Gjafir lífsins eru misjafnar og hefur lífinu verið líkt við konfektöskju þar sem sumir molar eru ljúffengir og sálarnærandi meðan aðrir eru vondir og beiskir. Öll stöndum við frammi fyrir ýmsum áskorunum á mismunandi tímum ævinnar og getur þá skipt máli hvert bakland og staða einstaklings er. Hugurinn reikar um ýmis æviskeið og staldrar við á mismunandi tíma í alls konar lífi mínu, nú þegar ég reyni að fanga það „hvað ég hef lært“.
Hvað hefur lífið kennt mér, skottunni sem naut þess að hlaupa berkríkuð og berfætt í gulum vélprjónuðum nærbuxunum út í sumarmorguninn, lenda iljunum í daggarbaðaðan, stingandi grassvörðinn og finna pollavatnið skvettast upp á hvíta spóaleggina um leið og mjúkur moldarleirinn þrýstist upp á milli tánna. Ilmandi ferskt morgunloftið, blandað angan af nýslegnu grasi, vallhumal, sóleyjum og mykju, streymdi í áreynslulausum takti inn í vitin.
Skotta sem var ein í heiminum umkringd fallegustu Austfjarðafjöllunum í fallegustu sveitinni, skotta sem kallaðist á við syngjandi dirrindíið svo fjöllin tóku undir í djúprödduðu ekkói, áhyggjulaus í algjörri núvitund.
Hvað hefur lífið kennt mér, hamingjusömustu smákellingu sem sat rígmontin með kálfsdrykk í glasi og saug kaffibragðið í gegnum sykurmolann, í besta félagsskapnum hjá ömmu sem sagði mér ótrúlegustu ævintýri sem alltaf enduðu vel?
Hvað hefur lífið kennt mér, stelpustýri sem reyndi eftir bestu getu að létta undir með mömmu sem gefið hafði mér hvorki meira né minna en fimm yngri systkini og allt það sem móðir getur gefið?
Hvað hefur lífið kennt mér, pabbastelpunni sem átti mínar bestu stundir sitjandi á sparksleðanum sem pabbi, raulandi, sparkaði áfram, hratt og öruggt yfir ísilagt túnið þegar kindurnar voru sóttar heim í fjárhús?
Hvað kenndi lífið mér, stelpuanga sem varð fyrir barðinu á stríðni eldri skólafélaga, stríðni sem í dag myndi sennilega kallast einelti?
Jú, ég lærði að, það að vera frjáls og njóta íslenskrar náttúru er dásamleg gjöf, dýrmæti sem ekki er sjálfgefið og endist innra með mér svo lengi sem ég dreg andann. Ég lærði að hjá foreldrum mínum átti ég alltaf skjól og að systkini mín eru bestu bandamennirnir. Ég lærði að amma skildi allt, líka óþol mitt við kúamjólk og elska hennar var takmarkalaus. Ég lærði ung að taka þátt, taka ábyrgð og vera sjálfstæð. Mín dulitla aðstoð í ýmsum verkum á stóru heimili í sveit skipti máli, ég lærði að hjálp mín var metin og að margar hendur unnu létt verk. Og ég lærði að særandi og heimsk orð samnemenda geta haft áhrif á sjálfstraust langt fram á fullorðinsárin. Síðar meir lærði ég að tröll, hvort sem þau eru í daglegu lífi eða í netheimum, eru lítils háttar og sjaldnast svaraverð hvað þá meira.
Hvað lífið hefur kennt mér, unglingnum og ungmenninu sem upplifði bæði öryggi og óöryggi unglingsára, og uppgötvaði að fullorðið fólk var breyskt og átti sumt hvað erfiðast með að leysa eigin sálarflækjur. Harmi var troðið í ósýnilegan tilfinningapoka, enda tilfinningalegur sársauki erfiðasti sársaukinn og ekki rætt um óþægileg og erfið mál.
Ég lærði að best er að takast á við sársaukann og veita honum farveg frekar en að byrgja hann inni. Ég lærði að erfiðleikar og sorg eru sjálfsagðir förunautar líkt og gleðin og velfarnaður og að tárin eru góður farvegur tilfinninga, hvort sem þau falla í gleði eða sorg.
„Ég lærði að best er að takast á við sársaukann og veita honum farveg frekar en að byrgja hann inni“
Hvað hefur lífið kennt mér, ungu konunni sem trúði að öll væru jöfn og öll hefðu jöfn réttindi og tækifæri til að eiga gott og innihaldsríkt líf? Ég lærði að mínar rómantísku hugmyndir um jöfnuð og jöfn tækifæri til þátttöku í samfélaginu voru sennilega meira í ætt við ævintýrin sem enduðu vel en raunveruleikann. Ég lærði líka að þrátt fyrir það er best að fylgja innsæinu, trúa á draumana og hvika ekki, heldur halda ótrauð áfram, hvort sem lífið bauð mér upp brekkuna eða niður.
Hvað hefur lífið kennt miðaldra mér sem hef upplifað mestu gleði og dýpstu sorgir, vanmátt og dýrmætan stuðning, óeigingjörnustu ást og magnaða elsku? Mér sem hef fengið að lifa dásamlega tíma fjarri stríðum heimsins, og stundum erfiðustu raunir í mínu ófullkomna en gefandi lífi. Hvað hef ég lært sem syrgði sjálfa mig og ætlaði að hafa sigur með viljann einan að vopni? Ég lærði að viðurkenna vanmátt minn þegar sálin treysti mér loks til að horfast í augu við að ég myndi aldrei aftur hlaupa frjáls út í sumarmorguninn, og aldrei verða söm. Ég lærði að lífið væri þess virði að lifa því, að fötlun mín gæti verið blessun en ekki böl, og fyrir það er ég þakklát og stolt, fötluð kona.
„Ég lærði að viðurkenna vanmátt minn þegar sálin treysti mér loks til að horfast í augu við að ég myndi aldrei aftur hlaupa frjáls út í sumarmorguninn“
Ég hef lært að andinn er líkamanum sterkari, að í dýpsta svartnætti leynist ljóstýra vonar sem mikilvægast er að blása til lífs. Ég hef lært að upprisa getur verið án fóta, að jöfnuður og réttlæti eru ekki rómantískar hugmyndir heldur kraftur hugsjóna og afl vonar um betra samfélag þar sem við öll höfum aðgengi að sjálfsögðum réttindum.
Ég hef lært að breyskleiki er mannlegur og að þó verkefnin virðist sum hver stærri en ég sjálf, líður mér best þegar ég veit að ég hef gert mitt besta til að leysa þau. Og ég hef lært að skilningur er besta meðalið við fordómum. Ég hef lært að lífið er ekki einfalt og það er ekki gefins, en alltaf þessi virði.
Athugasemdir (8)