Sviðið er flokksþing spænska sósíalistaflokksins í Madrid 1991. Þar er í heimsókn sendinefnd frá Íslandi. Hún ætlar að ná sambandi við áhrifamenn í flokknum til að liðka til fyrir niðurstöðu í samningum um Evrópska efnahagssvæðið.
Í ræðustól er Felipe Gonzalez. Í miðri ræðunni sviptir hann sér úr jakkanum og hengir hann á stólbak. Hann hefur óskipta athygli allra í salnum og þótt ég skilji ekki orð, er látbragðið eitt nóg til að láta sannfærast. Leiftrandi mælska. Carisma á spænsku og karisma á íslensku.
Þegar þarna var komið sögu hafði náðargáfa Felipe, eins og hann var venjulega kallaður, með góðri skvettu af evrópskri jafnaðarstefnu, tryggt honum forsætisráðherrastólinn á Spáni í áratug. Hann var á seinni hluta þriðja kjörtímabils síns og hafði alltaf haft á bak við sig meirihluta þingmannanna 350 í neðri deild þingsins. Næstu kosningar yrðu 1993, og á þessu flokksþingi var hann að stappa stálinu í fólkið sitt. Flokkurinn var undir álagi.
Óveðursský á himni
Úrslitin í kosningunum 1993 ollu síðan spænskum krötum vonbrigðum. Þeir náðu einungis 159 sætum, en hefðu þurft 176 til að ná meirihluta. Nú voru góð ráð dýr.
Felipe gerði þá samkomulag við flokk katalónskra þjóðernissinna, sem var undir forystu Jordi Pojul, forseta héraðsstjórnar Katalóníu, en aðsetur hennar er í Barcelóna.
Jordi Pojul, sem lofaði stuðningi sínum, var enginn nýgræðingur í pólitísku braski. Hann hafði gegnt katalónska forsetaembættinu frá 1980.
Ekki aðhylltist hann fullan aðskilnað Katalóníu frá spánska ríkinu, heldur samveldi þar sem héraðið nyti aukinnar viðurkenningar og sjálfstjórnar.
Hann var ötull baráttumaður fyrir Katalóna, nýtti vel pólitíska sérstöðu þeirra og var duglegur að greiða götu fyrirtækja sem vildu hreiðra þar um sig.
„Það er víða flókið að eiga peninga og flókið að eiga peninga víða“
Bæjarslúðrið sagði að stundum færi króna og króna í hans eigin vasa. Raunar upplýstist mörgum árum síðar að fjölskylda hans átti bankareikninga í laumi úti um allan heim. Það er víða flókið að eiga peninga og flókið að eiga peninga víða.
Forsetinn var menntaður læknir og hafði fundið upp vinsælt sótthreinsunarkrem, Neobacitrin.
Það var fyrirsjáanlegt að Felipe kæmi vel að hafa nálægt sér mann sem kynni að bera smyrsl á sárin.
Hneykslismál, tengd Sósíalistaflokknum og forvígismönnum hans, höfðu nefnilega kraumað í spænsku pressunni og og urðu háværari eftir kosningarnar 1993.
Ásakanirnar snérust um alvarlega hluti, m.a. fjármálamisferli seðlabankastjóra og spillingu innan öryggislögreglunnar.
Felipe lá undir mikilli ágjöf á þingi og í fjölmiðlum, en Jordi Pojul stóð við bakið á honum.
Felipe. Tölum saman
Um það leyti sem árásirnar á Felipe voru sem harðastar, sótti ég ráðstefnu í Barcelóna um norræna velferðarkerfið. Hún var haldin í samvinnu Norrænu ráðherranefndarinnar og héraðsstjórnar Katalóníu.
Í forföllum formanns norrænu sendinefndarinnar kom það í minn hlut að mæta að morgni fundardagsins í kurteisisheimsókn á skrifstofu Jordis Pujol, en við áttum tveir að flytja framsöguerindi.
