Ef frumvarp Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um takmarkanir á meðferðum til útlitsbreytinga án læknisfræðilegs tilgangs er samþykkt munu snyrtifræðingar ekki lengur hafa heimild til þess að sprauta fylliefnum í viðskiptavini sína. Það verður einungis læknum með sérfræðileyfi í húðlækningum eða lýtalækningum heimilt og svo öðrum heilbrigðisstarfsmönnum – t.a.m. öðrum læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum – að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þessi skilyrði eru ekki nægilega skýr, að mati þeirra sem skrifa umsagnir við frumvarpsdrögin.
Þau eru viðbragð heilbrigðisráðherra við aukinni umræðu um fylliefni og þeim slæmu afleiðingum sem röng meðferð þeirra getur haft. Sem stendur eru engar reglur í gildi hér á landi um notkun slíkra efna. Fréttaskýringaþátturinn Kompás fjallaði ítarlega um málið í lok september.
Snyrtifræðingar hafi betri þekkingu en sjúkraliðar
Frumvarpsdrögin sæta töluverðri gagnrýni inni á samráðsgátt stjórnvalda, ekki síst frá fólki sem mun ekki lengur vera heimilt að sprauta í viðskiptavini sína fylliefnum ef frumvarpið nær fram að ganga. Hjúkrunarfræðingar, snyrtifræðingar og aðrir segja að ýmis ákvæði frumvarpsins séu óskýr og að það ógni atvinnu fólks sem hefur sprautað fylliefnum í viðskiptavini sína í áraraðir.
Hafrún María Zsoldos snyrtifræðimeistari er á meðal þeirra sem gagnrýnir frumvarpið.
„Vissir veitendur þessarar þjónustu hafa sótt námskeið hjá Landlæknisembættinu til að halda úti þjónustu sinni, þó þeir séu ekki heilbrigðismenntaðir í þeim skilningi er reglugerðin gerir ráð fyrir,“ skrifar Hafrún sem telur að snyrtifræðingar ættu áfram að hafa heimild til þess að sprauta fylliefnum.
„Snyrtifræðingar til dæmis hafa staðgóða þekkingu á líffæra- og lífeðlisfræði og hafa margir góða þekkingu og reynslu á þessu sviði, jafnvel haldið námskeið fyrir lækna og hjúkrunarfræðinga hvað varðar notkun ífarandi fegrunarmeðferða. Þessi menntun og reynsla er yfirleitt mjög svo haldbetri en t.d. sjúkraliðar hafa með sinni menntun og þjálfun í almennum umönnunarstörfum.“
Telja mikilvægt að hjúkrunarfræðingar geti sótt um leyfi
Inga Heinesen og Ingibjörg Hulda Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingar og eigendur Dermaklíníkurinnar á Akureyri sem m.a. veitir meðferðir með fylliefnum, gagnrýna einnig frumvarpið. Þær segja mikilvægt að skilgreina frekar hvað teljist fullnægjandi menntun í líffærafræði og líkamsbyggingu og hvað teljist fullnægjandi viðbótarmenntun.
„Auk þess þarf að liggja fyrir að hjúkrunarfræðingar geti sótt um leyfi hjá landlækni fyrir starfsstofu áður en reglugerðin er samþykkt. Sé það ekki gert eru hjúkrunarfræðingar sem starfa við þessa sérgrein án atvinnu,“ skrifar Inga.
15 konur skila sömu umsögn
Athygli vekur að 15 konur skila nákvæmlega sömu umsögninni um frumvarpið – þeirra á meðal Berglind Þyrí Guðmundsdóttir og Ýr Björnsdóttir sem reka Húðklínikina sem býður upp á meðferðir með fylliefnum. Konurnar 15 gagnrýna fréttaflutning um fylliefni að undanförnu – fréttaflutning um skort á regluverki þar sem fylliefnabransinn hefur m.a. verið kallaður „villta vestrið“ og dæmi um verulega slæmar niðurstöður hafa verið dregin fram í dagsljósið.
„Ljóst er að þessi starfsgrein hefur lifað góðu lífi í áratugi þrátt fyrir þær hasarfréttir sem nýlega hafa birst í fjölmiðlum af „Villta vestri fylliefnaheimsins“ og fullyrðingar um að ísprautun fylliefna sé „ífarandi inngrip“,“ skrifa konurnar sem telja að „grafið sé undan greininni“ með því að „skerða atvinnufrelsi“ þeirra sem þegar vinna í henni og hafa sótt sér þekkingu um fylliefni og meðferð þeirra.
