Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.
Ljóðið orti skáldið Hulda og sendi inn í ljóðasamkeppni sem efnt var til í tilefni af lýðveldisstofnuninni 1944. Ljóðið vann til verðlauna ásamt ljóði Jóhannesar úr Kötlum en það ljóð hét „Land míns föður“. Bæði ljóðin þarf að skoða í sögulegu samhengi. Þarna vorum við að fagna árangri og sigri í lýðveldisbaráttunni og á þeim tíma voru ljóðin bæði þörf og fögur og hvöttu til ættjarðarástar og sameiningar. Við friðsæla Ísland og svo hinir, þar sem óttinn og óreiðan býr, óralangt í burtu. Ljóðin gefa hins vegar til kynna að við virðumst frekar fljótt hafa feðrað landið, jafnvel þótt að móðir þess hafi mögulega legið meidd á meðan.
Faraldurinn og frávikin
Stígamót halda ráðstefnu um ofbeldismenn á Íslandi 12. október næstkomandi. Ráðstefna þessi markar ákveðin þáttaskil í orðræðunni. Við ætlum að ræða um þá sem meiða, af hverju þeir meiða og hvað við eigum að gera við þá. Í auglýsingu Stígamóta kemur fram að „Ráðstefnan er ætlum öllum sem vilja dýpka skilning á því hverjir séu ofbeldismenn, af hverju þeir fremji ofbeldi, hvernig sé hægt að aðstoða menn til að hætta að beita ofbeldi og rýna betur í hvað það er í menningu okkar og samfélagi sem viðheldur ofbeldi.“ Orðalag þetta virtist fara fyrir brjóstið á þó nokkrum einstaklingum í athugasemdakerfi auglýsingarinnar og mörgum fannst ámælisvert að Stígamót skyldi voga sér að kyngreina vandann. Konur beiti nú líka ofbeldi og örugglega bara til jafns við menn og þar af leiðandi eigi ekki að eigna karlmönnum ólund sína og óyndi sitt. Auglýsing þessi hrikti í stoðum staðreyndarfælinna og upplýsingaóreiða og geðþóttaskoðanir létu á sér kræla. Internetið er undarlegur staður sem stendur. Ég renndi yfir athugasemdirnar og fann ákveðin samhljóm við aðrar athugasemdir sem reglulega birtast þegar umræða um kynbundið ofbeldi gegn konum vogar að láta á sér kræla.
„Konum alls staðar í heiminum stafar hætta af körlum“
Kynbundið ofbeldi er samkvæmt lögum skilgreint sem: Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi. Kynbundið ofbeldi hefur margar birtingarmyndir í lífi kvenna. Það getur falið í sér líkamlegt, kynferðislegt, stafrænt, fjárhagslegt og andlegt ofbeldi. Brotavettvangur getur verið innan vinnustaða, fjölskyldna, hjónabands eða annarra kunnugra rýma. Samfélagið sjálft getur ýtt undir kynbundið ofbeldi með því m.a. að gefa skaðlegum geðþóttaskoðunum byr undir báða vængi á kostnað vísindarannsókna og með því að venjuvæða tímaskekkjur í formi afskiptaleysis. Tímaskekkjur þessar eru m.a. hættulegar hefðir, s.s. ofbeldi tengt heimanmundi, limlestingar á kynfærum kvenna og nauðganir í hjónabandi. Misnotkun einstaklinga í gróðaskyni, s.s. í formi mansals og vændis, er einnig gífurlega kynbundinn glæpur. Þegar við skoðum alþjóðlegar tölur um ofbeldi hallar áþreifanlega á öryggi og tilvistarrétt kvenna. Ísland er þar enginn eftirbátur annarra þjóða. Yfirstandandi aðför gegn trans konum og hinsegin samfélaginu hérlendis sýnir það skýrt að hatur gegn minnihlutahópum lifir hér góðu lífi illu heilli. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lítur á ofbeldi gegn konum sem faraldur. Að baki þeirri yfirlýsingu er gagnreynd, margreynd og sannreynd tölfræði. Geðþóttadrifnir og sjálfskipaðir sérfræðingar og hræddir fjölskyldumeðlimir í hollustuklemmu vilja hins vegar að vigt frávikanna sé jafngild faraldrinum. Það er skaðleg hugsanaskekkja sem tefur fyrir upprætingu rótarinnar.
Kynbundið væl?
