllu blandað eitthvað skemmtilega saman.“
Móðir Hönnu og Grétar eru par og dvelur stórfjölskyldan saman í sumarbústað eftir að bærinn var rýmdur á föstudag, átta fullorðin, fimm börn, tveir hundar og sex kettir. „Þetta er kósý,“ segir Hanna.
Óvissan er samt sem áður enn mikil þó svo virðist sem staða jarðhræringanna hafi haldist óbreytt síðasta sólarhringinn. Veðurstofan telur enn verulega hættu á eldgosi, helst þar sem kvikugangurinn er breiðastur norðaustur af Grindavík við Sundhnúk og Hagafell. Þá er talið að kvika flæði inn í ganginn á fleiri en einum stað.
Grétar segist vera hálf hauslaus eftir síðustu daga. Staðan sé súrrealísk og hann hafi lítið sem ekkert sofið. Hann sé þó aðeins rórri nú þegar búið er að finna fénu skjól í góðu fjárhúsi. „Nú fer ég kannski að hugsa um sálartetrið.“
Athugasemdir