Allt að helmingur dýrategunda gæti orðið útdauður árið 2050. Sameinuðu þjóðirnar telja milljón dýra- og plöntutegundir vera í útrýmingarhættu. Einum þriðja sjávardýra stafar bráð ógn af loftslagsbreytingum.
Ég hef allar þessar upplýsingar af heimasíðu ameríska líftæknifyrirtækisins Colossal. Fyrirtækið var stofnað árið 2021 og rataði þá í heimsfréttirnar, enda er starfsemin vægast sagt óvenjuleg. Í dag er fyrirtækið milljarð dollara virði enda telja stofnendur þess sig hafa svarið við milljarð dollara spurningunni: Hvernig bregðumst við við yfirvofandi útrýmingu dýrategunda? Jú, með svokallaðri „af-útrýmingu“.
Fyrsta af-útrýming fyrirtækisins er helguð loðfílnum. Colossal ætlar sem sagt að vekja loðfílinn upp frá dauðum, eða eins konar blending með því að hræra saman erfðamengi loðfíls og asíufíls, en tegundirnar eru náskyldar. Þessa 21. aldar loðfíla á svo að flytja til Síberu og koma þannig loks á jafnvægi í lífkerfi túndrunnar, eftir 4.000 ára fjarveru loðfílsins.
Ég efast ekki um að hjá Colossal starfi vísindamenn sem hafi einlægan áhuga á að berjast gegn loftslagsvánni, en það er eitthvað lýsandi fyrir okkur mennina, hættulegustu dýrategund jarðarinnar, að einmitt svona hugmyndir fangi hug okkar. Við viljum svo einlægt trúa því að loftslagsbreytingar séu tæknilegt vandamál og að lausnin felist ekki í breyttum lifnaðarháttum, breyttu mataræði og breyttri og sanngjarnari samfélagsgerð heldur verði hún til í tilraunaglasi á vísindastofu. Enginn fangar betur andrúmsloftið en Elon Musk sem hefur selt stórborgum í Bandaríkjunum þá hugmynd að lausnin við umferðaröngþveiti sé … jarðgöng fyrir einkabíla.
„Þetta eru loðfílar“
Ríkisstjórn okkar Íslendinga hefur ekkert fram að færa í loftslagsmálum enda langt frá öllum markmiðum sínum. Hún hefur þó fundið sér sinn loðfíl: rafbílinn. Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra hefur heitið bílaleigum landsins milljarði króna til að rafbílavæða flotann og annað eins hefur farið í niðurgreiðslu á lúxusrafbílum ríkasta prósents þjóðarinnar, á meðan enginn vilji er til að fjármagna almenningssamgöngur af alvöru.
Fyrsta skáldsaga Einars Kárasonar bar þann góða titil Þetta eru asnar Guðjón. Mér verður oft hugsað til þessa titils. En út af því að ég vil vera kurteis og góður drengur ætla ég frekar að orða það svona: Þetta eru loðfílar.
Athugasemdir (2)