Konum alls staðar í heiminum stafar hætta af körlum. Ofbeldi gegn konum og ungum stúlkum er sá glæpur sem er ólíklegastur til að enda með sakfellingu. Afleiðingarnar eru því miður þess eðlis að þær hafa lítinn fælingarmátt fyrir gerendur. Alþjóðlegu samtökin UN Women hafa sagt að ofbeldi gegn konum er oft svo samþætt hugsunum og skoðunum í hinum ýmsum menningarheimum að samfélagslega sinnuleysið gagnvart því geri ofbeldið nær ósýnilegt. Tíðni þess og tilvist hefur gert fólk hálf tilfinningalaust gagnvart alvarleika þess. Alvarlegasta birtingarmynd af kynbundu ofbeldi er kvenmorð (femicide). Tilvist hugtaksins endurspeglar kynbundin heim. Kvenmorð er skilgreind sem morð á konum vegna kyns þeirra.
-
Talið er að árið 2021 hafi 81.000 konur og stúlkur verið myrtar vegna kyns þeirra. Um 45.000 þeirra (56%) létust af hendi maka eða fjölskyldumeðlima. (UN Women)
-
Talið er að 137 konur og stúlkur séu myrtar daglega í heiminum af hendi maka eða fjölskyldumeðlima. (Femicide Census)
-
Hættulegasti staðurinn fyrir konur sé heimili þeirra. Áætlað er að kona eða stúlka sé myrt á 11 mínútna fresti í heiminum á heimili sínu. (UNODC)
-
Sex konur eru myrtar á hverjum klukkutíma af hálfu karlmanns. Karlmennirnir eru annaðhvort makar þeirra eða fjölskyldumeðlimir. (weforum.org)
Árlega er gefin út ársskýrsla Femicide Census til að varpa ljósi á alvarleika kynbundins ofbeldis í Bretlandi. Þar kemur fram að karl myrðir konu á þriggja daga fresti í Bretlandi. Þessi tala hefur ekki breyst síðastliðin 10 ár. Árið 2020 voru 110 konur myrtar af hendi karlmanna þar í landi. Aðeins 79 gerendur voru fundnir. Af þessum 110 konum voru 57 myrtar af hálfu maka eða fyrrverandi maka, 14 þessara kvenna voru myrtar af syni sínum og 9 konur myrtar af ókunnugum karlmanni. Af þessum morðum voru 77 þeirra framin á sameiginlegu heimili þolanda og geranda eða heimili þolanda eða heimili geranda. Hnífur eða beitt verkfæri var notað til að myrða 42 konur. Morðingjar kyrktu eða kæfðu 24 þessara kvenna og 14 voru barðar, sparkað eða traðkað á til dauða. Morðin á 49 þessara kvenna var skilgreint sem óheflað afl, þ.e. meira afl var notað en til þurfti til að myrða. Meiri en helmingur gerenda hafði áður orðið uppvís að ofbeldi gegn konum. Flestir ofbeldismannanna voru á aldrinum 36-45 ára og fæddir í Bretlandi. Einungis lítill hluti þeirra, eða 10 einstaklingar, voru greindir með geðræn veikindi og allir skilgreindu sig sem gagnkynhneigða. Þeir sem voru fundnir sekir um morð af yfirlögðu ráði hlutu dóm frá 6 árum upp í 35 ár. Kvenmorð hafa átt sér stað á Íslandi og fyrsta íslenska rannsókn þess eðlis er frá 2014. Þar voru skoðaðir 8 dómar á 20 ára tímabili þar sem kona var myrt vegna kyns síns. Konurnar voru myrtar í kjölfar ofbeldissambands og þá oftast í skilnaðarferli eða eftir skilnað. Allflestir gerendurnir voru sakhæfir og taldir ábyrgir gjörða sinna og hlutu refsingu. Refsingarnar voru frá 5-18 ár, þar sem algengasta refsing var 16 ár (lífstíð skv. íslenskum hegningarlögum).
Strákarnir okkar
Árið 2011 undirritaði Ísland ásamt 13 aðildarríkjum Evrópuráðsins samning um að koma í veg fyrir og berjast gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Samningur þessi var fyrsti bindandi alþjóðasamningurinn sem tók heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum. Samningurinn er lagarammi um vernd kvenna gegn ofbeldi, forvarnarstarf, saksókn á hendur gerendum og útrýmingu heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum. Samningur þessi hefur ekki virkað sem skyldi. Flott plagg sem flögrar út í vindinn.
Árið 2022 leituðu 978 einstaklingar til Bjarkarhlíðar í fyrsta viðtal. Um 88% þeirra voru konur og um 90% þeirra voru gagnkynhneigðar konur. Meirihluti kvennanna komu þangað til að ræða heimilisofbeldi, og í því tilfelli andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, morðhótanir, kyrkingartök, stafrænt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og beint/óbeint ofbeldi gegn barni. Gerendurnir voru karlmenn í 83% mála og flestir á aldrinum 31-40 ára. Langflestir gerendanna voru núverandi eða fyrrverandi makar brotaþola.
