Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá því í sumar um að veita Umhverfisstofnun framkvæmdaleyfi vegna palls og skýlis við náttúrulaugina í Landmannalaugum. Í niðurstöðu nefndarinnar segir að 25 fermetra laugarpallur með skyggni teljist til mannvirkis og því hefði átt að afgreiða umsókn Umhverfisstofnunar í samræmi við mannvirkjalög en ekki skipulagslög. Það hafi því verið í verkahring byggingarfulltrúa að taka umsóknina til meðferðar og afgreiðslu. Sveitarstjórnin gaf hins vegar út framkvæmdaleyfi eftir ákvæðum skipulagslaga.
„Með hliðsjón af því sem að framan er rakið var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar ekki lögum samkvæmt og ber af þeim sökum að fella hana úr gildi,“ segir úrskurðarnefndin í niðurstöðu sinni.
Skýli eða skyggni?
Deilur um þessa tilteknu framkvæmd urðu miklar í sumar er pallurinn og baðaðstaða, sem sumir kalla skýli með snögum en aðrir búningsaðstöðu, blöstu við gestum Landmannalauga sem eru innan Friðlandsins að Fjallabaki.
Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið kærðu ákvörðun Rangárþings ytra að veita Umhverfisstofnun framkvæmdaleyfi og kröfðust þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi sem nú hefur verið gert.
Umhverfisstofnun sótti um byggingarleyfi til sveitarfélagsins sumarið 2021 og um haustið afgreiddi sveitarstjórn hana sem í formi framkvæmdaleyfis samkvæmt skipulagslögum. Hins vegar töfðust framkvæmdir, leyfið rann út og Umhverfisstofnun sótti ekki um það að nýju fyrr en í lok apríl á þessu ári. Aftur fór málið í sama farveg og sveitarstjórn veitti framkvæmdaleyfi um miðjan júní.
Mannvirki mega ekki spilla svip landsins
Í kröfu Náttúrugriða er á það bent að framkvæmdin hafi fallið undir ákvæði mannvirkjalaga en ekki skipulagslaga. Um „valdþurrð“ sé því að ræða hjá sveitarstjórninni. Sögðu samtökin jafnframt í kæru sinni að framkvæmdin væri ekki í samræmi við friðlýsingarskilmala Friðlands að Fjallabaki frá árinu 1979 þar sem segi að ekki megi gera „mannvirki, sem spilla svip landsins“. Friðlýsingin hafi verið gerð til að vernda sérstakt landslag en ekki til að veita almenningi aðgang.
Rangárþing ytra segir í vörn sinni að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi „velt fyrir sér“ heimild til framkvæmda vegna yfirstandandi vinnu við mat á umhverfisáhrifum miklu víðtækari framkvæmda sem áformaðar eru í Landmannalaugum. Því hafi verið óskað eftir afstöðu Skipulagsstofnunar og í svari hennar voru ekki gerðar athugasemdir við „nauðsynlegar endurbætur“, væru þær í samræmi við gildandi deiliskipulag.
Einnig hafi verið leitað til forsætisráðuneytisins sem ekki hafi gert athugasemd við hina fyrirhuguðu framkvæmd. Skipulagsnefnd Rangárþings ytra hafi svo lagt til að framkvæmdaleyfi yrði gefið út þar sem áformin hafi ekki verið talin líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum. Aftur hafi verið leitað til Skipulagsstofnunar, um hvort auglýsa þyrfti ákvörðun um að veita Umhverfisstofnun framkvæmdaleyfi sérstaklega og var svar hennar á þann veg að þess þyrfti ekki.
Ekki búningaðstaða
Rök Umhverfisstofnunar eru m.a. þau að ekki sé um að ræða „búningsaðstöðupall“ líkt og Náttúrugrið orði það í kæru sinni, um sé að ræða „laugarpall“ við náttúrulaugina, þar sem gestir geti hengt upp handklæði sín undir skyggni.
Stofnunin hafnar því ennfremur að byggingin sé ekki í samræmi við friðlýsingarskilmála svæðisins. Ekki sé verið að spilla svip landsins heldur einungis að bæta aðstöðu og aðgengi. Endurnýjun pallsins hafi m.a. verið tilkomin vegna álags á gróður í kringum hann.
Úrskurðarnefndin fer yfir öll þessi sjónarmið í niðurstöðu sinni en að lokum eru það mannvirkjalögin sem hún styður ákvörðun sína um að fella ákvörðun sveitarstjórnar um veitingu framkvæmdaleyfis úr gildi.
Athugasemdir (2)