Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

„Ætli það hafi minnkað álag á börnin að handtaka móður þeirra?“

Dóms­mála­ráð­herra ræddi við barna­mála­ráð­herra um til­raun lög­reglu til að flytja þrjá ís­lenska drengi til föð­ur síns í Nor­egi í gær­kvöld. Móð­ir drengj­anna var hand­tek­in en sleppt skömmu síð­ar og að­gerð­inni frest­að. Þing­mað­ur Pírata spyr hvort stjórn­völd ráði við með­ferð að­fara­gerða.

„Ætli það hafi minnkað álag á börnin að handtaka móður þeirra?“
Aðfarargerð Edda Björk Arnardóttir var handtekin í gærkvöldi þegar flytja átti þrjá syni hennar úr landi til föður þeirra í Noregi. Lögreglumenn voru einkennisklddir, þvert á það sem kveður á um í barnalögum. Aðgerðinni var frestað og dómsmálaráðherra ætlar að fara yfir verkferla.

„Í gær horfðu þrír ungir drengir, 10 og 12 ára, upp á móður sína handtekna, lögreglubíla og mótorhjól mæta, með sírenur og fjölda lögreglumanna í fullum klæðum til þess að fjarlægja þá af heimili sínu, færa þá úr landi og í hendur föður síns af hans kröfu en gegn þeirra vilja.“

Þannig hóf Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, fyrirspurn sína til Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Drengirnir eru synir Eddu Bjarkar Arnardóttur. Í mars í fyrra sótti hún þá með einkaflugvél til Noregs og flutti til Íslands, þvert á úrskurð norskra yfirvalda sem dæmt hafði föður þeirra fullt forræði yfir drengjunum, en faðirinn býr í Noregi. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að faðirinn fer með forsjá drengjanna. 

„Hætt var við aðgerðina þar sem börnin vildu ekki fara. En var þetta í fyrsta skipti sem börnin voru spurð? Aldeilis ekki. Lögmaður móðurinnar hefur ítrekað bent á matsgerð dómkvadds sálfræðings þar sem kemur fram eindreginn vilji drengjanna til að vilja vera á Íslandi hjá móður sinni,“ sagði Arndís og vísaði í 45. grein barnalaga þar sem kemur fram að ef sá sem barn dvelst hjá neitar að afhenda það réttum forsjármanni getur héraðsdómari, að kröfu viðkomandi, ákveðið að lögheimili eða forsjá verði komið á með aðfaragerð. Í framhaldi vísaði hún í 43. grein laganna: „Gefa skal barni kost á að tjá sig um mál og taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.“   

Þingmaður PírataArndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir spurði dómsmálaráðherra út í aðfarargerð lögreglu og sýslumanns.

Í barnalögum kemur einnig fram að við aðfarargerð skulu lögreglumenn vera óeinkennisklæddir. „Framkvæmd aðfarar skal hagað þannig að sem minnst álag verði fyrir barn og er sýslumanni heimilt að stöðva gerðina telji hann sérstaka hættu á að barn hljóti skaða af framhaldi hennar.“

„Ætli það hafi minnkað álag á börnin að handtaka móður þeirra?“ spurði Arndís Anna, áður en hún spurði dómsmálaráðherra hvort hún telji „nýleg dæmi um ofbeldisfullar aðfaragerðir í þessum málum þar sem foreldrar barna eru handtekin fyrir framan þau, aðgerðir sem farið er í gegn vilja barnanna sem um ræðir og í trássi við lágmarksreglur um meðalhóf og aðrar reglur sem um þessi mál gilda, bera þess merki að stjórnvöld ráði við meðferð þessara heimilda?“

„Hvað hyggst hæstvirtur ráðherra gera til að þessu linni, til að tryggja að grundvallarreglum um réttindi barna til að tjá sig um málefni er þau varða sé fylgt, að skoðanir þeirra séu virtar í samræmi við aldur og þroska og að hagsmunir barna séu hafðir að leiðarljósi?“ spurði Arndís Anna. 