Starfsmenn hans tóku vel á móti mér, en það lá svo mikil spenna í loftinu á forsetaskrifstofunum að ekki hefði komið á óvart þótt brunavarnakerfið færi í gang.
Við vorum nýsestir til að fara yfir dagskrána þegar aðstoðarmaður kom hlaupandi inn, benti á símann á skrifborði forsetans og stundi upp: „Madrid.“
Jordi Pujol gekk hægum skrefum yfir að borðinu, tók upp tólið og samtal hófst á spænsku. Eftir stundarkorn hækkaði hann röddina, leit kankvís yfir herbergið til mín og sagði stundarhátt á ensku.
„Felipe. Það er hjá mér maður frá Íslandi. Honum líst ekkert á þetta. Þú veist hvað þeir taka svona hluti alvarlega á Norðurlöndum. Tölum saman.“
Svo lagði hann á, tók eintak af Financial Times upp af skrifborðinu sínu og kom með það yfir til mín.
Á forsíðunni stóð að stjórnarkreppa væri á Spáni og Jordi Pujol hefði líf Felipe Gonzalez í hendi sér vegna spillingarmála.
Nokkru seinna, í september 1995, bárust þær fréttir að Jordi Pujol hefði dregið til baka stuðning sinn við ríkisstjórnina. Skjólið, sem hann veitti Felipe, hafði gert hann sjálfan berskjaldaðan fyrir ásökunum um að halda lífinu í spilltum valdhöfum í Madrid. Fylgi flokksins hans hafði minnkað.
Felipe Gonzales neyddist til að boða til kosninga, sem fram fóru í maí 1996, rúmu ári áður en kjörtímabilinu hefði átt að ljúka.
Felipe gat ekki myndað stjórn og hætti í pólitík árið eftir.
Endurtekur sagan sig?
Í kjölfar þingkosninga í sumar er ástandið á Spáni aftur þannig að forsætisráðherra úr Sósíalistaflokknum, Pedro Sánchez, þarf nauðsynlega á hjálp Katalóníumanna að halda.
Hann hefur samið við leiðtoga aðskilnaðarsinnanna um stuðning til að tryggja sér meirihluta á þinginu. Vandinn er að höfuðpaurinn, Carles Puigdemont, er í útlegð í Belgíu.
Hann var, eins og Jordi Pujol, forseti héraðsstjórnarinnar í Katalóníu, en miklu herskárri. Á eins árs valdaferli sínum, 2016-17, tókst honum að efna til atkvæðagreiðslu í héraðinu um sjálfstæði, hefja undirbúning að því og lýsa því síðan yfir. Allt var þetta í andstöðu við ríkisstjórn Spánar, sem leysti hann frá embætti.
Puigdemont flúði land og hefur dvalist í Brussel, þrátt fyrir kröfur um framsal. Þaðan tókst honum þó að ná kjöri á Evrópuþingið 2019 með stuðningi flokka og hreyfinga í Katalóníu.
En stuðningur Katalóna er aldrei ókeypis. Og eins og fyrirrennari hans í embætti, selur Puidgemont sig dýrt. Prísinn er sakaruppgjöf, ekki aðeins fyrir hann sjálfan heldur fleiri hundruð manns, sem á ýmsan hátt komu að sjálfstæðislýsingunni á sínum tíma og sættu ákærum fyrir m.a aðild að henni og misnotkun opinbers fjár.
Áformunum hefur verið mótmælt innan þings og utan. Óeirðir hafa orðið víða á Spáni, en Pedro Sanches lætur sverfa til stáls. Flest bendir til að honum takist að tryggja sér meirihluta.
En spurningin er hvort Carles Puidgemont bregst honum á úrslitastundu eins og Jordi Pojul brást samflokksmanni hans forðum, Felipe Gonzalez.
Höfundur er fyrrverandi alþingismaður og skrifstofustjóri félags- og heilbrigðismála hjá Norrænu ráðherranefndinni.
Athugasemdir