Funahöfði 7 er bara einn af tugum steypuklumpa sem mynda atvinnusvæðið uppi á Höfða. Í kringum bygginguna eru dekkjaverkstæði, smurstöðvar, trésmíðaverkstæði, blikksmiðjur og bónstöðvar. Veggjakrotuð málningin löngu farin að flagna og fátt sem bendir til þess að þarna inni búi fólk. Enda á ekkert fólk að búa þarna. Hvað þá 30 einstaklingar sem var troðið þarna inn í aðstæður sem nærri ekkert okkar myndi sætta okkur við. Og nú er einn þeirra dáinn. Brann inni í iðnaðarhúsnæði sem átti aldrei að vera vistarverur fyrir mannfólk.
Einhvern veginn fór umræðan í fjölmiðlum strax að snúast um hvort slökkviliðið hafi metið að brunavarnir væru í lagi í þessu húsi; finna hinn bjúrókrasískasta lægsta samnefnara. Málsvörn eigenda húsnæðisins komin á fullt áður en slokknað er í síðustu glóðinni. Eigendur hússins eru helstu eigendur starfsmannaleigunnar Elju og hafa langa sögu af því að moka erlendu vinnuafli inn í fullkomlega óviðunandi húsnæði; kojum skóflað inn í einbýlishús, íbúðir hólfaðar niður í frímerki. Árið 2018 var sagt frá því að erlendir starfsmenn væru rukkaðir um 150.000 krónur fyrir 10 fm herbergi. Guð má vita hvaða upphæð það yrði í dag.
Þessir viðskiptahættir hafa verið við lýði hér síðan landamæri voru opnuð fyrir frjálsu flæði vinnuafls upp úr aldamótum. Það var öllu til tjaldað þegar vinnubúðirnar uppi á Kárahnjúkum voru kynntar almenningi; áttu að vera flottustu vinnubúðir Evrópu. Engu til sparað. Halldór Ásgrímsson heimsótti þær og á að hafa sagt að þarna gæti hann vel hugsað sér að búa. Hann gerði það samt ekki. Fór bara heim í selskinnsjakkanum í fína hlýja húsið sitt eins og við mörg. Uppi á Kárahnjúkum fuku hins vegar þök og hurðir af vistarverum, snjór blés inn um glugga og fög og fólk þurfti oft að ganga marga kílómetra til að komast á klósett eða skríða í gegnum veðravíti til að fá sér kaffi eða mat inni í 40 feta gámum. Maður hefði haldið að það ofbeldi sem var framið uppi á Kárahnjúkum hefði gjörbylt því hvernig staðið væri að framkomu við erlent vinnuafl á Íslandi. En auðvitað ekki. Það mætti segja að það sé ákveðin sérhæfing okkar Íslendinga að sjá ný tækifæri og kreista þau eins fast og við getum og eins hratt og við getum þangað til ekki er dropi eftir og við getum snúið okkur að næsta.
Þannig að við höfum haldið áfram að moka inn fólki, moka því inn í gáma, herbergiskytrur og atvinnuhúsnæði þar sem fjöldi deilir einu baðherbergi, ferðahellu og örbylgjuofni og látum þau borga drjúgan hluta af laununum sínum fyrir viðvikið. Pössum að þau þekki ekki rétt sinn, pössum að þau biðji aldrei um of mikið. Ef einhver kvartar of mikið eða fer að spyrja spurninga er auðvelt að skófla honum bara út, daginn eftir er kominn einhver nýr í staðinn. Þetta er fólkið sem bókstaflega byggir þetta land. Fólkið sem er sent til þess að byggja virkjanir og 300 herbergja lúxushótel. Þetta er fólkið sem byggir þessi endalausu grafhýsi fyrir millistjórnendur sem eiga einhvern veginn að vera lausnin á húsnæðisvanda þjóðarinnar þar sem baðherbergin eru stærri en herbergin sem þetta fólk býr í. Það verður stöðugt að gefa þenslunni að borða. Eru jú ekki öll almennileg heimsveldi reist á herðum þræla? Þess vegna er þetta ekki stöðvað, ekki lagað. Það má aldrei hægja á vélinni.