„Eins og þarna væri um sekasta fíkniefnabarón Íslands að ræða“

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagði það hafa tekið verulega á að sjá umfjöllun fjölmiðla um aðgerð lögreglu og sýslumanns í gærkvöldi. „Ég vil líka fá að segja að það bærðust auðvitað þær tilfinningar í brjósti mínu hvort — já, áhyggjur mínar af velferð barnanna í þessum aðstæðum sem þarna sköpuðust.“

Hún sagðist samt sem áður ekki þekkja málið og ekki hafa heimild til að tjá sig um einstök mál. 

DómsmálaráðherraGuðrún Hafsteinsdóttir hefur rætt við Ásmund Einar Daðason, barnamálarðaherra, um aðfarargerð lögreglu og sýslumanns.

Arndís Anna gaf lítið fyrir svör ráðherra og ítrekaði atburðarásina við heimili fjölskyldunni í gærkvöldi. „Þarna voru komnir þrír til fjórir lögreglubílar, tvö mótorhjól, allir lögreglumenn í fullum skrúða með sírenum og ljósum og öllu tilheyrandi; götum lokað og annað, eins og þarna væri um sekasta fíkniefnabarón Íslands að ræða.“ Því næst endurtók hún spurningu sína til ráðherra: „Hvað hyggst ráðherra gera til að koma skikki á þessi mál?“

Guðrún sagðist hafa rætt aðgerðina við Ásmund Einar Daðason, barnamálaráðherra. Hún segist taka því alvarlega að lögreglumenn voru ekki óeinkennisklæddir í aðgerðum gærkvöldsins. „Það kemur skýrt fram að lögreglumenn skuli vera óeinkennislæddir. Eftir því sem ráðherra sá í fjölmiðlum í gær að þá var það ekki raunin.“  

„Heldur betur ekki,“ skaut Arndís Anna inn í úr þingsal. „Ég tek því alvarlega,“ hélt ráðherra áfram og sagðist ætla að taka verkferla til skoðunar. „Það verður farið yfir málið.“ Það hyggst hún vinna í sameiningu við barnamálaráðherra. „Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi og hagsmuni barna á Íslandi.“

Kjósa
16
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Árni Guðnýar skrifaði
    Efast þingmaður Pírata um landslög,var þá ekki nægur timi til að vinna að þeim breitingum sem þingmaðurin hefur talið þurfa,en ekki standa núna fyrir upphlaupi og tilfininga klámi.
    -4
    • Kolbrún Arnardóttir skrifaði
      Þarna er bókstaflega verið að benda á að "ríkisvaldið" sýslumaður braut lög við framkvæmdina á þann hátt að það sé líklegt til að valda börnunum skaða.
      -1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Stefnuræða forsætisráðherra: „Hvar annars staðar en á Íslandi gæti þetta gerst?“
6
Fréttir

Stefnuræða for­sæt­is­ráð­herra: „Hvar ann­ars stað­ar en á Ís­landi gæti þetta gerst?“

Kristrún Frosta­dótt­ir jós sam­starfs­kon­ur sín­ar lofi í stefnuræðu for­sæt­is­ráð­herra og sagði að burt­séð frá póli­tísk­um skoð­un­um mætt­um við öll vera stolt af Ingu Sæ­land. Hún minnt­ist einnig Ólaf­ar Töru Harð­ar­dótt­ur sem var jarð­sung­in í dag og hét því að bæta rétt­ar­kerf­ið fyr­ir brota­þola of­beld­is.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Ásgeir greindist með banvænt krabbamein: „Ég ætla samt að halda partí“
1
Viðtal

Ás­geir greind­ist með ban­vænt krabba­mein: „Ég ætla samt að halda partí“

Ás­geir H. Ing­ólfs­son fékk ný­ver­ið dauða­dóm, eins og hann orð­ar það. Krabba­mein­ið sem hann greind­ist með er ekki tækt til með­ferð­ar. Ljóð­skáld­ið og blaða­mað­ur­inn býð­ur því til Lífs­kviðu; mann­fagn­að­ar og list­við­burð­ar á Götu sól­ar­inn­ar við Kjarna­skóg. Ás­geir frá­bið­ur sér orð­ið æðru­leysi í þessu sam­hengi, því auð­vit­að sé hann „al­veg hund­fúll.“
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
2
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár