Þrír menn voru fluttir á slysadeild eftir að eldur kom upp í húsnæði við Funahöfða 7 síðdegis í gær. Einn hinna slösuðu lést á gjörgæsludeild nokkru síðar en hinir tveir eru ekki taldir í lífshættu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
Eldsupptök eru ókunn en rannsókn lögreglu á brunavettvangi stendur yfir.
Tilkynning um eldinn barst upp úr klukkan þrjú í gærdag og hélt fjölmennt lið viðbragðsaðila þegar á staðinn. Slökkvistarf gekk vel og var að mestu lokið innan klukkustundar.
Eldurinn kom upp á fyrstu hæð hússins í herbergi sem var alelda þegar slökkvilið kom á staðinn. Húsnæðið að Funahöfða 7 er skilgreint sem atvinnu- og skrifstofuhúsnæði.
Vísir ræddi í gær við Jakub Malinowski, sem býr á annarri hæðinni og sagði hann að um 20-30 manns byggju þar; flestir pólskir eins og hann sjálfur en einnig einhverjir litháar og nokkrir frá öðrum löndum.
Funahöfði 7 er að mestu í eigu tveggja félaga sem eru í eigu þeirra Péturs Árna Jónssonar, framkvæmdastjóra HEILD fasteignafélagsins og aðaleiganda útgáfufélags Viðskiptablaðsins, Jóns Einars Eyjólfssonar, stjórnarmanni hjá ELJU starfsmannaþjónustu, og Arnars Haukssonar, sem hefur unnið sem stjórnandi hjá ELJU.
Athugasemdir (1)