Isaac Kwateng, vallarstjóri Þróttar, var rétt rúmlega tvítugur þegar hann kom til Íslands í janúarmánuði 2018. Það var kalt. Hann var ekki vanur svona kulda í heimalandinu Gana.
Fyrstu mánuðirnir voru honum erfiðir. Hann hafði stuttu áður misst móður sína, sinn síðasta aðstandanda á lífi, og vissi ekki hvað framtíðin bæri í skauti sér. Hann var reglulega fluttur á milli húsnæða á vegum Útlendingastofnunar.
Seinna þetta sama ár var umsókn hans um vernd hér á landi hafnað. Hann fékk símtal frá Útlendingastofnun: „Það á að vísa þér úr landi.“
En svo gerðist ekkert. Isaac segir að manneskjan sem aðstoðaði hann við að komast frá Gana hafi tekið af honum passann. Hann gat því ekki yfirgefið Ísland. Enginn kom til þess að færa hann úr landi.
Eftir þetta fékk Isaac sama símtalið árlega: „Það á að vísa þér úr landi,“ en aftur og aftur endurtók sama atburðarásin sig. Enginn kom og færði hann með valdi úr landi. Samt var hann til að byrja með í húsnæði á vegum Útlendingastofnunar og síðar, þegar hann var kominn í sitt eigið húsnæði segir lögmaður Isaacs að lögreglan hafi verið meðvituð um það hvar hann bjó.
„Á hverju ári hringir lögreglan og vill að ég fari aftur til Gana. Ég sef ekki. Mér verður illt í hjartanu og ég hugsa mikið,“ segir Isaac.
Mun koma sér mjög illa fyrir Þrótt
Það hjálpaði honum að byrja að æfa fótbolta en hann hefur síðan 2018 spilað fótbolta með SR, varaliði Þróttar. Isaac er einn af þeim sem missir ekki úr æfingu, segir þjálfarinn Jón Hafsteinn Jóhannsson.
„Maður sá strax hvað þetta skipti hann miklu máli,“ segir Jón Hafsteinn.
„Hann er bara orðinn partur af þessari fjölskyldu sem Þróttur er,“
Hægt og rólega fór Isaac að taka meiri þátt í starfsemi félagsins, meðal annars með því að sinna sjálfboðaliðastörfum og aðstoða við þjálfun. Fólkinu í félaginu fór að þykja vænt um unga manninn og skrifuðu á sjöunda tug Þróttara undir meðmælabréf fyrir Isaac þegar umsókn hans um alþjóðlega vernd var tekin fyrir hjá Útlendingastofnun.
Þegar starf vallarstjóra opnaðist fyrir tæpum tveimur árum síðan sótti Þróttur um tímabundið atvinnu- og dvalarleyfi fyrir Isaac sem þarf að endurnýja á um hálfs árs fresti.
„Hann er bara orðinn partur af þessari fjölskyldu sem Þróttur er,“ segir Jón Hafsteinn.
María Edwardsdóttir, framkvæmdastjóri Þróttar, tekur undir það.
„Við verðum bara handlama hérna án hans,“ segir María. „Fyrirvarinn er stuttur og þetta mun koma sér mjög illa fyrir okkur.“
Þróttur er fjölskyldan
Hundruð manna úr Þróttarfjölskyldunni mættu til þess að sýna Isaac stuðning á samkomu á velli félagsins í Laugardal í lok júlí.
„Þau eru fjölskyldan mín, þau eru eina samfélagið sem ég á,“ segir Isaac sem er einkabarn foreldra sinna. Þau eru bæði látin.
„Ef ég fer til Gana þá er ég ókunnugur núna í mínu eigin landi. Ég veit ekki hvert ég ætti að fara og hvar ég ætti að vera,“ segir Isaac.
„Mig langar að vera þjálfari í framtíðinni og byrja með fyrirtæki. Mig langar að gefa aftur til samfélagsins það sem samfélagið hefur gefið mér,“
En útlit er fyrir að honum verði vísað úr landi núna. Lögreglumaður gekk inn á skrifstofu Þróttar fyrir nokkrum dögum síðan og tilkynnti framkvæmdastjóra félagsins, Maríu Edwardsdóttur, að flugmiði hafi verið keyptur fyrir Isaac þann 16. október næstkomandi. Hvert fylgdi ekki sögunni en aðstandendur Isaacs hér á landi telja líklegt að senda eigi hann til Gana með millilendingu annars staðar í Evrópu og lögreglufylgd.