Tölur frá Stígamótum staðfesta enn fremur tilvist kynbundins ofbeldis á Íslandi. Á árunum 2013-2021 leituðu 3.118 brotaþolar kynferðisofbeldis til Stígamóta í fyrsta skipti. Rúmlega 86% þeirra voru konur. Brotaþolar þessir fylltu út spurningalista um 4.968 ofbeldismenn sem beittu þá kynferðisofbeldi. Tæplega 95% ofbeldismanna voru karlar og flestir þeirra voru íslenskir, eða 77,5%. Yfir helmingur ofbeldismanna (51.6%) voru á aldrinum 18 til 39 ára þegar þeir beittu brotaþola kynferðisofbeldi í fyrsta skipti. Um 31% ofbeldismanna voru í sambandi, sambúð eða hjúskap þegar þeir beittu ofbeldinu. Athygli vekur að aðeins 16,6% ofbeldismanna voru ókunnugir þeim sem þeir beittu ofbeldinu, og 70,5% ofbeldismannanna voru tengdir þeim sem þeir brutu á fjölskylduböndum eða voru vinir og kunningjar þeirra. Goðsögnin um að einstaklingum stafi mest hætta af kynferðisofbeldi af hendi ókunnugra fær því ekki staðist.
Hugsanaskekkjan lifir
Þegar kemur að einstaklingum sem brjóta kynferðislega á fullorðnum og börnum viljum við að þetta séu fram úr hófi óaðlaðandi menn sem enginn vill þekkja og að þeir séu helst eingetnir og án móður. Krafan er órökrétt en í samræmi við heimsmyndarósk þeirra sem ekkert illt vilja sjá eða vita. Við viljum að þeir líti út fyrir að vilja öðrum skaða. Við viljum að þeir þekki ekki fórnarlömb sín, ráðist á þau inni í dimmum húsasundum úr launsátri þar sem þau eru grunlaus og varnarlaus. Best ef þær eru blindfullar og í stuttum pilsum svo hægt sé að deila ábyrgð og samfélagsskömm. Staðreyndin er hins vegar önnur og það virðist skekkja heimsmynd fólks. Frávikin stýra ekki ferð í raunveruleikanum þótt þau rembist við að gera það í staðreyndarfælnum almannaálitum.
Líkt og tölur Stígamóta staðfesta þá eiga kynferðisbrot sér oftast stað innan fjölskyldna eða annarra kunnugra félagslegra rýma. Kynferðisafbrotamenn samtímans eru oftast vinir okkar, feður, synir, afar og frændur. Þetta geta líka verið óskabörn þjóðarinnar, kirkjunnar menn, íþróttamenn, dáðadrengir og sameiningartákn bæja og borga. Þetta eru menn sem fólk kann vel við og þykir vænt um. Þegar þessir einstaklingar eru grunaðir um kynferðisbrot virðist heimsmynd margra hrynja. Aðstandendur og aðdáendur upplifa hollustuklemmu og þar sem kynferðisafbrot eru alvarleg og ógeðfelld frávikshegðun þá virðist of mörgum tamara að deila sökinni með þolanda, afneita sannleikanum eða afbaka staðreyndir. Þolandinn þjáist í kjölfarið meira en þurfa þykir og upplifir sig án stuðnings og er þar af leiðandi fullur efasemda um alvarleika eða jafnvel tilvist brots. Gerendameðvirkni og gaslýsing ryður sér til rúms með offorsi og andúð og þolandi þagnar, stundum endanlega.
Lokaorð
Raunveruleikafirringin þegar kemur að kynbundnu ofbeldi hér á landi og þó víðar væri leitað er skaðleg þolendum, samfélagi okkar til skammar og tölfræðilega alröng. Undanfarin ár hefur komið betur og betur í ljós hve algeng kynferðisbrot eru í íslensku samfélagi. Góð og gild tölfræðigögn rökstyðja þessa fullyrðingu. Í tölfræðigagnagrunni EUROSTAT er að finna upplýsingar um efnisflokkaðar staðtölur um afbrot úr málaskrá evrópskra lögregluembætta. Þær upplýsingar gefa hugmynd um tíðni kynferðisbrota á Íslandi, í samanburði við önnur Norðurlönd og Evrópuríki. Þær tölur benda til þess að í það minnsta á árunum 2017–2019 hafi tíðni kynferðisafbrota hér á landi verið umtalsvert hærri en í flestum öðrum ríkjum á Norðurlöndum, að Svíþjóð undanskildu.
„Hver á sér fegra föðurland“ spurði skáldið. Nú augljóslega flest Norðurlöndin þegar kemur að tíðni kynferðisafbrotamála. Og síðar „Með friðsæl býli, ljós og ljóð, svo langt frá heimsins vígaslóð“. Ættjarðarsöngurinn fölnar í nýju sögulegu samhengi samtímans.
Athugasemdir (1)