„Nei, aldrei,“ svarar Hörður Gunnarsson, formaður Knattspyrnufélagsins Vals, spurður hvort að inn á hans borð, stjórnar eða annarra innan félagsins hafi borist ábendingar eða orðrómur um að séra Friðrik Friðriksson hafi níðst á drengjum. Hörður hefur setið í stjórnum Vals í fjóra áratugi og segir engin slík mál tengd séra Friðrik nokkru sinni hafa komið upp.
Séra Friðrik kom óbeint að stofnun Vals. Árið 1911 var haldinn fundur í lesstofu KFUM, samtaka sem Friðrik hafði stofnað rúmum áratug fyrr, þar sem sex piltar er höfðu notið leiðsagnar hans, stofnuðu Fótboltafélag KFUM. Nafni félagsins var breytt í Val síðar þetta sama ár. Á árunum eftir seinna stríð rofnuðu smám saman þau tengsl sem verið höfðu á milli KFUM og Vals „en enn þann dag í dag,“ líkt og segir á heimasíðu Vals, „eru Valsmenn minnugir uppruna félagsins og minnast með virðingu og hlýju tengsla sinna við KFUM og séra Friðrik Friðriksson“.
Brjóstmynd af séra Friðriki var reist að Hlíðarenda árið 1961, sama ár og hann lést. Friðrikskapella að Hlíðarenda var vígð árið 1993 þegar 125 ár voru liðin frá fæðingu hans.
Það var aldarfjórðungi síðar, í tengslum við hátíðarhöld i tengslum við 150 ára afmælis séra Friðriks, sem karlmaður, þá kominn á efri ár, leitaði til Stígamóta vegna áreitni sem hann varð fyrir af hendi Friðriks er hann var barn. Atvikið sat þá enn í sálu hans, líkt og hann lýsir í nýútkominni bók Guðmundar Magnússonar sagnfræðings um ævi og störf séra Friðriks. Að segja frá reynslu sinni, fylgdi ákveðinn léttir, hefur Guðmundur eftir manninum í bókinni.
Hann lýsir atvikinu með þeim hætti að eftir fund hjá KFUM á sunnudegi hafi flokksforingi leitt hann inn á stofu séra Friðriks sem var á efri hæð hússins við Amtmannsstíg. Þar var hann skilinn eftir. Hann segist muna vel hvernig Friðrik fagnaði honum, segir hann hafa seilst til sín, káfað á sér og m.a. þreifað á kynfærunum. Svo hafi hann verið sóttur aftur og yfirgefið stofuna ringlaður.
Í viðtali í bókmenntaþættinum Kiljunni í síðustu viku sagði Guðmundur m.a. frá þessu. Í kjölfarið sögðu margir frá því, aðallega á samfélagsmiðlum en einnig í fjölmiðlum, að háttalag séra Friðriks gagnvart ungum drengjum hefði verið altalað. Drífa Snædal, talskona Stígamóta, greindi frá því í Kastljósi að fleiri en einn karlmaður hafi í gegnum árin leitað til samtakanna vegna samskipta sinna við Friðrik og sagði hún áreitni hans hafa verið „verst geymda leyndarmál Íslandssögunnar“.
En við það kannast hvorki Hörður né Tómas Ingi Torfason, framkvæmdastjóri KFUM og KFUK. Hvorugur þeirra segist hafa heyrt nokkuð um meint ofbeldi séra Friðriks í gegnum árin.
Hörður segir við Heimildina að hann hafi tekið eftir því að nú haldi fólk því að sögur af hegðun Friðriks hafa verið altalaðar. „En ég heyri líka frá þeim sem standa mér nær, mönnum sem hafa verið með mér í stjórn [Vals], að þeir hafi aldrei heyrt þetta.“
Engar ábendingar hafa borist stjórninni eftir að mál séra Friðriks komust í hámæli í síðustu viku.
Þótt Friðrik hafi ekki haft bein eða náin tengsl inn í starf Vals á meðan hann lifði er „saga hans og okkar náttúrlega samofin,“ segir Hörður. Vegna þessa gaf stjórn Vals út yfirlýsingu í síðustu viku. „Það er erfitt að lesa frásögn sem lýsir hegðun sem er andstæð öllu því sem að Knattspyrnufélagið Valur stendur fyrir,“ sagði þar m.a. „Hugur félagsins er hjá viðkomandi.“
Spurður hvort að stjórnin ætli að bregðast eitthvað frekar við málinu segir Hörður að málið sé „engan veginn búið“ og að Valur sé „opinn fyrir að skoða þetta mál áfram“. Siðanefnd félagsins muni m.a. fjalla um það. „Svo munum við náttúrlega fylgjast vel með hvernig brugðist verður við á öðrum sviðum og hvað kemur fram við þá skoðun.“
Athugasemdir