Hafa sótt um ríkisborgararétt
Það er miður, segir Helgi Þorsteinsson Silva lögmaður Isaacs, sérstaklega í ljósi þess að umsókn Isaacs um íslenskan ríkisborgararétt bíður nú Alþingis. Þá er sömuleiðis beiðni um endurnýjun tímabundins atvinnu- og dvalarleyfis í kerfinu. Þessar umsóknir hafa þó ekki áhrif á heimild lögreglu til þess að vísa Isaac úr landi.
„Mér finnst mjög leiðinlegt ef hann er búinn að vera hérna í einhverju limbói í fimm, sex ár og svo þegar er bara svona mánuður í svar við temmilega góðri umsókn fyrir Alþingi þá [eigi að senda hann burt],“ segir Helgi um ríkisborgaraumsóknina.
Jón Hafsteinn tekur undir þetta og segir það skjóta skökku við að maður sem er í vinnu, greiðir skatta á Íslandi og er að bíða þess að umsókn um ríkisborgararétt verði tekin fyrir verði sendur úr landi áður en fyrirtakan er haldin, sem verður líklegast í desember.
„Af hverju er ekki hægt að geyma [brottvísunina] fram í janúar?“ spyr Jón Hafsteinn.
Býr fyrir opnum tjöldum á Íslandi
Óljóst er hvers vegna Isaac er enn hér á landi, fimm árum eftir að lögreglan ætlaði fyrst að vísa honum úr landi. Helgi tekur fram að Isaac hafi sannarlega ekki verið í felum.
„Hann er búinn að vera hérna fyrir opnum tjöldum í sex ár og er orðinn hluti af ungliðastarfinu og er þjálfari og vallarstjóri og hvað eina hjá Þrótti.“
Hjálpar það honum ekkert að hann sé búinn að vera hérna svona lengi?
„Það ætti að gera það,“ segir Helgi. „Það er eitt sérstakt leyfi sem er dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla sem ætti mjög við um þennan mann. En það hefur verið afstaða Útlendingastofnunar hingað til að tengsl sem eru mynduð í ólöglegri dvöl – sem dvöl hans flokkast sem þó það sé ekkert honum að kenna, hann getur ekkert farið sjálfur – að þau telji bara ekki.“
Helgi telur sögu Isaacs sýni fram á að gera þurfi breytingar á útlendingalögunum.
„51. grein útlendingalaga segir að þú megir ekki sækja um neins konar leyfi ef þú ert þegar hérna í landinu. Það er það sem lokar á allt þetta fólk. Þú kemur hérna og sækir um í góðri trú því þú heldur að þú eigir rétt á vernd og heldur að umsóknin muni leiða til þess en ef þér er hafnað máttu ekki bara sækja um atvinnuleyfi,“ segir Helgi.
„Ég skil alveg að það sé verið að stýra fólki í að sækja um áður en það kemur til landsins en eins og í þessu tilviki þar sem það er ekkert honum að kenna að hann sé búinn að vera hérna svona lengi – mér finnst að það mætti skoða hvort hann mætti ekki bara fara að vinna hjá Þrótti og fara á atvinnuleyfi.“
Klukkunni kippt úr sambandi
Þá telur Helgi einnig að saga Isaacs sýni að fjölga þurfi tímamörkum í ferlinu. Sem stendur þarf hælisleitandi að fá svar við umsókn sinni um vernd innan 18 mánaða. Ef hann fær ekki slíkt svar innan tímarammans getur hann sótt um mannúðarleyfi. En klukkan hættir að slá þegar kærunefnd útlendingamála hefur úrskurðað í máli hælisleitanda. Isaac fékk sína niðurstöðu innan 18 mánaða.
„Þarna er klukkunni bara kippt úr sambandi,“ segir Helgi. „Fræðilega séð gæti hann verið hérna í 30 ár án þess að það sé nokkur pressa á stjórnvöld að gera neitt.“
Isaac er ánægður á Íslandi en landið er orðið hans heimili og fólkið í Þrótti hans fjölskylda. Hann er að læra íslensku og er farinn að æfa sig að keyra. Spurður um framtíðina ef hann fengi að vera áfram á Íslandi segir hann:
„Mig langar að vera þjálfari í framtíðinni og byrja með fyrirtæki. Mig langar að gefa aftur til samfélagsins það sem samfélagið hefur gefið mér.“
Athugasemdir (6)