Opið er fyrir umsagnir um frumvarpið til 22. nóvembers næstkomandi.
Hvernig fylliefni eru skilgreind í þessum drögum að reglugerð er ábótavant. Hvorki hugtakið „lyf“ né „lækningartæki“ nær utan um það hvað fylliefni eru og hugtakið „fylliefni“ uppfyllir ekki þau skilyrði sem tilgreind eru í skilgreiningum Lyfjastofnunnar á lyfjum eða lækningatækjum. Ef skilgreining á þeim efnivið sem unnið er með er ekki á hreinu og þekking og skilningur á honum takmarkaður, má ætla að illmögulegt sé að sníða sértakt regluverk um meðferð hans.
Æskilegt er að þeir sem starfa við ísprauta fylliefni séu í samstarfi með lækni og/eða hjúkrunarfræðingi og að samráð milli þeirra sé reglulegt. Í 5. gr. kemur fram: „Læknum, tannlæknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum sem búa yfir haldbærri þekkingu og reynslu er heimilt að veita meðferðir samkvæmt reglugerð þessari, undir eftirliti og á ábyrgð þeirra sem hafa heimild skv. 1. og 2. mgr.“. Illgerlegt er að átta sig á því hvað það nákvæmlega þýðir að upptaldir aðilar geti veitt meðferðir „undir eftirliti“ og enn fremur hvað flokka má sem „haldbæra þekkingu“.
Ljóst er að þessi starfsgrein hefur lifað góðu lífi í áratugi þrátt fyrir þær hasarfréttir sem nýlega hafa birst í fjölmiðlum af „Villta vestri fylliefnaheimsins“ og fullyrðingar um að ísprautun fylliefna sé „ífarandi inngrip“. Fylliefni hafa verið notuð í yfir 40 ár, þó vinsældir þeirra hafi vissulega aukist á síðustu árum en tölfræðilegar upplýsingar um tilkynningar á alvarlegum atvikum þeim tengdum virðast ekki aðgengilegar almenningi. Í bandaríska (ritrýnda) tímaritinu Journal of Drugs in Dermatology, sem birtist í janúar 2020, má finna fræðilega samantekt þar er sérstaklega fjallað um fylliefni, notendur þeirra og áhrif en í þeirri grein er ítrekað talað um að notkun þeirra sé takmarkað inngrip (e. minimally invasive).
Húðflúrarar og þeir sem framkvæma húðgötun, nálarstungur, fegrunarflúr og hvers konar húðrof starfa eftir reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 og er markmið þess að stuðla að framkvæmd hollustuverndar og samræma heilbrigðiseftirlit. Mikilvægt er að skilgreina hvernig sú starfsemi er ólík meðferð fylliefna og hvað er því til fyrirstöðu að starfsemin sé flokkuð á sama hátt en hvorugt má telja sem mikið eða alvarlegt inngrip.
Enn fremur mætti telja það ámælisvert að ekki sé fjallað sértaklega um afleiðingar þess að færa starfsemina algjörlega undir hatt heilbrigðiskerfisins. Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt (nr. 50/1998) kemur fram að öll eiginleg heilbrigðisþjónusta sé undanskilin virðisaukaskatt en í dag greiða meðferðaraðilar virðisaukaskatt, lögum samkvæmt. Í ljósi umfangs aukningar starfseminnar má ætla að talsverð skerðing verði þar á tekjum ríkissjóðs.
Æskilegt er að regluverk sé sniðið þannig að það verndi bæði neytendur og meðferðaraðila en með því að skerða atvinnufrelsi þeirra sem hafa jafnvel margra ára reynslu í faginu, sótt öll þau námskeið sem í boði eru tengd meðferð efnanna og sankað að sér yfirgripsmikilli þekkingu í samstarfi við lækna og annað fagfólk er verið að grafa undan greininni.
Með regluverki eins og því sem hér er kynnt eykst hættan á því að starfsemin færist undan regluverki stjórnvalda yfir í svarta hagkerfið með tilheyrandi afleiðingum. Regluverkið er vissulega nauðsynlegt og eru bæði neytendur og meðferðaraðilar sammála um það en ljóst er, af þessum drögum að dæma, að nægileg þekking er ekki til staðar. Áríðandi er að stofna til samtals og samráðs við þá aðila sem í greininni starfa, óháð því hvert stig menntunar þeirra er í heilbrigðisvísindum. Menntun er menntun – óháð því hvort útskriftarskjalið sé stúdentspróf, bakkalár gráða eða diplóma – og er mikilvægt að horfa á fleiri áhrifaþætti en þá sem eru skilgreindir í opinberri námsskrá.