Foreldrum barna á Vöggustofunni Hlíðarenda var um tíma almennt meinað að umgangast börn sín á meðan þau voru á vöggustofunni. Þannig var þeim bannað að halda á börnunum eða snerta þeim með öðrum hætti, sama af hvaða ástæðum börnin voru á vöggustofunni.
Ástæðurnar fyrir því voru fjölþættar en gjarnan voru börn vistuð á vöggustofum í Reykjavík á árunum 1949 til 1973 vegna fátæktar foreldra, húsnæðisvanda eða skorts á dagvistunarúrræðum. Í mörgum tilvikum var þó engin ástæða skráð.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslu nefndar sem skipuð var til þess að rannsókna starfsemi vöggustofa. 1.083 börn voru vistuð á vöggustofunum sem til rannsóknar voru á þessu tímabili.
Takmörkuð umgengni foreldra og barna sem voru á vöggustofunum leiddi til þess að tengsl þeirra voru að miklu leyti rofin, oft á mjög löngum tímabilum. Nefndin telur að um hafi verið að ræða illa meðferð á börnum.
„Mikilvægi persónulegra tengsla barns við foreldra, eftir atvikum aðra umönnunaraðila, á fyrstu þremur árum ævinnar var vel þekkt meðal fagfólks í málefnum barna á þeim tíma sem vöggustofurnar störfuðu,“ segir í skýrslu nefndarinnar. „Sama gildir um þann skaða sem skortur á slíkum tengslum gat haft á þroska barns til framtíðar.“
Hefðu getað dregið úr áhrifunum en gerðu það ekki
Nefndin telur að hægt hefði verið að draga úr skaðlegu áhrifunum sem urðu af tengslarofi barns og foreldris með því að stuðla að sterkum og góðum félagslegum tengslum barnsins við þau sem önnuðust það á vöggustofunni.
„Með tilliti til þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um fjölda starfsmanna, fyrirkomulag vaktaskipta og þess annríkis í störfum sem allir fyrrverandi starfsmenn greindu frá telur nefndin hins vegar afar ólíklegt að starfsfólk vöggustofurnar hafi verið í aðstöðu til að veita börnunum persónulega umönnun sem gat einhverju marki vegið upp á móti því áfalli sem hlaust af því að tengsl við foreldri voru alfarið rofin,“ segir í skýrslunni.
Þegar börnin sneru aftur til foreldra sinna eftir vistun á vöggustofunni á Hlíðarenda voru þau, að sögn mæðra þeirra, oft eftir á í þroska.
Í skýrslunni er sögð svipuð saga af Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins, þó ekki sé alveg skýrt hvort foreldrar hafi einungis fengið að sjá börnin sín í gegnum gler þar eða hvort þeir hafi fengið eitthvað meiri umgengni við börnin sín. Slík umgengni virðist hafa aukist eftir að Ragnheiður Jónsdóttir tók við starfi forstöðukonu í maí árið 1967. Starfsmenn sögðu nefndinni að þá hefðu foreldrar mátt vera með börn sín í fanginu í heimsóknum. Fyrir þann tíma virðist börnunum almennt hafa verið meinað að umgangast börn sín.
Athugasemdir