Mennirnir sem bera ábyrgð á húsnæðinu við Funahöfða eru náttúrlega okkur bestu viðskiptamenn. Hugsjónamenn sem hafa byggt upp blómlegt atvinnulíf á Íslandi; fasteignamógúlar sem hafa haft fingurna í fjölmiðlum og stjórnmálum. Það er listgrein að kóa með svona mönnum; svona úrvalsmönnum. Verða einhvern tímann einhverjar afleiðingar fyrir þá? Það var náttúrlega ekkert að þessu húsnæði nema einn brunastigi sem þurfti að laga. Allt annað bara í toppmálum.
Kannski leyfum við þessu að halda svona áfram endalaust því að þetta er einfaldlega þjóðfélagið sem við erum að byggja. Svona komum við fram við fólk sem freistar hér gæfunnar í leit að betra lífi, hvort sem það er til að vinna eða flýja stríðsátök eða ofsóknir. Framkoma hins opinbera við hælisleitendur í gegnum árin hefur ekki verið mikið betri en hjá starfsmannaleigum; fólk var látið dúsa réttlítið í óviðunandi aðstæðum, eins og í Arnarholti á Kjalarnesi þar sem fólk var geymt í örvæntingu á meðan kerfið kláraði að spýta þeim aftur upp í flugvél og í hverja þá martröð sem mætir þeim á næsta stað. Þetta er eitt af þeim vandamálum sem nýju útlendingalögin eiga að leysa; spýta þessu fólki enn hraðar í gegnum kerfið svo við þurfum einfaldlega ekkert að hýsa þetta fólk lengur. Og þegar kerfið var búið með þau var það bara sent á götuna. Í meira en mánuð var hátt í 60 manns svipt allri þjónustu – þar á meðal húsnæði. Og á meðan bjúrókratarnir bentu hver á annan var þetta fólk bara á götunni. Þetta er velferðarsamfélagið sem við hreykjum okkur svo oft af.
Skilaboðin sem yfirvöld senda eru alveg skýr: ekki koma. Ekki koma hingað ef þú ert á flótta. Ekki koma hingað í leit að betra lífi. Og ef þú kemur hingað í leit að betra lífi þá skaltu moka skítinn brosandi.
Þú mátt samt koma ef þú ert bandarískur túristi með dúskhúfu og djúpa vasa. Vertu velkominn. Það eru núna 12.000 hótelherbergi á Íslandi sem skófla í gegnum sig sirka 2,5 milljónum ferðamanna á ári. Nóg af plássi fyrir þau og endalaust hægt að bæta við. Sem ég skrifa þetta horfi ég út um gluggann á stóra gröfu jafna gamla sjónvarpshúsið við jörðu svo hægt sé að reisa 170 herbergja Hyatt hótel í staðinn. Hvaða fólk ætli byggi það hótel? Hvernig ætli það fólk búi á meðan? Ætli við reynum ekki að hugsa sem minnst um það.
Við erum nefnilega búin að venja okkur á að það séu í raun tvær þjóðir í þessu landi. Við og þau. 20.000 manna pólskt samfélag sem við höfum lítið gert til að samlagast, lítið gert til þess að kynna okkur þeirra menningu eða gefa þeim rödd í samfélaginu. Þúsundir annarra sem við vitum raunar enn minna um. Best að hugsa ekki of mikið um það. Það er ekki gaman að vera alltaf að velta fyrir sér forréttindum sínum, velta fyrir sér á hvers herðum við stöndum til þess að viðhalda okkar lífsstíl. Og ef við hugsum ekki of mikið um þetta fólk er auðvelt að gera lítið úr jaðarsetningu þeirra og því óréttlæti sem þau búa stöðugt við. Það er auðvelt að gera úr þeim grýlur þegar það verða árekstrar, smætta þau niður í afætur og vandamál sem einhver annar þarf að leysa.
Þannig að ef þú færð að koma hingað, ekki spyrja of margra spurninga, ekki biðja um of mikið, ekki tala við verkalýðsfélagið þitt. Mættu bara í vinnuna; byggðu íbúðarhúsin og hótelin. Byggðu virkjanirnar og álverin. Þrífðu og þjónustaðu og farðu svo heim í 10 fermetra herbergið þitt í ósamþykkta atvinnuhúsnæðinu og vonaðu að það kvikni ekki í þér í nótt.
Athugasemdir (6)