Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Forseti ASÍ segir ríkisstjórnina firrta –„Þetta fólk deilir ekki lengur kjörum með almenningi í landinu“

Finn­björn A. Her­manns­son sagði í ræðu á föstu­dag að ekki yrði hjá því kom­ist að verka­lýðs­hreyf­ing­in fjalli um spill­ing­una sem tröll­ríði stjórn­mál­um og fjár­mála­lífi hér á landi. Skyld­ur stjórn­mála­manna séu gagn­vart öðr­um en al­menn­ingi í land­inu. Framund­an væri risa­vax­ið verk­efni í bar­áttu við verð­bólgu, hús­næð­is­vanda, ójöfn­uð og fúna inn­viði. Sam­stöðu þurfi til að tak­ast á við það verk­efni.

Forseti ASÍ segir ríkisstjórnina firrta –„Þetta fólk deilir ekki lengur kjörum með almenningi í landinu“
Forseti ASÍ Í ræðu sinni á föstudag sagði Finnbjörn A. Hermannsson að samfélag okkar væri „í verulegum vanda statt og ráðamenn kunna þá lausn eina að auka álögur á almenning.“ Mynd: ASÍ

„Við getum auðvitað velt því fyrir okkur hvort það stjórnmálafólk sem nú er við völd í landinu skorti ábyrgðartilfinningu. Við vitum að skeytingarleysið um hag launafólks er algjört. En eru þau ábyrgðarlaus. Ég tel svo ekki vera. Þau hafa bara skyldum að gegna gagnvart öðrum en almenningi í landinu, sem skýrist af aðgerðum á kjörtímabilinu.“ Þetta sagði Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) í ræðu sinni á formannafundi sambandsins sem fram fór á föstudag. 

Finnbjörn sagði að skýringarnar fyrir því ástandi sem ríkir á Íslandi í dag – þar sem há verðbólga, dýrtíð og síhækkandi vextir leika mörg heimili landsins illa – væru sennilega margar. „En ég hef að undanförnu staldrað við þá firringu sem einkennir íslensku stjórnmálastéttina og núverandi ríkisstjórn sérstaklega. Ég tel skýringuna vera þá að þetta fólk deilir ekki lengur kjörum með almenningi í landinu. Við getum nefnt skattlausan starfskostnað, ofurréttindi í lífeyrismálum, frí umtalsverðan hluta ársins og nú síðast ferðahvetjandi frípunktakerfi. Ég tel þetta til marks um spillingu í íslenskum stjórnmálum; ráðin eru samantekin og almenningur borgar.“

„Þarna talar valdamaður, sem nýtur sérkjara í öllum efnum, til launafólks.“

Í ræðunni ræddi Finnbjörn mikið um ábyrgð, og hvar hún lægi. Hann sagði að fyrr eða síðar yrði ekki komist hjá því að verkalýðshreyfingin fjalli um spillinguna sem tröllríði stjórnmálum og fjármálalífi hér á landi. „Þetta er fólkið sem nú krefur verkalýðshreyfinguna um að ganga fram af „ábyrgð“ því ella fari atvinnu- og efnahagslífið hér á hliðina með tilheyrandi hörmungum. Svigrúmið margfræga er nefnilega ekki neitt – eitt fyrsta verk nýja fjármálaráðherrans var að láta þau boð út ganga að nú væri alls ekkert svigrúm til að hækka launin. Þarna talar valdamaður, sem nýtur sérkjara í öllum efnum, til launafólks.“

Þessum málflutningi fjármálaráðherra vísaði Finnbjörn á bug og sagði launafólk ekki bera ábyrgð á verðbólgunni, húsnæðisvandanum, einokuninni, vaxtaokrinu, verðsamráðinu, þjónustuskortinum og stöðugum hækkunum á nauðsynjavörum. „Þaðan af síður er það ábyrgt fyrir þeirri skefjalausu misskiptingu auðsins sem við horfum upp á og lýsir sér í allsnægtum útvaldra og eignaleysi hinna mörgu. Þannig birtist okkur „stöðugleikinn“ margfrægi. Eftir sex ár af „stöðugleika“ er landsmönnum öllum orðið ljóst hvað hann þýðir; í honum felast verkleysi, kyrrstaða, óbreytt ástand, innihaldslausar glærusýningar, límseta á valdastólum, valdanna vegna.“

Ófremdarástand blasi við

Hann fór svo yfir stöðuna, og þróun síðustu missera, eins og hún horfir við honum. Húsnæðislánakerfi og -uppbygging væru algjörlega í molum og lágvaxtastefnan sem Seðlabankinn bæði boðaði og innleiddi hefði beðið algjört skipbrot. Þeir sem ábyrgðina bera á því hvetji nú skuldum hlaðið fólk að færa sig yfir í verðtryggð lán. „Fólk er flutt nauðungarflutningum yfir í Íslandslánin alræmdu og í skuldafangelsi og eignaleysi. Svona framkoma þekkist hvergi í siðmenntuðum samfélögum.“

Finnbjörn var ekki mjúkmæltari þegar kom að því að ræða um fjármálakerfið. Hann sagði það ekki þjóna almenningi og að það hafi komið skýrt fram í nýlegri skýrslu starfshóps um gjaldtöku og arðsemi bankanna. „Samkeppni á þessu sviði er í raun engin og hagnaðurinn ofboðslegur. Stjórnvöld boða óbreytt ástand, kyrrstöðu „stöðugleikans“. Þetta kerfi er með öllu óboðlegt og því þarf að breyta.“ Um þá skýrslu má lesa hér. 

Þá væru grunnkerfi á borð við heilbrigðiskerfið í molum og þrátt fyrir ítök Framsóknarflokksins í ríkisstjórninni hefðu meira að segja ungir bændur fengið að finna fyrir sinnuleysinu. 

Samandregið blasi ófremdarástand við öllum þeim sem séu ekki eru í djúpri afneitun og meðvirkni nú þegar viðræður um nýja kjarasamninga eru að fara að hefjast fyrir alvöru. „Samfélag okkar er í verulegum vanda statt og ráðamenn kunna þá lausn eina að auka álögur á almenning.“

„Græðgin og ósvífnin hurfu ekki í hruninu“

Forseti ASÍ fullyrti að pólitíkin myndi ekki snúa þessari þróun við. Það væri á ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar að gera það og sú ábyrgð væri „allt annars eðlis en fjármagnsöflin halda á lofti í fjölmiðlum sínum og gagnvart íslenskum almenningi.“

„bregðist verkalýðshreyfingin nú munu sérhagsmuna- og fjármagnsöflin herða sóknina og vaða yfir þetta þjóðfélag.“

Verkalýðshreyfingin væri sterkasta afl framfara, mannréttinda og breytinga á Íslandi. „Við getum ekki yppt öxlum og leitt hjá okkur samfélagsbreytingar sem augljóslega eru fjöldanum og framtíðinni ekki til góðs. Sem framfaraafl og mannréttindahreyfing þurfum við að axla þá ábyrgð saman sem þessu hlutverki fylgir. Það krefst félagslegs þroska og það krefst aga.“

Hreyfingin verði að vera tilbúin til að greina stóru myndina og skilgreina verkefnin. „Við verðum að vera tilbúin til að beisla kraftinn sem felst í samstöðu okkar og knýja fram bætt kjör alls launafólks að sjálfsögðu en einnig samfélagslegar umbætur í þágu jöfnuðar og mannlegrar reisnar. Enginn annar mun gera þetta fyrir okkur; bregðist verkalýðshreyfingin nú munu sérhagsmuna- og fjármagnsöflin herða sóknina og vaða yfir þetta þjóðfélag án minnstu virðingar fyrir réttindum og hagsmunum launafólks. Græðgin og ósvífnin hurfu ekki í hruninu, öðru nær.“

Persónulegar erjur að baki

Mikil átök hafa geisað innan verkalýðshreyfingarinnar undanfarið. Deilur hafa verið á milli formanna, sérstaklega Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, og Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfsgreinasambandsins. Deilurnar hafa líka ratað inn í ASÍ og birtust meðal annars í mikilli gagnrýni Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR stærsta stéttarfélags landsins, á forystu sambandsins. Deilurnar urðu til þess að fyrrverandi formaður sambandsins, Drífa Snædal, sagði af sér í fyrra þar sem átökin innan sambandsins væru orðið „óbærileg“. 

Finnbjörn tók við embætti forseta ASÍ í apríl á þessu ári. Hann sagðist í ræðunni hafa gert það í fullvissu þess að verkalýðshreyfingin ætlaði að snúa bökum saman og að persónulegar erjur væru að baki. „Ég veit að við náum engu fram í þeim stóru verkefnum sem við okkur blasa ef við ætlum að viðhalda klofningi og ágreiningi. Ef það er einlægur ásetningur okkar að nýta ekki styrkinn sem felst í fjöldanum og samstöðunni fullyrði ég að sérhagsmunaverðirnir og fjármagnsöflin munu ekki hika við að færa sér í nyt svo augljós veikleikamerki.“

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins stefni beinlínis að því að rústa tilverugrundvelli stéttarfélaga og hreyfingarinnar, að sögn Finnbjörns, og vísar hann þar til frumvarps sem lagt hefur verið fram nokkrum sinnum af þeim sem hefur það markmið að afnema skylduaðild að verkalýðsfélögum. Hann benti líka á að vinnumarkaðslíkanið sæti stöðugum árásum og að „andstæðingar“ verkalýðshreyfingarinnar ætli sér að auka völd ríkissáttasemjara og þar með veikja þau vopn sem hún ráði yfir í kjarabaráttunni. „Þetta er veruleikinn. Ef ekki er ástæða nú til að slíðra sverðin og þétta raðirnar fæ ég ekki séð við hvaða aðstæður það er yfirhöfuð nauðsynlegt. Bresti samstaða okkar getur mjög illa farið og gerist það höfum við ekki staðið undir ábyrgð okkar.“

Risavaxið verkefni framundan

Undir lok ræðu sinnar ræddi Finnbjörn um nauðsynlega samstöðu á mismunandi grundvelli. Hann fór yfir að á fundi formanna landssambanda og stærstu aðildarfélaga ASÍ í liðinni viku hafi náðst samstaða um að ASÍ félögin standi saman að viðræðum við viðsemjendur innan Samtaka atvinnulífsins og við fulltrúa ríkisvaldsins um sameiginleg mál.

Hann rifjaði svo upp aðdraganda þjóðarsáttarsamninganna sem undirritaðir voru í febrúarmánuði 1990 og orð Guðmundar J. Guðmundssonar – oftast kallaður „Jaki“ og þáverandi formaður Verkamannasambandsins – að þótt slíkir sáttarsamningar um að kveða verðbólgu í kútinn væru ekki með öllu áhættulausir hefði það verið „heljarstökk inn í náttmyrkrið að fara gömlu verðbólguleiðina.“ Ekkert færi verr með þá lægstlaunuðu en verðbólgan.

Finnbjörn sagist telja að orð Jakans eigi vel við í dag. „Árangur í glímunni við verðbólguna er forsenda þess að unnt sé að auka kaupmáttinn. Við vitum öll að launahækkanir verða fljótt að engu á verðbólgutímum. Raunverulegum kjarabótum í þágu þeirra sem lægstu launin hafa náum við ekki fram í stjórnlausu efnahagsumhverfi.“

Framundan væri risavaxið verkefni. „Ég legg áherslu á að verkalýðshreyfingin mun ein og sér ekki leiða baráttuna gegn verðbólgunni; forsenda árangurs í því verkefni er samstarf hreyfingarinnar, atvinnurekenda, banka, verslunar, sveitarfélaga og ríkisvaldsins. Og fleiri verða kallaðir til. Það krefst heiðarleika, trausts og sameiginlegrar sýnar allra á verkefnið. Takist ekki að stilla saman þessa strengi tel ég allar líkur á að við náum ekki viðunandi árangri. Þessi leið er því ekki áhættulaus frekar en þjóðarsáttin 1990 en við vitum öll að gamla verðbólguleiðin, eins og Guðmundur J. nefndi hana, er í raun enginn valkostur. Því þurfum við að tryggja okkur í bak og fyrir því það er alveg víst að við munum ekki ein bera ábyrgðina á komandi kjarasamningum.“

Hægt er að lesa ræðu Finnbjörns í heild sinni hér.

Kjósa
53
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Jón Ragnarsson skrifaði
    Hugsun Sjálfstæðisflokksins er að ráðast á réttindi íslensks verkafólks. Munið það í næstu kosningum.
    5
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

„Ég var bara glæpamaður“
1
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég var bara glæpamaður“
2
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Þakklátur fyrir að vera á lífi
3
Viðtal

Þakk­lát­ur fyr­ir að vera á lífi

Þor­lák­ur Mort­hens, Tolli, hef­ur marga fjör­una sop­ið í lífs­ins ólgu­sjó. Æsku­ár­in höfðu sín áhrif en þá byrj­aði hann að teikna og var ljóst að dreng­ur­inn væri gædd­ur hæfi­leik­um. Óregla og veik­indi lit­uðu fjöl­skyldu­líf­ið og á unglings­ár­un­um sá hann um sig sjálf­ur. Um ára­bil var hann sjómað­ur, verka­mað­ur og skóg­ar­höggs­mað­ur. Eft­ir mynd­list­ar­nám hef­ur hann lif­að af mynd­list­inni. Nú er Tolli far­inn að mála í ljós­ari tón­um. Hann gaf nýra, greind­ist síð­an með krabba­mein og sigr­aði.
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
4
Það sem ég hef lært

Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir

Mér renn­ur blóð­ið til skyld­unn­ar

Guð­laug Svala Stein­unn­ar Kristjáns­dótt­ir seg­ir að stærsta lexía lífs síns sé lík­lega að upp­götva um miðj­an ald­ur að hún er ein­hverf. Hún hafi átt­að sig á sjálfri sér með hjálp ann­ars ein­hverfs fólks sem þá hafði þeg­ar oln­bog­að sig áfram í heimi ráð­andi tauga­gerð­ar, misst lík­am­lega, and­lega, fé­lags­lega og starfstengda heilsu áð­ur en það átt­aði sig á sjálfu sér.
Icelandair sýknað af kröfu Margrétar – Stærsti hluti bótakröfu vegna Netflix
5
Fréttir

Icelanda­ir sýkn­að af kröfu Mar­grét­ar – Stærsti hluti bóta­kröfu vegna Net­flix

Mar­grét Frið­riks­dótt­ir krafð­ist yf­ir 24 millj­óna króna í bæt­ur eft­ir að henni var vís­að brott úr vél Icelanda­ir ár­ið 2022. Hún hafði þá neit­að að taska sem hún hafði með­ferð­is yrði færð í far­þega­rými og neit­að að setja upp grímu vegna sótt­varna. Stærsti hluti af bóta­kröf­unn­ar var vegna heim­ilda­mynd­ar sem Mar­grét hugð­ist gera og selja Net­flix.

Mest lesið í mánuðinum

„Ég var bara glæpamaður“
4
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Íslendingar vísa trans konu á flótta frá Bandaríkjunum úr landi
6
Fréttir

Ís­lend­ing­ar vísa trans konu á flótta frá Banda­ríkj­un­um úr landi

Kona sem er á flótta frá Banda­ríkj­un­um með son sinn sótti um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi. Fyr­ir Út­lend­inga­stofn­un lýsti hún því hvernig hat­ur hafi far­ið vax­andi þar í landi gagn­vart kon­um eins og henni – trans kon­um – sam­hliða að­gerð­um stjórn­valda gegn trans fólki. Sjálf hafi hún orð­ið fyr­ir að­kasti og ógn­un­um. „Með hverj­um deg­in­um varð þetta verra og óhugn­an­lega.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár